Hvalveiðar er mikilvægur þáttur í vernd vistkerfisins og í takti við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þetta fullyrðir Marianne Sivertsen Næss sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norska ríkisstjórnin tilkynnti á vef norska stjórnarráðsins í gær að hrefnukvótinn yrði aukinn með 249 dýrum frá því á síðasta ári og verður því norskum hvalveiðimönnum heimilt að veiða samanlagt 1.406 hrefnur árið 2025.
„Hvalveiðar Norðmanna eru sjálfbærar, bundnar ströngu regluverki og hrefnustofninn er í mjög góðu ástandi. Noregur notar hagkvæmar og dýravelferðarvænar veiðiaðferðir, og afrán hvala hefur áhrif á vistkerfið. Hvalveiðar stuðlar því að auknu jafnvægi í hafinu. Til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verðum við líka að borða meira af sjávarfangi, en hvalveiðar veita holla fæðu sem fengin úr nærumhverfi neytenda,“ segir Sivertsen Næss í tilkynningunni.
Norsk yfirvöld hafa ákveðið að heimilt verði að veiða 1.406 hrefnur í ár.
Ljósmynd/Havforskningsinstituttet: Kathrine Ryeng
Fleiri en hundrað þúsund hrefnur
Í tilkynningunni er vakin er athygli á að það séu fleiri en hundrað þúsund hrefnur á Norður-Atlantshafi. Hrefnukvótinn var 1.157 dýr á síðasta ári en eykst í 1.406 dýr vegna ónýtts kvóta á síðasta ári.
Á árinu 2024 tóku 11 sjóför þátt í hrefnuveiðum Norðmanna sem eru fleiri skip en árið 2023, en aðeins var 415 dýrum landað sem er þó nokkuð minni afli en árið á undan.
Hrefnukvótinn er ákveðinn á grundvelli reiknilíkans frá vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) sem norsk stjórnvöld segja tryggja sjálfbæra nýtingu hrefnustofnsins.