Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 23,4 milljörðum króna í mars samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum. Útflutningsverðmæti sjávarafurða í marsmánuði hafa ekki verið minni í sex ár.
Vakin er athygli á þessu í nýjustu greiningu Radarsins. Einnig er bent á að þetta sé mikil breyting frá síðasta ári þegar útflutningsverðmæti voru óvenju mikil í mars. „Mælist því verulegur samdráttur á milli ára í mars, eða sem nemur 33%. Þar sem gengi krónunnar var rétt tæplega 1% hærra nú í mars en í sama mánuði í fyrra, er samdrátturinn mældur í erlendri mynt á svipuðu róli, eða rúm 32%.“
Fram kemur að mestu munar um heilfrystan fisk og fiskimjöl.
„Útflutningsverðmæti heilfrysts fisks nam rétt um 1,3 milljarði króna nú í mars samanborið við 5,1 milljarð í sama mánuði í fyrra. Það jafngildir 75% samdrætti á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti fiskimjöls nam rétt um 400 milljónum króna í mars samanborið við tæpa 4 milljarða í mars í fyrra. Þar er því um 90% samdrátt að ræða. Í báðum tilvikum er ljóst að loðnubrestur í ár hafði stóru hlutverki að gegna, enda vó heilfryst loðna hátt í 60% af útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski og loðnumjöl um helming af fiskimjöli í mars í fyrra. Ekki liggja fyrir upplýsingar um útflutningsverðmæti niður á einstaka fisktegundir nú í mars en þær verða birtar í lok þessa mánaðar.“
Auk þess varð 19% samdráttur var á útflutningsverðmæti frystra flaka og um 17% samdráttur á bæði ferskum afurðum sem og söltuðum og þurrkuðum. Útflutningsverðmæti lýsis dróst einnig saman og nam samdrátturinn 11% en í flokknum „aðrar sjávarafurðir“ var samdrátturinn um 20%, en undir þessum lið er meðal ananrs að finna loðnuhrogn.
„Reikna má með að einhver útflutningur hafi verið á loðnuhrognum nú í mars líkt og undanfarna mánuði frá síðustu loðnuvertíð. Enda var metframleiðsla á hrognum í loðnuvertíðinni í fyrra, sem að stórum hluta eru enn eftir í birgðum hér á landi. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti loðnuafurða í mánuði hverjum frá janúar 2022 til febrúar í ár,“ segir í greiningunni.
Samdrátturinn er eflaust afleiðing samverkandi áhrifa fleiri þátta og er í greiningunni sagt frá því að einn þeirra geti verið hve snemma páskarnir voru í ár, en þeir voru í byrjun apríl á síðasta ári.
„Jafnframt voru bæði janúar og febrúar mjög stórir mánuðir og því ekkert óeðlilegt að það sé einhver tilfærsla í útflutningi á milli mánaða. […] Útflutningsverðmæti sjávarafurða [var] um 14% meira á fyrstu tveimur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra, á föstu gengi. Þannig að ef horft er á fyrsta ársfjórðung er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 82,2 milljarða króna. Það er rúmlega 4% samdráttur frá sama tímabili í fyrra, á föstu gengi.“
Umræddan samdrátt má einnig rekja til sömu afurðaflokka og samdráttin í mars. Er 47% samdráttur í fiskimjöli og 33% samd´rattur í heilfrystum fiski.
„Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða (-4%) hefur einnig dregist saman en útflutningsverðmæti allra annarra afurðaflokka hefur aukist á milli ára. Mest hefur aukningin orðið á útflutningsverðmæti lýsis (33%) og svo rækju (22%), en einnig hefur dágóð aukning orðið á útflutningsverðmæti ferskra afurða (8%). Minni breyting er á öðrum afurðaflokkum,“ segir í greiningunni.