Vísindamenn segjast hafa uppgötvað að dílamjórinn hrygni eggjum sínum í hreiður og að lirfurnar dvelji í hreiðrinu í einhvern tíma áður en þær dreifast á stærra hafsvæði. Er þessi ályktun dregin á grundvelli þess að 727 lirfur dílamjórans fundust í meltingarvegi hlýra sem veiddist í marsralli Hafrannsóknastofnunar á síðasta ári, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í vísindagrein sem birt var nýverið í vísindatímaritinu Journal of Fish Biology er sagt frá því að allar dílamjóralirfurnar sem fundust í meltingarvegi 720 gramma hlýra hafi verið jafn mikið meltar. Því hafi verið ályktað að hlýrinn hafi náð lirfunum á sama tíma sem bendir til þess að lirfurnar dvelji á sama stað eftir að þær klekjast úr eggjunum.
Rannsóknin sem vísindagreinin vísar til sýndi einnig fram á afrán hlýra á eggjum og lirfum fiska. „Lítið er vitað um fæðunám hlýra og hve mikið afrán hans er á eggjum og lirfum annarra fiska. Mjórar eru algengir í Norður-Atlantshafi og þáttur þeirra í vistkerfi þess vanmetinn, en rannsóknir á þeim eru fáar. Hreiður mjóra eru afrænd af hlýra og væntanlega öðrum fiskum líka, þannig að upplýsingar um hrygningarsvæði þeirra myndu hjálpa til við að rannsaka dreifingu og fæðunám afræningja þeirra,“ segir um rannsóknina á vef Hafrannsóknastofnunar.
Þrír sérfræðingar sem starfa hjá Hafrannsóknastofnun framkvæmdu rannsóknina, þau James Kennedy, Ásgeir Gunnarsson og Christophe Pampoulie. Einnig átti Rupert Wienerroither frá hafrannsóknastofnun Noregs (Havforskningsinstituttet) þátt í rannsókninni.
Við Ísland fannst dílamjóri fyrst árið 1902 á 550 m dýpi undan Austfjörðum, fiskimið sem síðar fengu nafnið Rauðatorgið, að því er fram kemur um tegundina á vef HAfrannsóknastofnunar.
Um er að ræða botnfisk sem lifir á leirbotni á 150 til 1.200 metra dýpi í köldum sjó (innan við 5 gráður) og er fæðan nær eingöngu slöngustjörnur. Tegundina má finna undan Norðvestur-, Norður- og Austurlandi en hans verður einnig vart djúpt undan Suðausturlandi suður á Íslands-Færeyjahrygg og í Berufjarðarál og undan Vesturlandi.
Heimkynni dílamjóra auk Íslandsmiða eru við Færeyjar og í Noregs-Hjaltlandshallanum, norður með strönd Noregs yfir í suðurhluta Barentshafs. Einnig við Austur- og Suðvestur- Grænland og Nýfundnaland og enn lengra suður með strönd Norður-Ameríku.