Útgerðaraðili var í síðasta mánuði sviptur veiðileyfi í tvígang og hefur viðkomandi nú verið sviptur veiðileyfi þrisvar á jafn mörgum árum. Ástæðan er í öllum skiptum brottkast og hefur útgerðin samanlagt verið svipt veiðileyfi í 35 daga, en ákvarðanir Fiksistofu ná til tveggja ólíkra báta.
Fyrst var báturinn Gammur II SK-120 sviptur veiðileyfi með ákvörðun Fiskistofu frá 29. september 2022. Eftirlitsmenn stofnunarinnar sáu með hjálp eftirlitsdróna að skipverji kastaði fimmtán þorskum og einum steinbít sem fengust í grásleppunetin fyrir borð.
Í ákvörðun Fiskistofu er fullyrt að um sé að ræða alvarleg brot sem framkvæmd eru af ásetningi. Var því Gammur II SK-120 sviptur leyfi til veiða í atvinnuskyni í fjórtán daga frá upphafsdegi grásleppuveiða vertíðarinnar 2023.
Svipting í viku vegna þriggja fiska
Sjöunda mars síðastliðinn var sami útgerðaraðili sviptur um veiðileyfi á ný og var það einnig tengt brottkasti við grásleppuveiðar, en þá á bátnum Kalda SK-121.
Fylgdust eftiritsmenn Fiskistofu með veiðum Kalda SK-121 með dróna 18. apríl 2023 og sást til skipstjórans kasta flatfiski fyrir borð og ýta tveimur þorskum út um lensport, að því er fram kemur í ákvörðun Fiskistofu.
Telur Fiskistofa brotin ámælisverð, en vegna ítrekunaráhrifa fyrir veiðileyfissviptingar var útgerðaraðilinn sviptur veiðileyfi í sjö daga frá og með útgáfu frá og með útgáfu næsta leyfis til grásleppuveiða bundið við umræddan bát.
Aðeins tveir ufsar
Þriðja ákvörðunin um veiðileyfissviptingu er frá 26. mars og snýr málið að því að kastað var tveimur ufsum sem komu í veiðarfæri Gamms II SK-121 þegar báturinn var á strandveiðum 22. júní á síðasta ári.
Fiskistofa metur í ákvörðun sinni brotið sem minniháttar, en vegna ítrekunaráhrifa fyrri brota er báturinn sviptur leyfi til veiða í 14 daga frá og með útgáfu frá og með gildistöku næsta strandveiðileyfis sem úthlutað er til bátsins.