Aðalvélin í Ljósafelli SU-70 náði þeim merka áfanga á dögunum að hafa verið keyrð í 200.000 klukkustundir. Hefur hún verið í notkun frá því í nóvember 1988 þegar hún var sett í skipið í Gdynia í Póllandi.
Fram kemur í færslu á vef Loðnuvinnslunnar, sem gerir Ljósafellið út, að japanska vélin af gerðinni Niigata hafi náð áfanganum 12. desember klukkan 13:03. Bent er á að bíll sem væri ekinn á 60 kílómetrum á klukkustund í 200 þúsund klukkutíma myndi ná að keyra 12 milljónir kílómetra, en tíminn er ígildi þess að vélin gengi stanslaust í 22 ár.
Högni Páll Harðarson sem var vélstjóri á Ljósfelli þegar vélin var sett um borð segir grunnhönnun vélarinnar hafi verið mikilvægur þáttur í þessum langa endingartíma hennar. Einnig hafi góð umhirða, eftirlit og tímanleg útskipti á slithlutum mikið að segja.
„Það eru allir íhlutir í þessari vél sverir og sterkir sem þýðir að þeir þola meira álag,“ er haft eftir Kristjáni Birgi Gylfasyni yfirvélstjóra á Ljósafelli. Hann segir einnig vélina hannaða til þess að ganga 310 snúninga en hann, og hinir vélstjórarnir, létu hana aldrei ganga meira en 280 snúninga.
Kristján Birgir telur ljóst að vélin gæti gengið í mörg ár í viðbót enda hafi aldrei verið sparað í viðhaldinu og vel hugsað um hana. Það eru þó aðrir þættir sem gætu haft áhrif á það hve lengi verpur hægt að nýta hana. „Það gæti farið að verða svolítið erfitt að fá varahluti því að hún er jú komin til ára sinna þrátt fyrir að vera við hestaheilsu.“
Í færslunni segir að vélin stóð í 200.041,9 klukkustundum þegar Ljósafell lagðist við bryggju eftir síðasta túr fyrir jól. Hins vegar getur teljarinn ekki talið meira en upp í 99.999 og hafa vélstjórar á Ljósafelli því gripið til þess ráðs að bæta við tölum fyrir framan með límmiða.