„Við fórum út klukkan tvö í gær. Byrjuðum á veiðum í gærkvöldi. Ég hélt við yrðum lagðir af stað héðan [til hafnar] núna út af veðri en það er eitthvað seinna á ferðinni eða verður kannski eins mikið og var spáð. Vonandi verður það þetta seinna en það er bara óskhyggja,“ segir Hálfdan Finnbjörnsson skipstjóri á ísfisktogaranum Páli Pálssyni ÍS.
Þegar blaðamaður nær tali af Hálfdani laust fyrir klukkan eitt í dag er togarinn, sem Hraðfrystihús Gunnvarar gerir út, á þorskveiðum í Heiðardalnum fyrir neðan Þverálshornið á um 205 föðmum. „Það er dagbleyða þar við hliðina, oft farið á Þverálshornið yfir nóttina og hingað yfir daginn,“ útskýrir hann.
Hann segir spánna ekki sérlega spennandi. „Það er ekki farið að hvessa mikið ennþá, þetta eru um 14 til 15 metrar núna. Það er spáð að ölduhæðin geti farið í einhverja sex til sjö metra. Það er smá hreyfing, maður finnur alveg fyrir því.“
Áætlað er að Páll Pálsson komi til hafnar til löndunar á fimmtudag, en það er nokkuð líklegt að það gerist fyrr ef veðurspár ganga eftir að sögn Hálfdans.
„Svo er bara að fylgjast með hvenær þetta gengur niður aftur. Það er nú helsta fjörið við þetta. Eins og þessi vika, þetta eru endalausar lægðir. Það dettur niður og verður fínasta veður á morgun en aðfararnótt föstudags verður aftur skítaveður sem á að detta niður á föstudeginum. Það er bara endalaust verið að skoða veðurspár.“
En svona veðurfar er ekkert nýtt af nálinni?
„Nei nei alls ekki. Þetta er bara þessi árstími. Það er fyndið hvað maður verður alltaf jafn sjokkeraður þegar hann kemur,“ svarar Hálfdan og hlær. „Stundum hefur verið svona ástand í nóvember, stundum í desember og stundum í janúar. Það er misjafnt hvaða mánuður er verstur.“
Hann segir áberandi lítið um þorsk hafa verið á miðunum eftir síðustu brælu. „Það hefur verið lítið á Vestfjarðarmiðum alla seinustu vikuna.Við fengum einhvern karfa sem var blandaður með þorsk vestur í Kanti, svo var lítið á Grunnhalanum en kom skot á Þverálshorninu. Við ætluðum að treysta á það núna en það virðist vera eitthvað minna.“
Þá hefur heldur ekki verið mikið um ufsa og hefur hans verið saknað um nokkurt skeið. „Það hefur komið ufsaskot annað slagið á Hala en annars hefur þetta ekkert verið.“
Tíðarfarið er bara eitthvað sem sjómenn verða að venjast að mati skipstjórans. „Þetta er bara eins og það er. Þessi árstími er oft erfiður. Þá er fiskurinn oft ennþá Grænlandsmegin og lengst úti á hafi. Svo fer þetta yfirleitt að koma þegar líður á nóvember og eykst í desember og janúar,“ segir Hálfdan.