Bátum með gilt strandveiðileyfi á fyrsta degi strandveiða fjölgaði milli ára og voru 542 komnir með veiðileyfi 2. maí, en sama dag á síðasta ári voru 513 búnir að fá úthlutað strandveiðileyfi. Þetta upplýsir Fiskistofa.
Nú í morgun sést á vef Fiskistofu að úthlutað hafi verið 619 strandveiðileyfum, en allas var úthlutað 763 leyfum á vertíðinni í fyrra. Vert er þó að geta þess að 667 strandveiðibátar lönduðu afla í maímánuði í fyrra og er aðeins annar dagur veiðanna í dag og því má vænta að fjöldi strandveiðibáta með leyfi fjölgi á næstu dögum.
Töluvert hefur verið að gera hjá Fiskistofu frá því að stofnunin opnaði fyrir umsóknir um strandveiðileyfi 17. apríl síðastliðinn en að þessu sinni var bæði stuðst við nýtt umsóknarkerfi, sem Fiskistofa segir hafa reynst vel, og lögð sértök áhersla á að kanna eignarhald hjá lögaðilum sem sækja um leyfi. Hafa umsækjendur því þurft að skila inn gögnum sem unnið er úr í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að viðkomandi umsækjendur hafi aðild að fleiri en einu strandveiðileyfi.
„Samvinna sjófarenda og Fiskistofu til að koma í veg fyrir slíkt hefur verið með ágætum. Samskipti við sjófarendur hafa verið til fyrirmyndar, álag hefur verið á starfsmönnum Fiskistofu við að afgreiða umsóknir,“ segir í svari Fiskistofu við fyrirspurn 200 mílna um úrvinnslu strandveiðileyfa vegna vertíðarinnar 2024.
Umgjörð strandveiðanna hefur ekki breyst frá síðasta ári og er greint frá reglum veiðanna á vef Fiskistofu.
Hverju veiðileyfi heimild til veiða í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar í maí, júní, júlí og ágúst, á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Óheimilt er að stunda strandveiðar 1. maí, 20. maí, 17. júní og 5. ágúst.
Þá er ein veiðiferð heimil á dag, sem stendur ekki lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er skip lætur úr höfn til veiða til þess tíma er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Til þess að veiðiferð teljist vera innan dags þarf skip að leggja úr höfn til veiða á sama sólarhring og það kemur til hafnar aftur til löndunar.
Þurfa strandveiðisjómenn að tilkynna Landhelgisgæslunni og Fiskistofu ef óviðráðanlega ástæður valda því að skip nái ekki til hafnar innan 14 klukkustunda frá upphafi veiðiferðar.
Einungis er heimilt að koma með 650 þorskígildiskíló að landi eftir hverja veiðiferð. Lagt er á sérstakt gjald vegna afla sem landað er umfram 650 þorskígildi.