Ísland hefur náð samkomulagi um fríverslunarsamning við Taíland og kveður samningurinn á um tollfríðindi fyrir allar helstu útflutningsafurðir Íslands. Samningurinn tryggir meðal annars fullt tollfrelsi inn á Taílandsmarkað fyrir flök af laxi, þorsk, grálúðu og loðnuhrogn, vélbúnað til matvælaframleiðslu og stoðtæki.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
„Fríverslunarsamningur við Taíland mun bæta samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda á hinum stóra og ört vaxandi Taílandsmarkaði. Samningurinn fylgir þannig eftir útflutningsstefnu Íslands, sem unnin var í samstarfi við atvinnulífið. Þar var lögð áhersla á að bæta aðgang íslenskra fyrirtækja að mörkuðum Suðaustur-Asíu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í tilkynningunni.
Fullyrðir hún að góður árangur hafi náðst á þessu svæði undanfarin ár og bendir á samninga við Indland, Filippseyjar og Indónesíu. „Þetta er sérstaklega mikilvægt nú þegar framleiðsla og viðskiptaumhverfi Asíu er að taka örum breytingum og tryggir að íslensk fyrirtæki búi ávallt við bestu viðskiptakjör. Þannig tryggjum við hagsmuni Íslands,“ segir Þórdís.
Samstarf um sjálfbærar fiskveiðar
Þá kveður samningurinn einnig á um samstarf milli íslenskra og taílenskra aðila á sviði sjálfbærra fiskveiða og fiskveiðistjórnunar. Samningurinn veitir íslenskum fyrirtækjum ennfremur víðtækari heimildir til fjárfestinga á Taílandi, auk þess að bæta aðgang íslenskra þjónustufyrirtækja að taílenskum þjónustumarkaði. Þá fjallar samningurinn meðal annars um vernd hugverka og sjálfbær viðskipti.
Viðræðum lauk síðastliðinn föstudag en þær hafa verið sameiginlegar með hinum EFTA-ríkjunum, Liechtenstein, Noregi og Sviss. Samningaviðræður tóku rúmlega tvö ár.
Til stendur að undirrita samninginn formlega í upphafi nýs árs en hann mun taka gildi þegar Ísland og Taíland hafa lokið fullgildingarferli sínu.