Alþjóðahafrannsóknarráðið leggur til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að heildarafli norsk-íslenskrar vorgotssíldar á næsta ári hækki um 3% eða tæp 402 þúsund tonn, en ráðgjöf fyrir yfirstandandi ár var 390 þúsund tonn.
Ráðið veitti í dag ráð um veiðar á norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna fyrir árið 2025, sem birt hefur verið á vef Hafrannsóknarstofnunar.
Vísað er til þess að árgangar síldarstofnsins hafi verið litlir síðustu ár og uppistaðan á veiðinni undanfarin misseri sé frá 2016. Hins vegar sýni mælingar að 2021 árgangurinn sé stærri en verið hefur sem hækki meðal annars ráðgjöfina.
Áætlað er að heildarafli ársins 2024 verði um 447 þúsund tonn sem er 15% umfram ráðgjöf ICES. Ekkert samkomulag er í gildi á milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum um skiptingu hlutdeildar og hver þjóð setur sér aflamark einhliða.
Sérfræðingar ICES telja að það hafi haft þær afleiðingar að frá árinu 2013 hafi veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 4 til 42% á ári.
ICES leggur til að heildarafli makríls á næsta ári verði ekki meiri en 577 þúsund tonn en ráðgjöfin á þessu ári var 739 þúsund tonn og því 22% lægri en nú. Ástæða þess sé fyrst og fremst að stofninn er metinn minni.
Reiknað er með heildarafli ársins 2024 verði ríflega 954 þúsund tonn sem er 29% umfram ráðgjöf. Eins og með norsk-íslensku síldina er ekki í gildi samkomulag milli allra þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflahlutdeildar.
Hver þjóð setur sér einhliða aflamark sem hafi haft þær afleiðingar að veiðar frá árinu 2010 umfram ráðgjöf hafi numið 9 til 86% á ári.
Þá leggur ICES til að kolmunnaafli lækki um 5% á næsta ári og verði ekki meira en tæp 1,45 milljón tonn, en á þessu ári var rálagður heildarafli 1,53 milljón tonn. Lækkunin stafar af minnkandi veiðistofni sem helgast af háum fiskveiðidauða og litlum árgöngum frá 2022 og 2023.
ICES áætlar að heildarafli ársins 2023 verði 1,88 milljón tonn sem sé 23% umfram ráðgjöf. Ekkert samkomulag er á milli þjóða sem stunda veiðar úr kolmunnastofninum með þeim afleiðingum að veiðar síðan 2018 hafa numið 23 til 28% umfram ráðgjöf ICES.