Aukin harka virðist færast í kjaradeilu norskra vélstjóra og útgerða í hagsmunasamtökunum Fiskebåt. Hafa verkfallsaðgerðir vélstjóra í rúmar tvær vikur náð til tveggja norskra skipa en munu frá 27. desember ná til þriggja skipa til viðbótar.
Verkfall norsku vélstjóranna hófst klukkan sex að morgni 13. desember og náði til félagsmanna sem starfa um borð frystitogurunum Senja og Gadus Poseidon, sem gerðir eru út af Nergård og Nordland havfiske.
Tilkynnti vélstjórasamband Noregs (Det norske maskinistforbund – DNMF) síðastliðinn miðvikudag að verkfallsaðgerðir sambandsins myndu frá 27. desember einnig ná til uppsjávarskipanna Slaatterøy, Manon og Gardar, en öll eru þau gerð út af samstæðu Halstensen Bekkjarvik.
Deilan snýst um launalið vélstjóranna ekki þann hlut tekna sem fæst í gegnum hlut í sölu afla. Grunnlaun norskra vélstjóra sem starfa á grundvelli kjarasamnings DNMF og útgerðasamtakanna Fiskebåt hefur tekið breytingum þrisvar á undanförnum áratug.
„Þetta ber sig ekki. Umboð okkar frá félagsmönnum er mjög skýrt. Við verðum að tryggja lágmarkstaxta sem endurspeglar verðmæti þeirrar vinnu sem fram fer. Við höfum því gert kröfu um almenna hækkun allra launaþrepa í kjarasamningi sem og samsvarandi leiðréttingu á öðrum krónutölum kjarasamningsins. Vinnuveitandinn vildi ekki veita slíka almenna launahækkun,“ sagði Hege-Merethe Bengtsson framkvæmdastjóri DNMF í tilkynningu á vef stéttarfélagsins í síðust viku.
Fyrir sína parta harmar Fiskebåt að ekki hafi tekist að ganga frá kjarasamningi við vélstjóra sem í september höfnuðu samningum, á meðan gengið var frá samningum við sjómenn (Norsk Sjømannsforbund) og skipstjóra (Norsk Sjøoffisersforbund).
Segjast samtök útgerða í yfirlýsingu á vef sínum að þau hafi teygt sig langt til að mæta kröfum DNMF en benda jafnframt á að vélstjórarnir höfnuðu sömu launahækkun og aðrar sjómannastéttir féllust á.
Verkfall vélstjóra eru enn sem komið er takmarkaðar í umfangi og munu brátt aðeins ná til fimm skipa, en Fiskebåt semur fyrir 195 skip.
Í janúar hefst mikilvægasta vertíð norskra útgerða þegar þær sækja í þorskinn sem gengur að ströndum Noregs úr Barentshafi. Stendur vertíðin yfirleitt frá janúar til apríl og er því mikið undir fyrir þær útgerðir sem geta orðið fyrir truflunum vegna verkfallsins verði það langvarandi.
Leiði vetrarmæling Hafrannsóknastofnunar til þess að ráðgjöf um engar loðnuveiðar á Íslandsmiðum verði endurskoðuð getur verkfallið einnig haft áhrif á getu norskra útgerða til að sækja loðnu á Íslandsmið. Noregur hefur þó ekki líkt og Færeyjar og Grænland samþykkt nýjan strandríkjasamning um loðnu.
Heimildir Norðmanna til að veiða loðnu í íslenskri lögsögu eru fengnar í gegnum tvíhliða bókun Íslands og Noregs við rammasamning um verndun loðnustofnsins. Einnig fá þeir heimildir vegna Smugusamningsins, vegna stöðunnar sem strandríki gagnvart loðnustofninum (Jan Mayen) og vegna skipta á veiðiheimildum við önnur ríki.