Um fjörutíu ungmenni eru ráðin til starfa í vinnsluhúsi Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri í sumar til að leysa af fastráðið starfsfólk vegna sumarleyfa, en starfmenn vinnsluhússins eru alla jafna um 120 og er því hlutfall sumarstarfsfólks hátt.
„Það er alltaf töluverð ásókn í sumarstörfin og því miður ekki hægt að verða við öllum umsóknum. Flest sem sækja um vinnu hafa kynnt sér starfsemina og vita ágætlega að hverju þau ganga. Áður en þessir nýju starfsmenn hefja störf er efnt til nýliðafræðslu, þar sem farið er yfir helstu þætti starfseminnar og spurningum svarað,” segir Sunneva Ósk Guðmundsdóttir framleiðslustjóri í færslu á vef Samherja.
„Án sumarafleysingafólksins væri líklega ekki hægt að halda úti fullri starfsemi svo þessir starfsmenn eru mikilvægir. Þetta er upp til hópa hörku duglegt fólk, auk þess sem launin hérna eru líklega talsvert hærri en gengur og gerist hjá ungu fólki,” útskýrir hún.
„Mig vantaði sumarvinnu, mamma sótti um fyrir mig og ég var ráðin. Stundum er ég í pökkun, aðra daga vinn ég við að skera fisk og svo hef ég líka verið á lausfrystinum, þannig að þetta er bara fjölbreytt. Vinnan hefst oftast klukkan átta á morgnana og flesta daga er unnið til klukkan fjögur,“ segir hin sextán ára Sunneva María Vilhelmsdóttir.
Hún hefur ekki áður starfað í fiskvinnslu en segir vinnuna þó ekki erfiða.„Nei ekki svo, það finnst mér ekki. Svo þekki ég marga sem eru að vinna hérna, miklu fleiri en ég bjóst við, segir Sunneva María.“
Emilía Björk Óladóttir er á átjánda aldursári og hún hefur líkt og Sunneva María aldrei áður unnið í fiski. „Þetta er bara mjög fínt, ég hef undanfarna daga verið í flugfiskinum og það er margt að læra fyrstu vikurnar. Mér líst bara mjög vel á þetta allt saman,“ segir Emilía Björk.
Hún segir það bara vera hressandi að vakna snemma til að mæta til vinnu. „Ég fer bara fyrr að sofa og þá er þetta í fínu lagi.“
Andri Rúnar Hákonarson er sautján ára og starfaði í vinnsluhúsi ÚA síðasta sumar. „Ég er aðallega í að slægja fisk og mæti stundum á undan flestum til að undirbúa vinnsluna.“
Almennt þykir honum vinnan ekki erfið þó hún geti verið það stundum og viðurkennir hann að hann að það komi fyrir að hann finni fyrir ´reytu að loknum degi. „Þá er bara að passa sig á að fá nægan svefn.“
Launin eru góð að sögn Andra Rúnars. „Hérna er líka fínt mötuneyti og það skiptir miklu máli,“ segir Andri Rúnar.
Líkt og Andri Rúnar vann hinn sautján ára Lárus Vinit Víðisson einnig hjá ÚA síðasta sumar „Mér fannst fínt að vera hérna í fyrra og sótti því aftur um vinnu í sumar og var ráðinn. Ég er mjög ánægður með þetta allt saman.“
Hann kveðst þekkja marga sem starfa hjá fyrirtækinu og finnst einnig jákvætt að kynnast mörgum nýjum á vinnustaðnum.
Lárus Vinit segir jafnframt nýliðum tekið vel. „Eldri starfsmenn kenna okkur margt. Störfin eru margvísleg, þannig að það er auðvitað ýmislegt læra, sérstaklega í fyrra. Núna er þetta léttara, maður veit hvernig flest virkar,“ segir Lárus Vinit Víðisson.