Nýverið var tekin ákvörðun um heildarkvóta fleiri tegunda í Norðursjó, Skagerrak og Jótlandshafi fyrir árið 2025. Mikill samdráttur verður í útgefnum veðiheimildum í þorski, makríl og síld, auk þó nokkrum samdrætti í ýsu og veiðibann á brisling.
Heimilt verður að veiða 19.910 tonn af þorski úr Norðursjó á næsta ári og er það 20% minni afli en heimilt var að landa á þessu ári. Þá verður einnig 20% samdráttur í þorskkvótanum í Skagerrak og mun hann vera aðeins 2.846 tonn.
Aðeins verður heimilt að landa þorski úr Jótlandshafi sem meðafla, að hámarki 72 tonn og er það 17,2% minni afli en heimilt hefur verið að landa árinu 2024. Þá þarf að nota veiðarfæri sem sneiða hjá þorsknum þegar veiðar eru stundaðar á þessu svæði. Ekki verður lengur í boði sértækur viðbótarkvóti fyrir fiskiskip sem samþykkja rafræna myndavélavöktun, að því er fram kemur í tilkynningu á vef danska matvælaráðuneytisins.
Ýsukvóti í Norðursjó árið 2025 verður 95.862 tonn og er það 5,5% minni kvóti en á þessu ári. Einnig verður 5,5% samdráttur í ýsukvótanum í Skagerrak og Jótlandshafi þar sem heildarkvótinn nemur 5.892 tonnum.
Sjómenn á svæðinu geta þó fagnað lýsukvóta næsta árs í Norðursjó sem eykst um 45,8% og verður heil 111.861 tonn, en skerðist um 32,7% í Skagerrakk og Jótlandshafi þar sem heimilt verður að veiða 455 tonn.
Góð tíðindi eru einnig af skarkolanum og geta útgerðirnar í Norðursjó og Skagerrak landað 14,2% meira af tegundinni, annars vegar 155 þúsund tonn og hins vegar tæplega 21 þúsund tonn. Engin breyting verður á skarkolakvótanum í Jótlandshafi milli ára og verður hann 2.349 tonn.
Meira gott er að frétta af fleiri tegundum svo sem sólflúrunni og aukast heimildir í tegundinni í Norðursjó um 172% milli ára og nemur heildarkvóti næsta árs tíu þúsund tonn á næsta ári. Í Skagerrak og Jótlandshafi lækkar kvóti hins vegar u rúman þriðjung í 209 tonn.
Heimilt verður að veiða 576 þúsund tonn af makríl í Norðursjó, Skagerrak og Jótlandshafi á næsta ári og er það 22% minni heildarafli en á árinu 2024.
Þá minnkar síldarkvótinn í Norðursjó og Ermasundi úr 510 þúsund tonnum í 388 þúsund tonn, auk þess sem veiði á síld í Skagerrak og Jótlandshafi verður takmörkuð við 22.793 tonn sem er 23,3% minni hámarksafli en á þessu ári.
Á þessu ári mátti veiða 117 þúsund tonn af brislingi í Norðursjó, 2.437 tonn í Ermarsundi og 26 þúsund tonn í Skagerrak og Jótlandshafi, alls tæp 146 þúsund tonn. Tegundin verður hins vegar friðuð á næsta ári.