Matvælastofnun telur að það hafi verið 5.196 eldislaxaseiði sem sluppu úr landeldisstöð Samherja í Öxarfirði en ekki 868 eins og áður var talið. Stofnunin telur einnig að þessi seiði hafi þroskast í settjörn við stöðina og þaðan strokið í sjó.
Stofnuninni tilkynning barst frá Samherja fiskeldi ehf. mánudaginn 6. maí um óhapp sem gæti hafa leitt til stroks eldislax úr fiskeldisstöðinni í Silfurstjörnunni í Öxarfirði. Strokið uppgötvaðist við eftirlit starfsmanna er seiði sáust í settjörn stöðvarinnar en talið er að atvikið hafi átt sér stað 2. maí þegar vatnsyfirborð hækkaði í seiðakari með þeim afleiðingum að fiskur sogaðist út um yfirfallsop og yfir í frárennsliskassa.
„Ekki var hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörn og komist út í sjó. Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila fundust 868 seiði utan kers en óljóst var á þeim tímapunkti hversu mörg seiði struku í heild,“ segir í tilkynningu á vef Matvælastofnunar.
Stofnunin tók málið til rannsóknar og óskaði eftir upplýsingum frá fyrirtækinu, þar á meðal upplýsingar um þær aðgerðir sem gripið var til í þeim tilgangi að endurheimta seiðin og hve mörg þau væru.
„Við rannsókn málsins kom í ljós að rekstraraðili gat ekki gert grein fyrir 5.196 fiskum og dregur Matvælastofnun þá ályktun að það sé sá fjöldi seiða sem mögulega hafi smoltast í settjörn og strokið út í sjó,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að Matvælastofnun hafi gert athugasemdir við að „fiskeldisstöðin var ekki útbúin eldisbúnaði sem var nægjanlega fiskheldur. Þá var fiskeldisstöðin ekki útbúin nægjanlega fínofnum netum til að fanga þau seiði sem struku úr stöðinni. Matvælastofnun mun hafa eftirlit með að unnið hafi verið úr alvarlegum frávikum.“