Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar sneru nýlega til baka úr fertugasta marsralli stofnunarinnar en þetta viðamikla árlega rannsóknarverkefni er ein af mikilvægustu vísindalegum stoðum fiskveiðiráðgjafar Hafró og tekur allt að þrjár vikur.
Ingibjörg G. Jónsdóttir, fiskavistfræðingur og verkefnisstjóri stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum, veitti lesendum nýjasta blaðs 200 mílna innsýn í verkefnið. Hún segir mælinguna alltaf fara fram með sama hætti: „Í ár tóku fjögur skip þátt og gerðu mælingar á 580 stöðvum hringinn í kringum landið en veitt var allt niður á 500 metra dýpi,“ útskýrir hún en marsrallið leggur megináherslu á að mæla stofnstærð botnfisktegunda.
Gæta þarf mikillar nákvæmni við veiðar og mælingu og einnig er brýnt að hafa sem mest samræmi í vinnubrögðum á milli ára og hefur t.d. verið notast við sömu gerð veiðarfæra frá upphafi. Niðurstöðurnar gefa góða vísbendingu um ástand nytjastofnanna og eru notaðar sem grundvöllur ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar til stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar.
„Við notum vörpu með minni möskvastærð í poka en gengur og gerist í veiðum því við höfum einnig áhuga á að skoða ástand ungviðis,“ segir Ingibjörg en fiskifræðingar Hafró hönnuðu stöðvanetið sem notast er við í samvinnu við sjómenn og voru stöðvarnar valdar bæði til að fá góða mynd af ástandi helstu nytjastofna og einnig til að greina hvar mörk dreifingar einstakra stofna liggja.
„Aflinn er mjög mismunandi eftir svæðum og fyrir okkur skiptir það ekki síður máli að gera mælingar á stöðum þar sem alla jafna er lítið af fiski svo við fáum betri mynd af útbreiðslu stofnanna, og fyrir vikið erum við einnig að taka tog á slóðum þar sem sjómenn eru ekkert endilega að sækja.“
Viðtalið við Ingibjörgu má lesa í heild sinni í síðasta blaði 200 mílna.