„Það er von mín að fólk í landinu kynni sér þessi mál og láti ekki SFS klíkuna telja sér trú um að allt sé í lagi. Mín trú er að flest allir stofnar við landið séu ofveiddir og ef ekkert verður gert mun á endanum lítið annað enn minnisvarðar um vitleysuna standa eftir. Til dæmis frystihús Samherja á Dalvík verði fyrirtaks miðasöluskúr fyrir hvalaskoðun,“ segir Sæmundur Ólason.
Hann gerir miklar athugasemdir við þá sýn sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lýsti í pistli í síðustu viku. Þar ræddi hún meðal ananrs veiðigjöld og strandveiðar og er óhætt að segja að pistillinn hafi vakið mikil viðbrögð.
Sæmundur gerir athugasemdir við fullyrðingar um sjálfbærni aflamarkskerfisins.
„Undanfarinn fjörutíu ár höfum við Íslendingar stýrt veiðum við landið með aflamarkskerfi. Fórnarkostnaður þess hefur verið mikill og í mörgum tilvikum óréttlætanlegur. Notkun kyrrstæðra veiðarfæra hefur minnkað á kostnað dreginna veiðarfæra. Það getur ekki talist jákvætt fyrir kolefnissporið þar sem dregin veiðarfæri nota mörgum sinnum meiri orku en kyrrstæð, það er óumdeilt.“
Hann setur einnig út á staðhæfingar um ótvíræðan árangur fiskveiðistjórnunarkerfisins og segir staða fiskistofna tala sínu máli. „Getur það talist almennt gott að ganga það nærri ákveðnum stofnum að veiðar hafa verið stöðvaðar eða eru bara sem meðafli annara veiða?“
Máli sínu til stuðnings bendir Sæmundur á stöðu humars, úthafskarfa, hörpuskel, rækju, skötusels, lúðu, hlýra, loðnu, skrápflúru og blálöngu. „Auk þessa eru fleiri tegundir þar sem úthlutað aflamark hefur ekki náðst árum saman, ufsi, skarkoli. Jafnframt er ólíklegt að makrílveiðar verði stundaðar af Íslendingum næstu árin allavega lítið innan landhelginnar. Ef þessi upptalning mín er dæmi um mikla sjálfbærni þá er jörðin flöt.“
Að mati Sæmundar er ekki hægt að ræða þessi mál við talsmenn SFS ef þeir finna ekkert að því sem þeirra félagsmenn stunda.
„Hvernig væri að opna á þann möguleika að sumt í þeirra gjörðum orki tvímælis til dæmis eins og að veiða loðnu með flotvörpu? Eða þá staðreynd að mikill hluti fiskjar sem verður á vegi botndreginna veiðarfæra lendir undir þeim og drepst. Rannsóknir sem hafa verið gerðar sína allt að 50% liggur eftir á botninum dauður. Reikna má með að SEXTÍU ÞÚSUND tonn af þorski drepist þannig á ári hverju, mætti gera ágætis strandveiði pott úr því magni.“
Hann fullyrðir að rannsókn Hafrannsóknastofnunar frá 2022 styðji við þessa fullyrðingu.
Víkur sæmundur næst máli sínu að veiðigjöldum og þeirri gagnrýni sem heyrst hefur á orðanotkunina „réttlát“ veiðigjöld. Hafði Heiðrún Lind meðal annars spurt Er þriðjungur af af-komu í fiskveiðum réttlát skattlagning eða vill ríkið meira og þá með öðrum og neikvæðari áhrifum? Er réttlátt að fórna blómlegri fjárfestingu í aukinni verðmætasköpun til að fá til skamms tíma hærra auðlindagjald
Sæmundur segir ekki flókið að skilja hugtakið réttlát gjöld. „Réttlátt gjald er það sem menn eru fúsir til að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Minni á að tvenn samtök í sjávarútvegi hafa gert ríkisvaldinu tilboð í tuttugu þúsund tonn af þorski og vilja greiða fimm sinnum hærra gjald en SFS greiddi á síðasta ári.“