Brim hf. mun fá rúm þúsund tonn af djúpkarfakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs af þeim 3.599 tonnum sem verða úthlutað sem aflamark ef marka má tæplega 29% hlutdeild sem skráð er á vef Fiskistofu. Á eftir fylgir Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. (ÚR) með 659 tonn en sú útgerð er stærsti staki hluthafi Brims og er Guðmundur Kristjánsson eigandi ÚR forstjóri Brims.
Vinnslustöðin fer með rúm ellefu prósenta hlutdeild í djúpkarfa og mun líkelga verða úthlutað 408,5 tonnum, en FISK-Seafood ehf. sem er stór hluthafi í Vinnslustöðinni fer með 10,1% djúpkarfakvótans og má vænta að fá úthlutað rúmlega 364 tonna djúpkarfakvóta.
Fjallað var um það á 200 mílum fyrr í dag að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, matvælaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra, samþykkti nýverið breytingar á reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fyrir fiskveiðiárið 2024/2025 þar sem ákveðið var að heimila veiðar á 3.800 tonn af djúpkarfa þrátt fyrir að vísindamenn hafa mælt gegn djúpkarfaveiðum.
Af þessum 3.800 tonnum verða 3.599 tonn til skiptanna fyrir handhafa aflamarks en 201 tonn verður ráðstafað sem atvinnu- og byggðakvóta í samræmi við ákvæði laga.
Fiskistofa hefur ekki enn lokið formlegri úthlutun á kvóta í djúpkarfa enda var breytt reglugerð fyrst birt í Stjórnartíðindum í gær. Hins vegar er að finna á vef stofnunarinnar skráðar hlutdeildir útgerða í djúpkarfa og er hægt að áætla hver líkleg úthlutun verður.
Á grundvelli þessa má reikna með að þær fimm samstæður sem hafa mestu hlutdeildina í djúpkarfa munu fara með rúmlega 2.800 tonn af hinum 3.599 tonnum sem verða til úthlutunar eða tæp 75% af 3.800 tonna heildarkvóta.