Ríki Evrópusambandsins fluttu inn tæplega 255 þúsund tonn af sjávarafurðum frá Kína á fyrstu níu mánuðum ársins fyrir rétt rúman milljarð evra. Um er að ræða 12% minna magn og 19% minna verðmæti afurða en á sama tímabili á síðasta ári.
Þetta má lesa úr gögnum markaðseftirlitsstofnunar Evrópusambandsins fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir (EUMOFA).
Athygli vekur að aðildarríki sambandsins fluttu inn þúsundir tonna af afurðum úr tegundum sem Kínverjar stunda engar veiðar á eða framleiða ekki eða í litlu magni með eldi. Voru þannig keypt rúmlega 19 þúsund tonn af afurðum úr atlantshafsþorski, 609 tonn af ýsuafurðum og 17,5 þúsund tonn afurða úr atlantshafslaxi.
Fiskurinn sem um ræðir er í flestum ef ekki öllum tilfellum tvífrystur. Það er að segja að hann er keyptur í Evrópu heill, frystur og siglt með hann til Kína. Þar er hann þíddur, unninn, settur í neyslupakkningar og frystur á ný áður en siglt er með afurðirnar til Evrópu.
Innflutt magn af þorskafurðum frá Kína til Evrópusambandsins hefur þó dregist saman um 18% milli ára og 12% í tilfelli ýsuafurða, en það er nokkuð í takti við samdrátt í útgefnum veiðiheimildum í Noregi þaðan sem kínversku vinnslurnar fá mesta þorskinn og ýsuna.
Hins vegar virðast verð þessara afurða dala nokkuð því samdráttur í verðmætum afurðanna dregst saman um 31% fyrir þorsk og 29% fyrir ýsu. Var verðmæti þorskafurðanna 109 milljónir evra og ýsuafurðanna þrjár milljónir.
Eftirtektarvert er að þrátt fyrir 17% vöxt í innflutningi laxafurða frá Kína dregst verðmæti þeirra saman um 28%. Var verðmæti þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins 84 milljónir evra.
Þá voru seld frá Kína 16.773 tonn af tilapíaafurðum til Evrópusambandsríkja á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, en tilapía er ódýr asískur eldisfiskur sem er hvítur og keppir á Evrópumarkaði við dýrari hvítfisk eins og þorsk, ýsu og ufsa. Jókst innflutningurinn um 14% milli ára og verðmæti viðskiptanna um 26% og námu 44 milljónum evra.
Þá fluttu aðildarríki inn tæp 49 þúsund tonn af afurðum úr alaskaufsa, en það er mestmegnis ef ekki alfarið fiskur sem fluttur er til Kína frá Rússlandi. Þannig kemst rússneskur fiskur fram hjá ýmsum þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Vert er þó að geta þess að innflutt magn afurða úr alaskaufsa á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 er 48% minna en á sama tímabili á síðasta ári.
Eins og ítarlega hefur verið fjallað um á 200 mílum tóku gildi 1. janúar síðastliðinn hærri innflutningstollar á rússneskt sjávarfang til Evrópusambandsins og nýir útflutningstollar á sjávarfang í Rússlandi.
Sjást áhrifin einna mest í innflutningstölum Þýskalands en Þjóðverjar hafa flutt inn 33 þúsund færri tonn af sjávarafurðum frá Kína á fyrstu níu mánuðum ársins en gert var í fyrra. Þýskaland var einn stærsti kaupandi rússnesks alaskaufsa á síðasta ári. Einnig er um helmings samdráttur í innflutningi Frakklands og eru sömu skýringar þar.