Innflutningur á rússneskum alaskaufsa til Evrópusambandsins frá Kína hefur aukist eftir því sem liðið hefur á árið. Í ágúst síðastliðnum voru flutt inn á evrópskan markað rúmlega sjö þúsund tonn af rússneskum alaskaufsa frá Kína, en aðeins tvö og hálft þúsund tonn voru flutt inn í janúar.
Í heild hafa evrópskir kaupendur tekið við rétt rúmlega 42 þúsund tonnum af afurðum á tímabilinu.
Innflutningurinn til Evrópusambandsins frá Kína er þó aðeins helmingur þess sem hann var á sama tímabili í fyrra, en um áramótin tóku gildi útflutningstollar í Rússlandi og féll niður sérstök undanþága rússnesks fisks sem fluttur var til Evrópusambandsins.
Vegna þessa flæddi gríðarlegt magn af þessum afurðum inn á Evrópumarkað undir lok síðasta árs. Bara í desember voru flutt inn 28 þúsund tonn af rússneskum alaskaufsa.
Varð í kjölfarið lítill markaður fyrir afurðirnar og voru seljendur búnir með flestar birgðir. Sú staða, auk þess að tollar Evrópusambandsins urðu óhagstæðari og nýir útflutningstollar í Rússlandi tóku gildi, leiddi til þess að aðeins voru flutt rúm tvö þúsund tonn af afurðum til Evrópu í janúar.
Kínverjar stunda ekki veiðar á alaskaufsa en margar rússneskar útgerðir beina hráefni sínu til vinnslu í Kína. Hagstæðar aðstæður eru til vinnslu þar en auk þess getur það auðveldað viðskipti þar sem Rússland sætir nú umfangsmiklum efnahagsþvingunum af hálfu fjölda ríkja sem hafa stutt við baráttu Úkraínu gegn innrásarher Rússa.
Árið 2022 setti Evrópusambandið innflutningsbann á rússneskan skelfisk og kavíar í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Frá þeim tíma hefur verið rætt um innflutningsbann á rússneskan fisk en ekkert hefur orðið af slíkum áformum sökum þess að evrópsk iðnaðarfyrirtæki hafa verið háð rússnesku hráefni.
Nú síðast í sumar greindi þýski miðilinn Welt frá því að til umræðu væri innan Evrópusambandsins að setja innflutningsbann á rússneskan fisk og eru helstu talsmenn þess Eystrasaltsríkin.
Þjóðverjar eru helstu kaupendur rússneska alaskaufsans og hafa þeir tekið við meira en helmingi alaskaufsans sem fluttur hefur verið til Evrópu á fyrstu átta mánuðum ársins.
„Ef afhending rússnesks alaskaufsa myndi alfarið stöðvast vegna viðskiptaþvingana hefðum við ekkert sem gæti komið í staðinn,“ hafði Welt eftir Stefan Meyer, talsmanni þýskra framleiðanda fiskafurða (Geschäftsführer des Bundesverbands der deutschen Fischindustrie und des Fischgroßhandels).
„Sem stendur er engin önnur útgerð í heiminum sem býður upp á það magn sem þarf og sem einnig hefur sjálfbærnivottun,“ sagði Meyer.
Í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í sumar gagnrýndi Einar Gústafsson, forstjóri American Seafoods, stöðuna harðlega og sagði Rússa leika lausum hala á mörkuðum.
Þá beindi hann einnig gagnrýni að Marine Stewardship Council (MSC) fyrir að veita rússneskum afurðum sjálfbærnivottun þrátt fyrir að ekki væri hægt að sýna fram á að Rússar stundi sjálfbærar veiðar. Sagðist Einar telja að það væri fjárhagslegur hvati sem ýtti undir áframhaldandi vottun rússneskra afurða.