Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ákveðið að loka máli sínu um opinbert eftirlit og meðhöndlun hráefna við framleiðslu lýsis á Íslandi eftir að íslensk yfirvöld hafa gert viðeigandi breytingar, að því er segir í tilkynningu frá ESA.
Málið má rekja til maí 2017 þegar ESA gerði úttekt til að meta opinbert eftirlit með EES-reglum við framleiðslu á fóðri.
„Þar komu í ljós ýmsir annmarkar á opinberu eftirliti með framleiðslu á lýsi í starfsstöðvum sem framleiddu bæði lýsi til manneldis og lýsi ekki ætlað til manneldis. Samkvæmt EES-reglum skal að tryggja að allt hráefni sem notað er á starfsstöðvum sem framleiða lýsi til manneldis uppfylli kröfur um hollustuhætti matvæla, til dæmis hvað varðar ferskleika og hámarksgildi rokgjarnra niturbasa (TVB-N). Þetta dregur úr hættu sem getur stafað af krossmengun milli afurða,“ segir í tilkynningu ESA.
Úrbætur voru ekki fullnægjandi
Ekki gerðu íslensk stjórnvöld nægilegar úrbætur í kjölfar úttektarinnar að mati ESA og var ákveðið að hefja samningsbrotaferli gegn Íslandi í maí 2022.
Í áminningarbréfi sem sent var íslenskum stjórnvöldum við tilefnið var fullyrt að Ísland hafði ekki gengið úr skugga um með fullnægjandi hætti að hráefnin sem notuð voru við framleiðslu á lýsi sem ekki var ætlað til manneldis uppfylltu kröfur um hollustuhætti matvæla, í þeim starfsstöðvum sem framleiddu báðar tegundir lýsis. Auk þess höfðu verið settar reglur hér á andi sem samræmdust ekki ákvæði reglugerða Evrópska efnahagssvæðisins (EES)
„Hefur Ísland nú gert nauðsynlegar breytingar á reglum og opinberu eftirliti sínu til að leiðrétta þá annmarka sem ESA benti á. Þá eru engar starfsstöðvar lengur sem framleiða bæði lýsi til manneldis og lýsi ekki ætlað til manneldis. Í ljósi þessara ráðstafana telur ESA að íslensk yfirvöld hafi brugðist við athugasemdunum og gert nauðsynlegar ráðstafanir til að fylgja EES reglum. ESA hefur því ákveðið að loka málinu,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.