Draumur hvers einasta manns

Hversu mikið er hægt að spilla fólki með gæðum? Þannig spurn­ing verður áleit­in þegar það býðst að taka nýja kyn­slóð Porsche 911 Car­rera 4S út. Ekki skaðar það held­ur að vett­vang­ur­inn til slíks skuli vera í hjarta vín­rækt­ar í Aust­ur­ríki, í ná­grenni Graz.

Rétt er þá að klípa sig stöku sinn­um til að minna á að ekki er um draum­far­ir að ræða. Sagt er að bíla­áhuga­menn skipt­ist í tvo flokka, þá sem dýrka Porsche-bíla og þá sem dýrka aðra bíla. Það sem flest­ir sem fylla seinni flokk­inn eiga þó sam­eig­in­legt er lík­lega að hafa ekki prófað að aka Porsche-bíl. Það þarf hver maður að gera til að sann­fær­ast en það er líka svo of­urauðvelt. Grein­ar­rit­ari til­heyr­ir fyrri flokkn­um og engu skipt­ir reynd­ar hvaða bíl­gerð frá fram­leiðand­an­um frá Stutt­g­art um ræðir. Fáar þeirra eru óprófaðar og fyr­ir vikið telst hann ger­spillt­ur og hel­sýkt­ur af Porsche-veirunni. Verri veiki er þó hægt að fá.

Með blæju eða ekki

„Hvaða lit má bjóða þér?“ Svona spurn­ing verður bara súr­realísk að morgni er horft er um hvít­vín­sekr­ur Styria-héraðsins í suðaust­ur­hluta Aust­ur­rík­is og aug­un­um gjóað að nokkr­um tug­um fjór­hjóla­drif­inna Porsche 911 Car­rera 4 bíla sem þar standa. Þar blas­ir við and­virði nokk­ur hundruð millj­óna króna í formi einna bestu bíla heims og til­hlökk­un­in byrj­ar að streyma um æðarn­ar eins og lax á leið upp lygna á. Valið stóð reynd­ar um það einnig hvort bíll­inn ætti að vera með blæju eða ekki, bein­skipt­ur eða með sjálf­skipt­ingu, eða S-út­færsla bíls­ins, eða ekki, en þar skipt­ir á milli 350 hestafla eða 400. „Jú, það mætti bjóða mér blæju­bíl með stærri vél­inni og sjálf­skipt­an í fyrstu.“ Sá bein­skipti var prófaður seinna og þá með minni vél­inni.

Öflug­ar vél­ar sem eyrna­kon­fekt

Vél­arn­ar í þess­um bíl­um eru ann­ars veg­ar 3,4 lítra og 350 hestafla og hins veg­ar 3,8 lítra og 400 hestafla bens­ín­vél­ar af boxer-gerð. Það þýðir að strokk­arn­ir liggja flat­ir eins og í Su­baru-bíl­um og það trygg­ir lægri þyngd­arpunkt í bíl­un­um, en einnig sér­stakt hljóð. Hljóðið sem frá þeim berst er lík­lega það næsta sem hægt er að kom­ast til himna­rík­is og önn­ur skyn­færi búa til óm und­ir frá Vín­ar­drengjakórn­um sem á ein­mitt svo vel við á þess­um slóðum. Með þess­um vél­um má kom­ast á hundrað kíló­metra ferð á 4,3 sek­únd­um, eða 4,9, eft­ir stærð vél­anna. Sá gjörn­ing­ur er með meiri skemmt­un­um og var ástundaður af bestu lyst. Við hann má nýta takka sem í bíln­um finnst og á stend­ur „Launch Control“. Ef á hann er þrýst má í senn stíga bens­ínið í botn og standa á brems­unni með hinum fæt­in­um, sleppa svo brems­unni og fara svo úr hálslið við átök­in sem við taka, en þetta þolir samt vél­búnaður­inn í bíln­um. Fleiri for­vitni­leg­um tökk­um má fikta í sér til skemmt­un­ar, t.d. Sport og Sport+, en þá harðnar fjöðrun­in og snún­ing­ur vél­ar í hverj­um gír fer hærra. Oft­ast er þó þægi­leg­ast að hafa bíl­inn í Normal-still­ingu og er hann nógu snarp­ur samt þannig. Margt annað er sér­stakt við akst­ur þessa bíls og gæti aðeins ein­kennt sport­bíl af grimm­ari gerðinni. Þegar á hon­um er rösk­lega tekið og hann sett­ur á gríðar­há­an snún­ing í lág­um gír og löpp­in svo skyndi­lega tek­in af bens­ín­gjöf­inni þá hang­ir hann í gírn­um og held­ur háa snún­ingn­um bara til þess eins að missa ekki afl þegar aft­ur mynd­ast aðstæður til að nýta það. Þessu er ekki fyr­ir að fara í venju­leg­um bíl­um en sýn­ir vel hvernig verk­fræðing­ar Porsche lesa í kaup­end­ur bíl­anna og eru með mikið sport­bíla­gen.

