Fátt virðist benda til þess að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra muni hafa frumkvæði að miklum breytingum á aflaheimildum sem strandveiðum verður úthlutað í ár eða tilhögun strandveiða frá því sem verið hefur. Töluverðar líkur eru því á að veiðarnar verði stöðvaðar um miðjan júlí eins og í fyrra verði þátttakan jafn mikil.
Strandveiðifélag Íslands hefur beðið Bjarkeyju um að bjarga vertíðinni og tryggja hverjum strandveiðibát 12 sóknardaga allt strandveiðitímabilið, maí til ágúst.
Tilraunir blaðamanns til að ná sambandi við Bjarkeyju til að spyrja um framhaldið hafa ekki borið árangur.
Tilkynnt var fyrr í vikunni um útgáfu reglugerðar um strandveiðar ársins 2024 og hefjast þær 2. maí. Fylgdi reglugerðinni engar breytingar á tilhögun veiðanna, en farið er nú fram á að lögaðilar greini frá eignarhaldi sínu í umsóknum sínum um strandveiðileyfi.
Samkvæmt reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2023/2024 og almanaksárið 2024 er strandveiðum ráðstafað heimildir fyrir tíu þúsund tonnum af þorski, þúsund tonnum af ufsa og hundrað tonnum af karfa. Það er sama magn og gert var ráð fyrir í reglugerð vegna fiskveiðiársins 2022/2023 og almanaksársins 2023.
Á síðasta ári var engum heimildum bætt við veiðarar og þær stöðvaðar 12. júlí þrátt fyrir að veiðitímabilið eigi að standa út ágústmánuð. Um 750 bátar tóku þátt 2023 og er það næstmesta þátttaka frá því að strandveiðum var komið á.
Báru strandveiðisjómenn von í brjósti um að Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, myndi bæta við veiðiheimildum eins og hún hafði gert árið á undan þegar ríkið fékk rúmlega þúsund tonna þorskkvóta í skiptum fyrir veiðiheimildir í makríl. Viðbótarkvótinn sumarið 2022 skilaði þó aðeins veiðum til og með 21. júlí.
Grípi Bjarkey til þess ráðs að leita heimilda í þorski fyrir strandveiðarnar á skiptimarkaði er ekki víst að takist að ná þúsund tonnum eins og fyrir tveimur árum. Ráðgjöf Alþjóðahafrannasóknaráðsins (ICES) frá í haust gerir ráð fyrir að makrílkvótinn dragist saman um 5% frá því á síðasta ári. Í fyrra var makrílkvótinn 1,6% minni en árið 2022 og er því ljóst að nokkuð minni makríll verður til skiptanna, auk þess sem heimildir í þorski eru af skornum skammti í ár eins og í fyrra.
Á síðasta ári hafði Svandís lagt fyrir Alþingi frumvarp um svæðaskiptingu strandveiða til að tryggja jafnræði í dreifingu þeirra veiðiheimilda sem veiðunum er ráðstafað. Frumvarpið fékkst ekki afgreitt fyrir þinglok og hefur það ekki verið endurflutt á nýju þingi.
Breytingar á strandveiðunum eru þó að finna í drögum að frumvarpi að nýjum heildarlögum fyrir sjávarútveginn sem Svandís kynnti sem lið í stefnumótunarverkefninu „Auðlindin okkar“. Voru frumvarpsdrögin birt í samráðsgátt 24. nóvember síðastliðinn og hefur staðið til að leggja frumvarpið fyrir Alþingi fyrir 18. mars samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Ekkert hefur þó orðið af þeim áformum og hefur frumvarpið sætt mikilli gagnrýni af hálfu hagaðila í sjávarútvegi hvort sem það eru útgerðir eða stéttarfélög. Teljast ekki miklar líkur á að frumvarpið verði lagt fram í þeirri mynd sem það var kynnt, ef það verður þá nokkuð lagt fyrir Alþingi fyrir þinglok.
Á síðasta ári lýsti Bjarkey yfir stuðningi við frumvarp Svandísar um svæðaskiptingu veiðanna. Til stóð að spyrja hana hvort hún hyggst endurflytja frumvarp þess efnis fyrir þinglok, en Bjarkey hefur ekki látið ná í sig þrátt fyrir fleiri tilraunir blaðamanns.
Staða strandveiða hefur verið flókið úrlausnar innan flokks fyrrverandi og núverandi matvælaráðherra, VG, og reynist ráðandi breyta kjördæmi þingmanna flokksins. Bjarkey er úr Norðausturkjördæmi þar sem bátar hafa fengið verulega færri veiðidaga þar sem þorskurinn kemur ekki inn á þau mið fyrr en líður á sumar.
Á sama tíma hefur Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Norðvesturkjördæmis fyrir VG, lýst miklum áhyggjum af svæðaskiptingu veiðanna þar sem slíkt myndi færa afla sem nú er landað á Vestfjörðum yfir á önnur svæði.
Þá tilkynnti Bjarni Jónsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis úr röðum VG, á síðasta ári að hann styddi hugmynd um að fækka veiðidögum um fjóra þannig að hverjum báti verði tryggðir 11 veiðidagar það sem eftir væri af strandveiðitímabilinu.
Vegna mikillar óeiningar um málaflokkinn sem og að breytingar á strandveiðum eru innan umfangsmikils frumvarps um heildarlög um sjávarútveg er fátt sem bendir til þess að breytingar verði gerðar á strandveiðum til að koma til móts við óskir strandveiðisjómanna um að tryggja öllum bátum tólf veiðidaga í mánuði út veiðitímabilið.