Hnúfubakar hafa verið óhræddir við að spóka sig við hafnir Íslands. Nú erum um tíu hnúfubakar við höfnina í Borgarfirði eystri og segir hvalasérfræðingur þá vera félagslyndar verur sem hræðast ekki fólk, en það sé þó sérstaklega eitt sem dregur þá svona nálægt landi.
„Þetta er ekkert alóvanalegt en þetta er eina stórhvalategundin, hér í þessum hluta heimsins getum við sagt eða allavega í kringum Ísland, sem á það til að koma inn í miklar grynningar ef það er einhverja girnilega fæðu að hafa.“
Þetta segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor í líffræði við Háskóla Íslands og hvalasérfræðingur, í samtali við mbl.is, spurð um hvað hún telji gera það að verkum að stór hópur hnúfubaka hafi gert vart við sig við höfn Borgarfjarðar eystri síðustu daga.
Edda er ekki búin að kynna sér hvað það var sem laðaði hnúfubakana að höfninni á Borgarfirði eystri en það kæmi henni ekki á óvart ef um síld væri að ræða.
„Yfirleitt er það einhver fæða, sem er í nógu miklu magni, sem dregur þá saman í svona fjölda. Eins og þegar þeir hafa verið að koma inn í Hafnarfjarðarhöfn hefur verið töluvert af fiski í höfninni,“ bætir hún við.
Hvalir eru heldur vanafastir þegar kemur að fæðuvali og staðsetningu hennar segir Edda. Hnúfubakurinn aftur á móti er meiri tækifærissinni hvað það varðar og getur flakkað meira á milli staðsetninga og fæðutegunda. Það gerir það að verkum að hann getur birst á þeim stöðum sem teljast heldur óvanalegir, eins og til dæmis alveg uppi við land.
„Það endurspeglar svolítið þennan tækifærissinnaða lífsstíl þegar þeir birtast á þessum meira óvanalegu stöðum“, bætir hún við.
Edda segir að mjög eðlilegt þyki að hnúfubakar haldi sig í stórum hópum, sérstaklega ef þeir komast að góðum fæðublett. Þá eru þeir þekktir fyrir það að vinna saman við veiðar.
„Verandi hópdýr, sem vinna saman við veiðar og geta farið í miklar grynningar, er þetta ekkert stórfurðulegt. En gerist þó ekki oft,“ segir Edda og bætir við að það sé kannski ekki oft sem það séu góðir fæðublettir alveg uppi við land þó það geti gerst.
Hnúfubakar eru sérstakir hvað þetta varðar segir Edda. Þeir eru stórhveli sem geta náð allt að 40 tonnum að þyngd og 15 metrum að lengd. Önnur stórhveli halda sig yfirleitt lengra frá öllum mannaferðum og almennt lengra frá landi.
Hrefnan getur þó haldið sig nálægt landi en Edda segir að hún sé kvikari en hnúfubakurinn og meira vör um sig á meðan hnúfubakurinn er heldur slakari, eins og í kringum báta. þeir eru forvitnir og koma oft sjálfir mjög nálægt bátum og fólki.
Verandi þrettán til fimmtán metra löng dýr virðist ekkert á þá fá því Edda segir þá vera lipra og sækjast í miklar grynningar ef mat er þar að finna. Þeir koma ekki ef aðeins örfáir fiskar eru, heldur þarf að vera ákveðið magn fæðu.
„Hnúfubakar eru áhugaverðir hvað varðar karaktereinkenni, félagslyndi og forvitni,“ segir Edda.
„Ef það er eitthvað óvanalegt í gangi í sjónum, eins og breyting á útbreiðslu fiska sem dæmi, getum við búist við að hnúfubakar birtist. Þeir endurspegla svolítið breytingar í hafinu og breytingar á útbreiðslumynstri fiska og það er það sem við erum að sjá mjög mikið,“ segir Edda.
Á bilinu 11.000 til 15.000 hnúfubaka halda sig við Íslandsstrendur og teygja sig til Grænlands og Færeyja. Virðist sem svo að stofninn sé í stöðugleika, segir Edda að lokum.