Hversu mikið er hægt að spilla fólki með gæðum? Þannig spurning verður áleitin þegar það býðst að taka nýja kynslóð Porsche 911 Carrera 4S út. Ekki skaðar það heldur að vettvangurinn til slíks skuli vera í hjarta vínræktar í Austurríki, í nágrenni Graz.
Rétt er þá að klípa sig stöku sinnum til að minna á að ekki er um draumfarir að ræða. Sagt er að bílaáhugamenn skiptist í tvo flokka, þá sem dýrka Porsche-bíla og þá sem dýrka aðra bíla. Það sem flestir sem fylla seinni flokkinn eiga þó sameiginlegt er líklega að hafa ekki prófað að aka Porsche-bíl. Það þarf hver maður að gera til að sannfærast en það er líka svo ofurauðvelt. Greinarritari tilheyrir fyrri flokknum og engu skiptir reyndar hvaða bílgerð frá framleiðandanum frá Stuttgart um ræðir. Fáar þeirra eru óprófaðar og fyrir vikið telst hann gerspilltur og helsýktur af Porsche-veirunni. Verri veiki er þó hægt að fá.
„Hvaða lit má bjóða þér?“ Svona spurning verður bara súrrealísk að morgni er horft er um hvítvínsekrur Styria-héraðsins í suðausturhluta Austurríkis og augunum gjóað að nokkrum tugum fjórhjóladrifinna Porsche 911 Carrera 4 bíla sem þar standa. Þar blasir við andvirði nokkur hundruð milljóna króna í formi einna bestu bíla heims og tilhlökkunin byrjar að streyma um æðarnar eins og lax á leið upp lygna á. Valið stóð reyndar um það einnig hvort bíllinn ætti að vera með blæju eða ekki, beinskiptur eða með sjálfskiptingu, eða S-útfærsla bílsins, eða ekki, en þar skiptir á milli 350 hestafla eða 400. „Jú, það mætti bjóða mér blæjubíl með stærri vélinni og sjálfskiptan í fyrstu.“ Sá beinskipti var prófaður seinna og þá með minni vélinni.
Vélarnar í þessum bílum eru annars vegar 3,4 lítra og 350 hestafla og hins vegar 3,8 lítra og 400 hestafla bensínvélar af boxer-gerð. Það þýðir að strokkarnir liggja flatir eins og í Subaru-bílum og það tryggir lægri þyngdarpunkt í bílunum, en einnig sérstakt hljóð. Hljóðið sem frá þeim berst er líklega það næsta sem hægt er að komast til himnaríkis og önnur skynfæri búa til óm undir frá Vínardrengjakórnum sem á einmitt svo vel við á þessum slóðum. Með þessum vélum má komast á hundrað kílómetra ferð á 4,3 sekúndum, eða 4,9, eftir stærð vélanna. Sá gjörningur er með meiri skemmtunum og var ástundaður af bestu lyst. Við hann má nýta takka sem í bílnum finnst og á stendur „Launch Control“. Ef á hann er þrýst má í senn stíga bensínið í botn og standa á bremsunni með hinum fætinum, sleppa svo bremsunni og fara svo úr hálslið við átökin sem við taka, en þetta þolir samt vélbúnaðurinn í bílnum. Fleiri forvitnilegum tökkum má fikta í sér til skemmtunar, t.d. Sport og Sport+, en þá harðnar fjöðrunin og snúningur vélar í hverjum gír fer hærra. Oftast er þó þægilegast að hafa bílinn í Normal-stillingu og er hann nógu snarpur samt þannig. Margt annað er sérstakt við akstur þessa bíls og gæti aðeins einkennt sportbíl af grimmari gerðinni. Þegar á honum er rösklega tekið og hann settur á gríðarháan snúning í lágum gír og löppin svo skyndilega tekin af bensíngjöfinni þá hangir hann í gírnum og heldur háa snúningnum bara til þess eins að missa ekki afl þegar aftur myndast aðstæður til að nýta það. Þessu er ekki fyrir að fara í venjulegum bílum en sýnir vel hvernig verkfræðingar Porsche lesa í kaupendur bílanna og eru með mikið sportbílagen.
Það er sannarlega ótrúlegt að aka hinum nýja 911-bíl, hvað þá með fjórhjóladrifi, sem allir reynsluakstursbílarnir voru með. Bíllinn liggur alveg eins og klessa á veginum og það þarf talsvert þor að leggja svo mikið á hann í beygjum að hann fari að missa grip. Það var þó einu sinni reynt þar sem bíllinn hefði endað í margflötu grasi ef grip hefði skort, en þrátt fyrir að hafa skrikað lítillega með tilhlýðilegum hljóðum þá náði hann aftur gripi. Þar hjálpuðu vafalaust hin ýmsu aðstoðarkerfi sem í bílnum eru. Þrátt fyrir allt það afl sem taka má úr þeim tveimur vélum sem í boði eru er bíllinn ótrúlega sparneytinn. Með stærri vélinni og PDK-sjálfskiptingunni eyðir hann 9,1 lítra á hverja hundrað kílómetra og með þeirri minni, 8,6 lítrum. Þetta eru næstum óhugsandi tölur fyrir svo öfluga bíla og magnað hvað verkfræðingum Porsche hefur tekist í þróun sinni. Mengunin er aðeins 217 eða 203 g/km.
Porsche 911 Carrera 4 er bæði gerður til að geta farið ógnarhratt í beygjur, stöðvað á mjög stuttri vegalengd, en einnig til að geta farið hrikalega hratt á góðum hraðakstursvegum. Hraðbrautir Austurríkis slaga hátt í gæði þeirra þýsku og það eina sem kemur í veg fyrir að hægt sé að nota þær alveg til fulls er sú staðreynd að þar er hvergi ótakmarkaður hraði og við gróflegum brotum eru ógnarsektir og myndavélar víða sem góma þá sem það gera. Engu að síður var sums staðar gerlegt að láta bílinn sýna sínar sterkustu hliðar og eitt sinn sást talan 235 í stafrænu mælaborðinu. Margir ofursportbílar eru erfiðir í akstri og hreinlega óþægilegir í venjulegri bæjarferð. Það á ekki við 911, hann er svo þægilegur í akstri að enginn þarf að óttast það að setjast undir stýri og eins mjúkur og ökumaður stillir hann.
Innréttingin í 911 er – eins og reyndar í öllum öðrum Porsche-bílum – hrikalega vel frá gengin og falleg. Þar gera fáir betur en Porsche. Það er ekki mjög sjáanlegur munur á venjulegum 911 Carrera bíl og Carrera 4, en þó er sá fjórhjóladrifni með 22 mm útstæðari afturbretti hvorum megin, enda eru dekkin breiðari. Fjórhjóladrifið er nokkuð sérstakt og dreifist aflið milli hjólanna eftir undirlagi og átökum. Við bestu þurru aðstæður fara ekki nema 5% aflsins til framhjólanna, en ef gefið er í eða undirlag blotnar eða verður hált breytist það hratt og getur orðið 40%. Það er mjög auðvelt að segja góða hluti um þennan bíl en ef segja á eitthvað neikvætt væri það helst að aftursætin eru of þröng fyrir fullorðið fólk, farangursrýmið er mjög lítið og tekur ekki einu sinni fullvaxið golfsett og það þarf að eiga slatta af seðlum til að kaupa sér einn. En ef ég ætti þá, þá væri þetta bíllinn sem stæði fyrir utan húsið mitt.