Á fyrstu þrem ársfjórðungum 2024 hefur Kaldvík slátrað 8.298 tonnum af laxi úr kvíum sínum á Austfjörðum og er það umtalsvert meira en á sama tímabili í fyrra er slátrað var 4.395 tonnum. Þá voru tekjur 60,9 milljónir evra, jafnvirði tæpra 9 milljarða króna, en var 39,9 milljónir evra á fyrstu þrem ársfjórðungum í fyrra.
Þetta má lesa úr uppgjöri Kaldvíkur vegna þriðja ársfjórðungs 2024.
Fram kemur að aðeins 195 tonnum var slátrað í fjórðungnum og að tekjur voru 2,1 milljón evra. Þá greiddi félagið 300 þúsund evrur í eldisgjald og var rekstrarhagnaðurinn (EBIT) einnig um 300 þúsund evrur.
Nýttu vaxtartíma haustsins
Fyrirtækið gerir ráð fyrir að slátra um 6.700 tonnum á fjórða ársfjórðungi. Þá er ætlað að framaleiðsla ársins 2024 nái um 15 þúsund tonnum, sem er þó um 2.500 tonnum minna en á síðasta ári. Kaldvík er með markmið um að koma framleiðslunni í 30 þúsund tonn.
Greint er frá því í uppgjörinu að Kaldvík hafi tekið ákvörðun um að breyta skipulagi slátrunnar í þeim tilgangi að hámarka frmaleiðsu og arðsemi. „Verð á 3. ársfjórðungi var lægra en búist var við ásamt því að 3. ársfjórðungur er góður vaxtarfjórðungur fyrir fiskinn. Ákvörðun um að seinka hluta af fyrirhuguðu sláturmagni mun þannig gera okkur kleift að nýta vaxtarskeiðið í sjó og hámarka verð.“
Jafnframt segir að aldrei hafi heilsa fiska í kvíum Kaldvíkur verið betri en á þriðja ársfjórðungi. „Allan fjórðunginn sáum við takmarkaða dánartíðni og gæði fisksins eru góð. Það gladdi okkur að sjá takmörkuð áhrif vegna árstíma þar sem marglyttur eru algengar, sem við rekjum til aðgerða sem gripið hefur verið til til að takmarka líffræðilega áhættu með tilliti til marglyttna,“ segir í uppgjörinu.
Kaldvík AS er eignarhaldsfélag sem fer með alla hluti í Kaldvík hf. (áður Fiskeldi Austfjarða hf.) og 66,7% hlut í Búlandstindi ehf.