Skjót viðbrögð áhafnarinnar á Frosta ÞH-299 komu líklega í veg fyrir að einn skipverjanna yrði fyrir miklu tjóni eftir að hafa fengið klórblandaðan sjó í augun 10. desember síðastliðinn, að því er segir í atvikaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA).
Fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins í dag að nefndin hrósar áhöfn og minnir á mikilvægi þess að nota hlífðarbúnað þegar unnið er með eitruð eða ætandi efni.
Frosti var inni á Seyðisfirði og var verið að þrífa skipið þegar atvikið átti sér stað. Var háseti að hella klór í þvottakar að afloknum þrifum fyrir landlegu. Karið var tómt og leit hann ofan í karið þegar sjó var hleypt í það. Við þetta skvettist sterk klórblanda í augu hásetans.
Aðrir í áhöfninni voru þó fljótir til og skoluðu augu hans nánast samstundis. Var Frosti kominn til hafnar á Seyðisfirði um 15 mínútum síðar þar sem sjúkrabifreið beið hásetans og kom honum undir læknishendur.
Fram kemur að hann hafi verið óvinnufær í þrjá daga eftir atvikið en hafi náð sér að fullu. „Skjót viðbrögð annarra skipverja og að hinum slasaða var fljótt komið undir læknishendur er stór þáttur í að ekki fór verr. Það ber að hrósa áhöfn fyrir skjót viðbrögð og að skipstjóri tilkynnti atvikið eftir örstutta stund.“
Hafa sett reglur
„Klórinn var af 15% styrkleika og er ætlast til að hann sé blandaður vatni. Á umbúðunum er tekið fram nota eigi augnhlífar, hlífðarhanska og hlífðarfatnað. Þegar slysið varð var klórnum hellt í tómt kar og blandan því sterkari á meðan sjó var hleypt á karið heldur en við hefðbundna notkun. Má leiða líkum að því að það hafi aukið á alvarleika atviksins,“ segir í skýrslu RNSA.
Hafa í kjölfar atviksins verið settar reglur um borð um notkun hlífðargleraugna auk þess að stútum í þvottakari var breytt á þann hátt að minni hætta er á að vatn geti skvest úr karinu.