Vísitala lífmassa makríls var metin 2,51 milljón tonn sem er tæplega 42% lækkun frá árinu 2023 og er minnsti lífmassi sem mælst hefur síðan árið 2007.
Þetta kemur fram í tilkynningu Hafrannsóknarstofnunar um niðurstöður úr uppsjávarleiðangri Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem var farinn á tímabilinu 28. júní til 2. ágúst.
Meginmarkmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlandshafinu að sumarlagi en jafnframt að rannsaka vistkerfi og umhverfi sjávar.
Leiðangurssvæðið var 2,2 ferkílómetrar sem er 6% minna en síðasta ár þar sem yfirferð skipa fyrir sunnan og vestan Ísland og norður í Noregshafi var minni vegna samdráttar í útbreiðslu makríls.
Vísitala makríls í ár er 66% lægri en langtímameðaltal gagnaseríunnar sem rúmar um 7,5 milljónir tonna. Útbreiðsla makríls við Ísland var minni en á síðasta ári og var mesti þéttleikinn fyrir utan landsgrunnsbrúnina fyrir suðaustan landið. Ekkert mældist af makríl fyrir vestan og sunnan landið.
Samt sem áður mældist um 19,9% af heildarlífmassa makríls í íslenskri landhelgi samanborið við 10,3% síðasta ár og er það vegna mikils afla á einni togstöð. Líkt og undanfarin ár var meirihluti stofnsins í Noregshafi og þá sérstaklega suðvestan til.
Vísitala fyrir lífmassa kolmunna út frá bergmálsmælingum var metin tæplega 2 milljónir tonna sem er um það bil sama og á síðasta ári. Vísitala fyrir lífmassa síldar út frá bergmálsmælingum var metin tæplega 3,8 milljónir tonna sem er ríflega 24% lægri en á síðasta ári.
Samkvæmt gervihnattagögnum var meðaltalshitastig í yfirborðslögum sjávar austan, sunnan og vestan við Ísland lægra í júlí en á sama tíma í fyrra og ýmist álíka eða fyrir neðan meðaltal síðustu 20 ára. Fyrir norðan landið var hitastig hærra í ár en áfram undir 20 ára meðaltali. Í norðurhluta Noregshafs var yfirborðshiti yfir meðaltali síðustu 20 ára en nálægt meðaltalinu í suðurhlutanum.
Vísitala um magn dýrasvifs á hafsvæðinu í júlí við Ísland og í Noregshafi minnkaði lítillega samanborið við síðasta sumar og var álíka og langtímameðaltal leiðangursins síðan árið 2010.