Loðnuleysið var áberandi í vorralli Hafrannsóknastofnunar og fannst töluvert minna af tegundinni í mögum þorsks, ýsu og ufsa, en loðna er mikilvæg fæða fyrir alla þrjá nytjastofnana. Stofnvísitölur stofnanna þriggja breytast þó lítið milli ára.
Þetta kemur fram í skýrslu um stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum sem fram fór dagana 28. febrúar til 20. mars 2024. Í skýrslunni sem birt hefur verið á vef Hafrannsóknastofnunar eru niðurstöðurnar bornar saman við fyrri ár en verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1985.
Þar segir að þessi fyrsta mæling á þorskárgangi 2023 bendir til að hann sé nálægt meðaltali af fjölda eins árs þorski árin 1985 til 2024 en árgangarnir 2020 til 2022 mælast undir meðaltali í fjölda á meðan árgangarnir 2011 til 2019 eru allir yfir meðaltali.
Athygli vekur að meðalþyngd eins til sjö ára þorsks mældist undir meðaltali áranna 1985 til 2024, en meðalþyngd annarra aldurshópa var um eða yfir meðaltali. Þá hefur meðalþyngd fimm ára þorsks og yngri oftast verið undir meðaltali tímabilsins síðastliðinn áratug og meðalþyngd eldri þorsks yfir meðaltalinu.
„Stofnvísitala þorsks hækkaði nær samfellt árin 2007-2017, fyrst og fremst vegna aukins magns af stórum þorski. Eftir lækkun árin 2018-2020 hefur vísitalan hækkað aftur. Fjöldavísitala þorsks 20-30 cm og 45-60 cm var undir meðaltali en líkt og undanfarin ár var vísitala stærsta þorsksins yfir meðaltali rannsóknatímans. Líkt og áður fékkst þorskur allt í kringum landið en magn hans hefur aukist fyrir sunnan land,“ segir í skýrslunni.
Bent er á að loðna hafi verið mikilvægasta bráð þorsks á þessum árstíma en breyting hefur orðið þar á vegna loðnuskorts.
„Magafylli þorsks var almennt töluvert minni í ár og er ástæða þess að lítið var af loðnu í mögum samanborið við flest fyrri ár. Magn fæðu í 21-40 cm þorski var undir meðaltali áranna frá 1996 og var loðna helmingur af fæðu smáþorsks. Líkt og flest fyrri ár var loðna mikilvægasta fæða 41-80 cm þorsks (4. mynd B). Í stærsta þorskinum (81- 110 cm) var magn fæðu í mögum undir meðaltali og var loðna ríflega helmingur fæðunnar. Loðna fannst helst í þorskmögum út af Breiðafirði, Vestfjörðum og úti fyrir Suðausturlandi. Af annarri fæðu þorsks má helst nefna kolmunna, síld, síli, ljósátu, ísrækju og rækju.“
Stofnvísitala ýsu breytist lítið milli ára og er svipuð og hún var á árunum 2001 til 2005 þegar hún var í hámarki.
„Flestir lengdarflokkar ýsu eru nú yfir meðaltali í fjölda. Undantekningin er 10-25 cm ýsa sem rekja má til lélegra árganga frá 2022 og 2023 sem mælast undir meðaltali fjölda 1 og 2 ára árin 1985-2024. Árgangar 2011-2021 mælast yfir meðaltali í fjölda fyrir utan 2018 árganginn sem mælist undir meðaltali sem 6 ára,“ segir í skýrslunni.
Þá veiddist ýsa allt í kringum landið á landgrunninu sem er í takti við það sem sést hefur frá aldamátum, en á árunum 1985 til 1999 sást hún í minna magni fyrir norðan land og var algengari við landið sunnanvert.
Meðalþyngd eins árs ýsu hefur verið um eða undir meðaltali frá árinu 2008. Meðalþyngd tveggja og þriggja ára ýsu var undir meðaltali síðustu þrjú ár en meðalþyngd fjögurra ára og eldri hefur verið um eða yfir meðaltali undanfarin 9 til 11 ár. Samkvæmt niðurstöðum vorrallsins í ár lækkaði meðalþyngd allra aldursflokka þriggja ára og eldri.
Eins og í tilfelli þorsks var minna um loðnu í mögum hjá smárri ýsu og ýsu í millistærð. „Smá og millistór ýsa étur hlutfallslega meira af botndýrum svo sem slöngustjörnum og burstaormum. Minna var af loðnu í mögum stærstu ýsunnar samanborið við árin 2020-2022. Mest var af loðnu í ýsumögum í utanverðum Breiðafirði og við suðurströndina.“
„Stofnvísitala ufsa hefur lækkað frá árinu 2018 og er nú nálægt meðaltali rannsóknatímans. Í ár var fjöldavísitala ufsa 40-55 cm undir meðaltali en 55-70 cm yfir meðaltali,“ segir í skýrslunni.
Bent er á að sum ár séu vísitölur ufsa háar vegna mikils afla í fáum togum og öryggismörk mælinganna séu þess vegna há. Fékkst ufsi víða á rannsóknarsvæðinu en mest fékkst við landið sunnanvert.
„Loðna er aðalfæða ufsa í mars. Í heildina er loðna yfirleitt meira en helmingur af fæðu 21-60 cm ufsa en ljósáta á bilinu 20-40%. Stærri ufsi étur hlutfallslega meira af loðnu en minna af ljósátu. Önnur fæða er að mestu fiskar s.s. spærlingur, síld og aðrar fisktegundir. Í ár fannst loðna helst í mögum ufsa suðaustan við landið og út af Breiðafirði og Vestfjörðum.“