Kaldbakur EA er orðinn stórglæsilegur eftir að hafa fengið yfirhalningu. Var á dögunum lokið við að mála ísfisktogarann í Slippnum á Akureyri auk þess sem unnið var að viðhaldi. Alls tók verkefnið um fjórar vikur og stóðust allar tímaáætlanir, segir Sigurður Rögnvaldsson verkefnastjóri hjá útgerðarsviði Samherja í færslu á vef útgerðarinnar.
Systurskipin Björg EA og Björgúlfur EA fengu álíka meðferð á síðasta ári.
„Skrokkur skipsins var málaður, einnig millidekk og lestarrými. Kaldbakur er sjö ára gamalt skip og þess vegna þótti skynsamlegt að ráðast í nokkrar endurbætur, svo sem upptekt á aðalvél og lagfæringar á stýrisbúnaði. Þessi systurskip hafa reynst afskaplega vel í alla staði en með tímanum þarf auðvitað að huga að fyrirbyggjandi endurbótum og þeim er nú lokið. Við getum hiklaust sagt að skipin séu í topp standi, þökk sé útgerð og áhöfnum skipanna,“ segir Sigurður.
Þá var skrúfan á Kaldbak máluð með hágæða botnmálningu, sem ætlað er að draga úr olíunotkun. Skrúfan á Björgu EA var einnig máluð fyrir nokkru síðan með sömu málningu.
„Yfirleitt eru skrúfur skipa ekki málaðar en tilraunir með það hafa verið gerðar á undanförnum árum. Málningin hindrar að gróður festist á skrúfunni, sem eykur viðnám hennar í sjónum og þar með olíunotkun. Það er vissulega erfitt að mæla árangurinn nákvæmlega en við höfum trú á að þessi hágæða málning komi til með að skila tilætluðum árangri,“ útskýrir Sigurður.
Það er ekki lítið verkefni að mála togara.
Ljósmynd/Samherji
Skrúfan á Kaldbaki var máluð með sérstakri málningu til að ná betri eldsneytisnýtingu.
Ljósmynd/Samherji
KAldbakur var orðinn fallegur þegar togarinn yfirgaf Slippinn.
Ljósmynd/Samherji