Stálorka í Hafnarfirði hefur í tæp 40 ár sinnt smíðavinnu og viðgerðum á bátum fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og Gunnar Óli Sigurðsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda, segir í desemberblaði 200 mílna starfsemi fyrirtækisins hafa breyst mikið frá stofnun, það sinni nú mun fjölbreyttari verkefnum.
Spurður hver hafi verið helstu verkefni Stálorku á árinu segir hann að verkefnastaðan hafi verið mjög góð og fyrirtækið tekið fullt af bátum í slipp og reglubundið viðhald. En í desember sé iðulega frekar rólegt að gera.
„Nánast alla daga er bátur í slipp hjá okkur en þegar líða fer að jólum hægist á traffík báta til okkar. Vor, sumar og haustið er sá tími þegar bátar venja komur sínar til okkar til að fara í slipp eða hvers konar viðhald,“ segir Gunnar.
Stálorka flutti fyrir nokkrum árum í 2.000 fermetra húsnæði að Óseyrarbraut 29a í Hafnarfirði. Gunnar segir góða lofthæð í húsinu, stórar dyr og góða vinnuaðstöðu.
Aðsend/Stálorka
Aðspurður segir hann að verkefnastaðan hafi aldrei verið betri og það sé ekki síst að þakka vaxandi eldisiðnaði hér á landi.
„Verkefnin hafa aldrei verið meiri en núna og það hefur töluvert meiri aukning orðið á verkefnum í kringum fiskeldi. Til að mynda erum við byrjaðir að setja saman (sjóða) hitaveitulagnir úr plasti fyrir eldisiðnaðinn vestur á fjörðum. Erum með stórt verkefni á þessu ári fyrir landeldisfyrirtækið First Water í Þorlákshöfn, þar sem við smíðum ryðfría palla hjá þeim,“ segir Gunnar.
Viðtalið við Gunnar má lesa í desemberblaði 200 mílna.