Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, lagði frá bryggju í Hafnarfirði síðastliðinn mánudag og tekur skipið nú þátt í alþjóðlegum uppsjávarleiðangri þar sem eitt af meginmarkmiðunum er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi.
Þetta er fimmtánda árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í þessum leiðangri, en einnig taka þátt skip frá Noregi, Færeyjum og Danmörku, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar.
Árni Friðriksson mun vera 34 daga á sjó og mun sigla 5.500 sjómílur.
mbl.is/Sigurður Bogi
Þar segir að yfirferðasvæði Árna er fyrir norðan, austan, sunnan og vestan landið ásamt svæði í grænlenskri landhelgi fyrir norðan Ísland. Áætlað er að Árni verður 34 daga á sjó og verða á þeim tíma sigldar um 5.500 sjómílur eða um 9.400 kílómetrarm en til stendur að taka 55 yfirborðstogstöðvar á fyrirfram ákveðnum stöðum.
Um borð Árna eru 15 vísindamenn og 17 manna áhöfn.
„Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við vöktun og fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins þ.m.t. frumframleiðni, ástandi sjávar, mælingar á átumagni og rannsóknir á miðsjávarfiskum og -hryggleysingjum. Í ár verður einnig umfangsmikil hvalatalning í leiðangrinum sem er hluti af svokallaðri NASS talningu (North Atlantic Sighting Survey) og hófst í karfaleiðangri á Árna Friðrikssýni í júní síðastliðnum,“ segir í tilkynningunni.