Verkís leiðir 2,5 milljarða orkuskiptaverkefni um rafeldsneyti í sjóflutningum. Markmiðið er að gera sjóflutninga umhverfisvænni með því að þróa tæknilausnir og breyta ítölsku flutningaskipi þannig að það gangi fyrir rafeldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.
Verkís sér jafnframt um lagnahönnun fyrir rafeldsneytið, eldvarnir, brunaöryggi og áhættustjórnun, auk þess að eiga þátt í hönnunarstjórnun, hönnun eldsneytiskerfis og lífsferilsgreiningu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verkís.
Nýsköpunarverkefni
Verkefnið er nýsköpunarverkefni og ber heitið GAMMA (Green Ammonia and Biometanol fuel MARitime Vessels). Það er styrkt af Evrópusambandinu og unnið í samstarfi við fjölda fyrirtækja um alla Evrópu.
„Í verkefninu er unnið að því að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum með endurbótum á flutningaskipi í rekstri (e. retrofit) og koma svo lausnunum á markað,“ er haft eftir Kjartani Due Nielsen, nýsköpunarstjóri hjá verkfræðistofunni Verkís, í tilkynningunni.
Á endanum verða full orkuskipti
„Fyrir hönd alls hópsins og samstarfsaðila get ég sagt að við erum afar stolt og þakklát því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur valið að styðja við þetta verkefni að gera alþjóðlegar siglingar umhverfisvænni.
Við munum setja nýjan tækjabúnað um borð í flutningaskip og prófa meðan skipið er í flutningum á milli landa og sanna að hægt sé að nota eldsneytiskerfi sem gengur fyrir rafeldsneyti í stað þess að nota jarðefnaeldsneyti á varaaflvél skipsins. Ef það gengur eftir væri næsta skref að skipta um aðalvél skipsins fyrir full orkuskipti. Verkefnið er mjög framsækið og getur gjörbylt orkuskiptum á sjó,“ er jafnframt haft eftir Kjartani.