Fá­rán­lega lít­il eyðsla

Það er sann­ar­lega ótrú­legt að aka hinum nýja 911-bíl, hvað þá með fjór­hjóla­drifi, sem all­ir reynsluakst­urs­bíl­arn­ir voru með. Bíll­inn ligg­ur al­veg eins og klessa á veg­in­um og það þarf tals­vert þor að leggja svo mikið á hann í beygj­um að hann fari að missa grip. Það var þó einu sinni reynt þar sem bíll­inn hefði endað í marg­flötu grasi ef grip hefði skort, en þrátt fyr­ir að hafa skrikað lít­il­lega með til­hlýðileg­um hljóðum þá náði hann aft­ur gripi. Þar hjálpuðu vafa­laust hin ýmsu aðstoðar­kerfi sem í bíln­um eru. Þrátt fyr­ir allt það afl sem taka má úr þeim tveim­ur vél­um sem í boði eru er bíll­inn ótrú­lega spar­neyt­inn. Með stærri vél­inni og PDK-sjálf­skipt­ing­unni eyðir hann 9,1 lítra á hverja hundrað kíló­metra og með þeirri minni, 8,6 lítr­um. Þetta eru næst­um óhugs­andi töl­ur fyr­ir svo öfl­uga bíla og magnað hvað verk­fræðing­um Porsche hef­ur tek­ist í þróun sinni. Meng­un­in er aðeins 217 eða 203 g/​km.

Mjög auðveld­ur í akstri

Porsche 911 Car­rera 4 er bæði gerður til að geta farið ógn­ar­hratt í beygj­ur, stöðvað á mjög stuttri vega­lengd, en einnig til að geta farið hrika­lega hratt á góðum hraðakst­ur­s­veg­um. Hraðbraut­ir Aust­ur­rík­is slaga hátt í gæði þeirra þýsku og það eina sem kem­ur í veg fyr­ir að hægt sé að nota þær al­veg til fulls er sú staðreynd að þar er hvergi ótak­markaður hraði og við gróf­leg­um brot­um eru ógn­ar­sekt­ir og mynda­vél­ar víða sem góma þá sem það gera. Engu að síður var sums staðar ger­legt að láta bíl­inn sýna sín­ar sterk­ustu hliðar og eitt sinn sást tal­an 235 í sta­f­rænu mæla­borðinu. Marg­ir of­ur­sport­bíl­ar eru erfiðir í akstri og hrein­lega óþægi­leg­ir í venju­legri bæj­ar­ferð. Það á ekki við 911, hann er svo þægi­leg­ur í akstri að eng­inn þarf að ótt­ast það að setj­ast und­ir stýri og eins mjúk­ur og ökumaður still­ir hann.

Drauma­bíll­inn en kost­ar sitt

Inn­rétt­ing­in í 911 er – eins og reynd­ar í öll­um öðrum Porsche-bíl­um – hrika­lega vel frá geng­in og fal­leg. Þar gera fáir bet­ur en Porsche. Það er ekki mjög sjá­an­leg­ur mun­ur á venju­leg­um 911 Car­rera bíl og Car­rera 4, en þó er sá fjór­hjóla­drifni með 22 mm út­stæðari aft­ur­bretti hvor­um meg­in, enda eru dekk­in breiðari. Fjór­hjóla­drifið er nokkuð sér­stakt og dreif­ist aflið milli hjól­anna eft­ir und­ir­lagi og átök­um. Við bestu þurru aðstæður fara ekki nema 5% afls­ins til fram­hjól­anna, en ef gefið er í eða und­ir­lag blotn­ar eða verður hált breyt­ist það hratt og get­ur orðið 40%. Það er mjög auðvelt að segja góða hluti um þenn­an bíl en ef segja á eitt­hvað nei­kvætt væri það helst að aft­ur­sæt­in eru of þröng fyr­ir full­orðið fólk, far­ang­urs­rýmið er mjög lítið og tek­ur ekki einu sinni full­vaxið golf­sett og það þarf að eiga slatta af seðlum til að kaupa sér einn. En ef ég ætti þá, þá væri þetta bíll­inn sem stæði fyr­ir utan húsið mitt.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bílar »