Hrognkelsi (grásleppa) virðast synda langtum lengri vegalengdir en áður var talið og er það einmitt niðurstaða vísindamanna eftir að tvö hrognkelsi sem merkt voru austur af Íslandi syntu 1.510 kílómetra og 1.612 kílómetra til Danmerkur til að hrygna.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í vísindagrein sem nýverið var birt í vísindatímaritinu Journal of Fish Biology.
Rannsóknin spannar sex ára tímabil og voru á tímabilinu merkt 2.750 hrognkelsi merkt í Irmingerhafi og í Noregshafi. Voru 17 fiskar endurheimtir pg veiddust fjórir þeirra meira en þúsund kílómetra frá því svæði sem þeir voru merktir. Þetta er talið sýna að hrognkelsi synda langar vegalengdir milli fæðuslóðar á úthafi að sumarlagi og hrygningarstöðva við ströndina að vori.
Í færslu um rannsóknina á vef Hafrannsóknastofnunar er vakin athygli á að hrognkelsi sem merkt voru í Irmingerhafi voru endurheimt hér við Ísland. Telja vísindamenn ljóst að hrognkelsi sem hrygna við Íslandsstrendur nýta Irmingerhaf sem fæðusvæði.
Kort af merkingum hrognkelsa (svartir punktar) og endurheimtarstöðvum (rauðir punktar) sem merktir voru í alþjóðlegri vistkerfisumarkönnun á Norðurhöfum.
Staðbundnir stofnar?
Noregshaf er sagt sameiginlegt fæðusvæði fyrir nokkra mismunandi stofna hrognkelsa. Athygli vekur að hrognkelsi, sem voru merkt í Irmingerhafi og norður af Íslandi veiddust aftur við Ísland, 0en engir þeirra fiska sem voru merktir í Noregshafi endurheimtust við Ísland.
„Þessi munur á heimtuhlutföllum á mismunandi svæðum bendir til þess að hærra hlutfall hrognkelsa úr Irmingerhafi og norður af Íslandi hrygni í kringum Ísland samanborið við hrognkelsi á öðrum svæðum,“ segir í færslu Hafrannsóknastofnunar.
Sem fyrr segir veiddust út af Danmörku tveir fiskar sem höfðu verið merktir austur af Íslandi. „Endurheimtur þessara tveggja fiska í Danmörku sýnir að hluti hrognkelsastofnsins, sem hrygnir í Danmörku, nýtir Noregshafið sem fæðuslóð og að Noregshaf er sameiginlegt fæðusvæði fyrir nokkra aðgreinda stofna hrognkelsa.“