Samtök portúgalskra þorskframleiðenda, Associação dos Industriais do Bacalhau (AIB), fordæma tollfrjálsan innflutning rússnesks þorsks í gegnum Noreg og harma þá markaðsskekkju sem það skapar. Í yfirlýsingu sem samtökin senda fjölmiðlum í dag kalla þau eftir því að tafarlaust verði gripið til aðgerða.
AIB telur brýnt að Evrópusambandið efli eftirlit og innleiði strangari reglur um þorsk sem unninn er í Noregi til að tryggja árangur þvingunaraðgerða sem Rússar sæta.
Jafnframt er biðlað til norskra stjórnvalda og þau beðin um að „taka stefnu sína til endurskoðunar og koma í veg fyrir að landvinnslur nýtast sem farvegur fyrir rússneskan þorsk inn á Evrópumarkað. Með því að leyfa tollfrjálsan innflutning og endurútflutning á þessum þorski er Noregur óbeint að auðvelda brot á refsiaðgerðum, hygla ákveðnum iðnrekendum og koma á ójafnvægi í viðskiptum við samstarfslönd sín.“
Norskir framleiðendur eru enn fremur hvattir til þess að „tryggja góða starfshætti með því að hafna þessum ósanngjörnu viðskiptaaðferðum og stuðla að auknu gagnsæi og jafnvægi á markaði.“
Portúgal er mikilvægur markaður fyrir íslenskar þorskafurðir, sérstaklega saltfisk.
Í yfirlýsingunni leggst AIB eindregið gegn því sem það kallar „siðlausum og ósanngjörnum“ samkeppnisaðferðum sem samtökin segja suma norska fiskframleiðendur beita. Bent er á að Noregur heimilar tollalausan innflutning á rússneskum þorski sem síðan er unninn þar í landi og að lokum seldur til Evrópu.
Á sama tíma þurfa portúgalskir og aðrir evrópskir fiskframleiðendur að fylgja þeim ströngu viðskiptaþvingunum sem settar hafa verið á Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Þrátt fyrir að kaup á rússnesku hráefni sé löglegt í Noregi, hefur þetta í för með sér að sumir norskir framleiðendur geta nálgast hráefni á undirverði og selt afurðir með miklum hagnaði í Evrópu – mögulega á hærra verði en eðlilega fengist fyrir rússneskan fisk. Þetta segir AIB skekkja samkeppnina á markaði, auk þess sem þetta skili líklega Rússlandi meiri útflutningstekjur en ella og stuðlar þannig að fjármögnun stríðsins í Úkraínu.
„Portúgölsk fyrirtæki, jafnan meðal helstu viðskiptavinum Noregs, neyðast til að keppa á ójöfnum forsendum, sem stofnar fjárfestingum, störfum og lífvænleika greinarinnar í hættu,“ segir í yfirlýsingunni.
Luisa Melo, framkvæmdastjóri AIB, segir ákvörðun um að lýsa yfir óánægju með starfsháttum Norðmanna ekki hafa verið léttvæg, enda hafa Norðmenn og Portúgalar viðskiptasögu sem spannar fleiri hundruð ár.
„Þetta snýst um að mótmæla siðleysi og ósanngjarnri samkeppni sem ákveðnir norskir framleiðendur stunda. […] Okkur ber að gera norsku ríkisstjórninni, evrópskum yfirvöldum og norskum þorskiðnaðarmönnum viðvart, kalla eftir brýnum aðgerðum,“ er haft eftir Melo.
Hún segist jafnframt telja fyrrnefnda starfshætti ekki endurspegla anda norsku þjóðarinnar eða norsku vinnslugreinarinnar, enda séu Norðmenn „þekktir fyrir skuldbindingu sína gagnvart siðferðilegum og viðskiptalegum gildum. Við viljum trúa því að skortur á sértækum refsiaðgerðum gegn rússneskum fiski og undanþágu frá tollum og sköttum hafi komið til af gáleysi norskra stjórnvalda og að gripið verði til aðgerða til að leiðrétta stöðuna eins fljótt og auðið er.“
Aðild að AIB eiga þrettán félög í Portúgal og standa þau fyrir 80% af vinnslu þorsks í landinu. Þetta eru þau Soguima, Rui Costa e Sousa & Irmão, Riberalves, Pascoal, Mar Lusitano, Manuel Marques, Lugrade, Grupeixe (dótturfélag Vinnslustöðvarinnar), Esbal, Constantinos, Companhia Nacional, Comércio Bacalhau, Caxamar og Altomar.