Væntingar voru um 200 þúsund tonna loðnuvertíð þennan veturinn á grundvelli mælinga haustið 2022. Síðan hefur þó ekki tekist að mæla loðnu í nægilegu magni til að Hafrannsóknastofnun geti mælt með veiðum. Óvanalegt er að loðnan hafi ekki hafið göngu sína í kringum Ísland og eru taldar líkur á að loðna leynist undir hafís við Grænland, að því er fram kemur í fréttaskýringu í laugardagsblaði Morgunblaðsins.
„Síðasta haust mældum við 324 þúsund tonn af kynþroska loðnu en núna [í janúar] vorum við bara að sjá fjórðung af því. Þannig að við eigum von á því að það er meira magn einhvers staðar og það er ekkert útilokað að við gætum séð jafnvel meira, því þessar mælingar okkar eru alltaf spár þar sem við vitum ekki nákvæmlega hve mikið magnið er,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur og verkefnastjóri loðnumælinga Hafrannsóknastofnunar.
Tilkynnt var á miðvikudag að Hafrannsóknastofnun myndi ekki mæla með veiðum á loðnu þennan veturinn á grundvelli janúarmælinga, en fram kom að hafís hefði komið í veg fyrir að hægt væri að mæla á öllu útbreiðslusvæði loðnunnar. Því er stefnt að því að halda til mælinga á ný í febrúar.
„Við þurfum ekki að horfa lengra aftur en í fyrra, þá fórum við í síðbúna mælingu í febrúar einmitt út af því að við náðum ekki nægilega góðri yfirferð vegna ís. Þá kom mikið innskot loðnu á svæði út af norðvesturlandi við Húnaflóa og var mjög mikið magn sem gekk upp á grunninn þar, sem var óvenjulegt og var stór viðbót við mælinguna það árið. Atburðir af þessum toga hafa gerst og geta gerst aftur,“ segir Birkir.
Fréttaskýringuna má lesa í heild í laugardagsblaði Morgunblaðsins eða hér.