Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Geo Salmo hf. vegna landeldi vestan við Þorlákshöfn. Leyfið heimilar 12.160 tonna hámarkslífmassa vegna seiða- og matfiskeldis á laxi, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Matvælastofnunar.
Í áliti Skipulagsstofnunar vegna áformaðs laxeldis er fyrst og fremst lýst áhyggjum af áhrifum landeldisstöðvarinnar á grunnvatn.
„Þar skiptir gríðarmiklu að fyrir allt samfélagið í Þorlákshöfn og nágrenni að aldrei komi til þess að aðgengi samfélagsins að fersku neysluvatni verði stefnt í tvísýnu. Skipulagsstofnun telur nokkra óvissu ríkja um áhrif starfseminnar á grunnvatn. En til að mæta þeirri óvissu þurfi að viðhafa mjög umfangsmikla vöktun og skipta uppbyggingu fyrirtækisins í áfanga þar sem áhrif hvers áfanga liggja fyrir áður en ráðist verður í þann næsta,“ segir í álitinu.
Sambærilegt var að finna í áliti stofnunarinnar vegna uppbyggingar Thors landeldi ehf. á sama svæði, en tillaga að rekstrarleyfi fyrir það félag var auglýst í desember síðastliðnum. Er í því tilfelli um að ræða leyfi með 13.150 tonna hámarkslífmassa.
Kallað eftir sameiginlegri vöktun
Fram kemur í áliti vegna áforma Geo Salmo hf. að Skipulagsstofnun telji nauðsynlegt að tekin verði upp sameiginleg vöktun allra fyrirtækja sem starfa á svæðinu vestan Þorlákshafnar.
„Æskilegt er að sú vöktun taki ekki eingöngu til grunnvatns heldur að lágmarki einnig til áhrifa fráveitu á strandsjó og þess lífríkis sem þrífst við ströndina. Þau fyrirtæki sem vinna grunnvatn og/eða eru með eigin fráveitu þurfa að taka þátt í slíku samstarfi. Skipulagsstofnun bendir á sambærilegt fyrirkomulag í kringum iðnaðarsvæðið á Grundartanga. Þar standa fyrirtækin að umfangsmikilli vöktun sem er framkvæmd af utanaðkomandi sérfræðingum samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun,“ segir í álitinu.
Magnús Tumi Guðmundsson prófessor hefur meðal annars vakið athygli á því að efla þurfi vöktun á áhrifum landeldis á grunnvatn.