„Allir núverandi ráðherrar VG koma hér að málum, fyrrverandi matvælaráðherra sem bannaði hvalveiðar, núverandi matvælaráðherra sem leyfði hvalveiðar og formaður VG sem segir að leyfið sé skref í áttina að því að banna hvalveiðar.“
„Ég vil því spyrja hæstvirtan matvælaráðherra, hvert er næsta skref í því að banna hvalveiðar hjá þessari ríkisstjórn?“
Að þessu spurði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma til ráðherra á fundi Alþingis í dag.
Þeir Björn og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, beindu fyrirspurnum að Bjarkeyju um hvalveiðar.
Þá sagðist Björn ekki skilja þá staðhæfingu Guðmunds Inga Guðbrandssonar, formanns VG og félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að leyfið til að veiða hvalveiðar hafi verið skref í að banna hvalveiðar alfarið.
Bjarkey steig þá upp í pontu, en hún byrjaði á því leiðrétta Björn. „Forveri minn bannaði ekki hvalveiðar, hún frestaði upphafi veiðitímabilsins.“
„Síðan var sett mjög skýr og ströng reglugerð, sem gildir líka að þessu sinni.“
Matvælaráðherra beindi næst sjónum sínum að áliti umboðsmanns Alþingis frá upphafi janúars um lögmæti ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur, fyrrverandi matvælaráðherra, um að banna hvalveiðar síðasta sumar.
„Að mati míns ráðuneytis snýst álitið einmitt um það hvernig á að túlka lög um hvalveiðar. Hann sló því föstu að svigrúm ráðherra er afskaplega þröngt, það má segja að hann hafi skrúfað allar skýrleikakröfur í botn.“
„Þessi ákvörðun mín byggist á því að ég fer eftir lögum um hvalveiðar, eins og umboðsmaður segir að ég verði að gera. Við getum ekki synjað veitingu leyfis eingöngu á grundvelli dýravelferðarsjónarmiða.“
Þá segir hún greinilegt tilefni vera til að breyta lögum um hvalveiðar, og auk þess hafi hún orðið vör við miklar undirtektir við það að færa lögin í nútímalegra form.
„Eins og við vitum þá eru þessi lög gömul, og bera til dæmis sektarákvæði um gullkrónu eða fangelsisvist, þannig ég held að okkur öllum sé ljóst að þeim lögum þarf að breyta.“
Björn Leví spurði matvælaráðherra þá hvort sá hljómgrunnur sem hún segist hafa fengið fyrir breytingu á lagaumhverfi hvalveiða, sé ástæða þess að leyfið sé núna tímabundið við þetta veiðitímabil.
„Megum við þá eiga von á því í haust að það komi þá breytingar á lögum um hvalveiðar, sem eru þá þetta biðskref í átt að því að banna hvalveiðar?“ spurði Björn.
„Það er starfshópur að störfum núna sem kemur til með að skila mér skýrslu í haust eða í vetur, þá fyrir áramótin,“ svaraði Bjarkey honum.
„Ég taldi ekki tilhlýðilegt að hafa leyfið lengra í ljósi þess að ég verð að geta tekið afstöðu til þess sem þar kemur fram, auk þess sem að það hefði tæplega geta orðið lengra en til næsta árs sökum þess að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar nær ekki nema fram á næsta ár. “
Bergþór nýtti einnig fyrirspurnartímann til að spyrjast fyrir um hvalveiðar og spurði hvað sérfræðingar ráðuneytisins hefðu ráðlagt ráðherra að veita leyfið til langs tíma.
Bjarkey sagðist þá hafa fengið ráðleggingu um að fara ekki fram yfir tvö ár, sökum þess að veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar nær ekki lengra en eitt ár í senn.
„Auk þess eru alltaf A og B leiðir sem ráðherra fær til sín, það er ekki ein leið sem ráðherranum ber að fara eftir. Það eru alltaf valkostir, og ég hef rökstutt mitt val að mínu mati nægilega vel.“
Bergþór tók þá til máls að öðru sinni, og spurði út í orð hennar í viðtali sem hún veitti Ríkisútvarpinu eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag.
„Þú segir aðra ráðherra ekki hafa veitt þér þrýsting hvað málið varðar. Var það þannig?“
Bjarkey svaraði því neitandi um hæl. „Og ég er bara þakklát fyrir það, vegna þess ég tel að það séu eðlileg vinnubrögð innan ríkisstjórnar að ráðherrar fái tækifæri og rými til þess að taka sínar ákvarðanir.“