Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) saka Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra um aðför að stjórnarskrárvörðum réttindum og vantraust gagnvart vísindamönnum með ákvörðun sinni um að veita leyfi til hvalveiða aðeins á þessu ári, að því er fram kemur í yfirlýsingu samtakanna.
„Ráðherra er með ákvörðun sinni í reynd – og með ólögmætum hætti – að leggja áframhaldandi stein í götu sjálfbærra veiða á langreyðum. Leyfið sem nú er veitt er aðeins til eins árs, í berhögg við beiðni Hvals um útgáfu veiðileyfis til lengri tíma og stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi hlutaðeigandi fyrirtækis.“
Tilkynnt var í dag að matvælaráðherra hefði ákveðið að veita Hval hf. leyfi til veiða á 128 langreyðum á þessu ári. Fullyrðir SFS að matvælaráðherra með ákvörðun sinni gengið gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar með því að gefa út leyfi til veiða á færri langreyðum en 161 dýri eins og vísindamenn stofnunarinnar hafa lagt til.
„Ekki verður á annan veg ályktað en að með þeirri ákvörðun sé ráðherra að lýsa yfir vantrausti á Hafrannsóknastofnun og sérfræðinga þeirrar stofnunar. Það er mikið umhugsunarefni,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá kveðst SFS „mótmæla harðlega þessari aðför ráðherrans að mikilvægum stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna, vantrausti ráðherrans gagnvart sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og andstöðu ráðherrans við sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar.“
Máli sínu til stuðnings bendir SFS á að jákvæðar umsagnir Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Matvælastofnunar um útgáfu leyfis til veiða á langreyðum er umsókn Hvals hf. um veiðileyfi var til meðhöndlunar hjá ráðuneytinu. „Sú staðreynd gerir ákvörðun ráðherra því enn ámælisverðari.“
Er Bjarkey sögð senda „kaldar kveðjur til allra þeirra sem hafa starfað af heilindum og elju við veiðar á langreyðum og vinnslu hvalkjöts um árabil í samræmi við lög og reglur og höfðu réttmætar væntingar til þess að halda því áfram.“
SFS telur augljóst að deilan um veiðar á langreyðum snúist „ekki lengur um hvað sé forsvaranlegt út frá sjálfbærri nýtingu, heldur hvað fólki finnst. Það getur verið erfitt að takast á um tilfinningar, enda sýnist sitt hverjum, eins og vonlegt er. Stjórnvöld verða hins vegar, nú sem fyrr, að horfa til vísindalegra forsendna og lagalegra krafna þegar kemur að veigamiklum ákvörðunum um nýtingu auðlinda, veiða við Ísland, og láta um leið af sínum eigin tilfinningum og pólitísku skammtímahagsmunum.“