Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur ákveðið að fjárfesta í nýjum tækjum og búnaði frá fjórum fyrirtækjum fyrir 1.300 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu félagsins.
Undirritaðir hafa verið samningar við Scale AQ um kaup á nýjum fóðurpramma og ýmsum búnaði fyrir eldisstöðina í Hvannadal í Tálknafirð auk þess sem samningur hefur verið undirritaður við Fjord Maritime um kaup á rafgeymi fyrir prammann. Þá hefur einnig verið fest kaup á eldisbúnaði frá Morenot og Fiizk.
Fjárfestingarnar eru sagðar styðja við stefnu félagsins um aukið öryggi starfsfólks, betri dýravelferð og minna álags á umhverfið.
„Fóðurpramminn sem um ræðir er úr Aasgard línu Scale AQ og er sá fyrsti af þessari stærð sem félagið framleiðir. Hann getur tekið allt að 750 tonn af fóðri og getur fóðrað 8 kvíar samtímis. Pramminn er búinn allri nýjustu tækni til að stýra fóðrun og Fjord maritime mun setja í hann rafhlöður sem ljósavélar framleiða rafmagn inn á sem nýtt er til að keyra prammann. Með því að hafa rafhlöður minnkar keyrslutími ljósavélanna sem eykur endingu þeirra, dregur úr viðhaldi og eldsneytisnotkun um allt að 70%,“ sgeir í tilkynningunni.
Þá voru keypt níu 200 metra kvíar og kerfisfestingar fyrir eldisstöðina í Hvannadal í Tálknafirði. Þær koma einnig frá Scale AQ. Félagið hefur um nokkurt skeið haft þessa tegund af kvíum í notkun. „Með því að fara úr kvíum sem eru 160 metrar í ummál í 200 metra fær fiskurinn enn meira pláss sem er mikilvægt í þeim veðrum sem geta komið á Vestfjörðum.“
Af Morenot, dótturfélagi Hampiðjunnar, eru keyptir á fjórða tug HDPE netapokar sem er sagt mun sterkara efni en félagið hefur áður notað.
„Þessir netapokar eru úr efni sem ekki eru notaðar ásætuvarnir á og eru því enn umhverfisvænni en fyrri tegundir. Þeir þola enn meira álag en fyrri gerðir sem dregur úr líkum á stroki. Samhliða þessu er félagið í nánu samstarfi við Hampiðjuna á Ísafirði um viðhald á netapokum og öðrum búnaði félagsins. Hampiðjan hefur meðal annars á grundvelli þessa samnings stóreflt þjónustu sína í nýrri þjónustumiðstöð félagsins á Ísafirði á síðustu árum en þar starfa nú hátt í 30 manns.“
Fjörtíu lúsapils voru einnig keypt, en þessi segl draga úr ágengi í laxa- og fiskilúsa með því að takmarka leið lúsalirfa í kvíarnar.
„Pilsin eru keypt frá Fiizk. Félagið hefur notað lúsapils með góðum árangri síðast liðin ár sem vörn við ágangi lúsar á laxinn í kvíunum en með þessu gengur fyrirtækið enn lengra í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn lúsinni en áður.“