Stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum ógni forsendum langtímakjarasamninga við sjómenn og landverkafólk.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar SFS þar sem hún lýsir áhyggjum af rekstrarskilyrðum greinarinnar og telur að vegið sé að samkeppnishæfni hennar.
„Þrátt fyrir áherslu í orði á aukna verðmætasköpun lykilatvinnuvega í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar virðast fáar aðgerðir eða hugmyndir liggja þar að baki. Með því að vega að samkeppnishæfni atvinnugreinar sem leggur þung lóð á vogarskálar hagvaxtar og góðra lífskjara hér á landi er leiðin vörðuð að minni ávinningi samfélagsins af nýtingu sjávarauðlindarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.
Kostnaði ekki velt út í verð
Lýsir stjórnin sem fyrr segir áhyggjum af rekstrarskilyrðum í sjávarútvegi sem og „fyrirætlunum stjórnvalda um verulegar breytingar er lúta að atvinnugreininni. Aukning strandveiða, hækkun veiðigjalds, hækkun kolefnisgjalds og frekari takmarkanir á eignarhaldi þyngja verulega róðurinn. Sjávarútvegur keppir á útivelli í erfiðri alþjóðlegri samkeppni, við ríkisstyrktan sjávarútveg annarra þjóða, og hefur þar enga stöðu til þess að velta kostnaðarhækkunum heima fyrir út í verð afurða. Fram hjá þessari stöðu má ekki horfa.“
Þá er sagt „umhugsunarefni að langtímakjarasamningar hafa verið gerðir við bæði sjómenn og landverkafólk, í krafti þess að aukin verðmætasköpun og framleiðni geti staðið undir skuldbindingum samninganna. Þær forsendur kunna að bresta ef kynntar fyrirætlanir ríkisstjórnar ganga eftir.“