Arnarlax tilkynnti Matvælastofnun 20. Mars síðastliðinn um gat á nótarpoka í einni sjókví félagsins við Vatneyri í Patreksfirði þar sem voru um 117 þúsund laxar. Rannsakar nú Matvælastofnun hvort laxar hafa strokið úr kví Arnarlax í Patreksfirði og hvort félagið hafi virkjað og farið eftir eigin verklagsreglum og viðbragðsáætlunum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Matvælastofnunar.
Þar segir að gatið uppgötvaðist við reglubundið neðansjávareftirlit og var viðgerð lokið samdægurs. Samkvæmt upplýsingum frá Arnarlaxi var gatið 50 sinnum 25 sentímetrar á um 20 metra dýpi. Í kvínni voru 117.133 laxar og meðalþyngd þeirra um þrjú kíló.
Kafað í allar kvíar
Greint er frá því að neðansjávareftirlit var síðast framkvæmt 23. febrúar og var nótarpoki þá heill.
„Matvælastofnun fyrirskipaði að kafað yrði í allar eldiskvíar á eldissvæðinu til að ganga úr skugga um að sambærileg göt væru ekki til staðar á öðrum eldiskvíum. Auk þess fyrirskipaði stofnunin að kafað yrði undir þessa tilteknu eldiskví í leit að mögulegum stroklax. Lögð voru út net í grennd við eldiskví í samráði við Fiskistofu til að fanga mögulegan stroklax. Enginn lax veiddist í net eða sáust við köfun undir kví,“ segir í tilkynningunni.
Þegar rannsókn lýkur á atburðinum verður gefin út eftirlitsskýrsla um rannsóknina og hún birt á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar.
Í ágúst 2023 sluppu um 3.500 laxar úr sjókví Arctic Fish í Patreksfirði. Í byrjun árs felldi lögreglustjórinn á Vestfjörðum niður rannsókn á því máli í annað sinn.