Mun íslenski þorskurinn taka framúr þeim norska og verða leiðandi á mörkuðum? Það telur Bjørn-Erik Stabell yfirmaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá útflutningsráði norskra sjávarafurða, Norges sjømatråd.
„Þegar Ísland tekur við sem markaðsleiðtogi í þorski á næsta ári mun færni okkar skipta sköpum í að tryggja að neytendur séu meðvitaðir um [norska] þorskinn,“ skrifar hann í pistli í norska blaðinu Kyst og fjord.
Stabell segir ráðandi stöðu Norðmanna í hvítfiski ógnað og vísar til áframhaldandi samdráttar í þorsk-, ýsu- og ufsakvóta sem úthlutað er til norskra fiskiskipa. Vekur hann athygli á því að það séu ekki bara sjómennirnir og fiskvinnslurnar sem finna fyrir skerðingunni heldur heilu samfélögin, þær hafi keðjuverkandi áhrif á einstaklinga og fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn.
Lýsir hann áhyggjum af því að norskur hvítfiskur fái ekki næga athygli. „Við erum að tala um atvinnugrein sem skapar gífurleg verðmæti og þúsundir starfa. Þrátt fyrir að hvítfiskur sé okkar næststærsta útflutningsgrein á eftir olíu og laxi er hún samt oft í skugganum.“
Vegna þeirrar erfiðu stöðu sem Stabell segja vera í uppsiglingu fyrir norskan hvítfisk hefur útflutningsráð norskra sjávarafurða markað nýja stefnu í samstarfi við greinina. „Markmiðið er einfalt en mikilvægt: að hámarka verðmæti hvítfisksins sem við eigum, þannig að við getum mildað áhrifin af samdrættinum sem nú er óumflýjanlegur.“
Sem fyrr segir bendir Stabell á íslenskan hvítfisk sem helsta keppinaut og segir hann meðal annars mikilvægt að gripið verði til aukinna upprunamerkinga á frystum norskum þorski á kjarnamörkuðum. Einnig segir hann að Norðmenn verði að leggja enn meiri áherslu á að nýta forskot sitt í markaðsetningu „skrei“ (þorskur úr Barentshafi) sem takmarkaða vertíðarafurð, auk þess að leggja áherslu á ferskar afurðir úr villtum þorski og eldisþorski.
Stabell virðist gefa sterklega í skyn að á meðan skortur verður á þorskur skuli leggja aukin þunga á markaðssetningu ufsa.
„Til að ná árangri með hvítfiskinn verða allir að leggja sitt af mörkum. Sjómenn verða að setja gæði og stöðugt framboð af ufsa í forgang á mörkuðum og vinnslurnar í landi þurfa að axla ábyrgð og tryggja að ufsinn haldi sem mestum gæðum. Útflytjendur verða að fjárfesta í að byggja upp stöðuga dreifingu á mikilvægum mörkuðum og við í útflutningsráðinu munum vera virkur bakhjarl og vinna markvisst að því að ufsinn vekur athygli neytenda og dreifingaraðila,“ skrifar hann.
Þá bendir Stabell á að það megi í millitíðinni ekki missa sjón af þeim árangri sem hefur náðst. „Þorskurinn kemur aftur og við verðum einnig að vinna að því að viðhalda stöðu þorsksins á helstu mörkuðum og ekki veita samkeppnisaðilunum verðmætar markaðshlutdeildir.“