Chevrolet Trax var frumsýndur hér á landi um miðjan síðasta mánuð og er ágætisviðbót við þann flota sem Chevrolet státar af á markaði.
Trax er stuttur fjórhjóladrifinn jepplingur sem ætti að vera fær í flest, bara ef undirlagið er ekki of hrossalegt. Hann er nefnilega nokkuð lágur miðað við jeppling og því er hann ekki endilega til þess fallinn að slæða torleiði.
Trax fæst í tveimur útfærslum: Beinskiptur og sjálfskiptur. Vélin er 1,7 l dísil í báðum og hefur maður úr 130 hestöflum að spila. Það tekst þokkalega að vinna úr þeim og er uppgefið tog 300 Nm við 2000 snúninga. Beinskipta útgáfan var prófuð og eins undarlega og það kann hljóma drepst auðveldlega á bílnum þegar skipt er í bakkgír og tekið af stað. Auk þess á hann það til að hökta hressilega ef skipt er úr fyrsta í annan gír á aðeins of lágum snúningi. Eftir sem áður koma stöðugt örvar í mælaborðinu sem benda upp og niður, eftir því hvort skipta á upp eða niður en það er ekki fyllilega í samræmi við tilfinningu bílstjórans. En stundum er betra að hlýða og gera eins og manni er skipað. Þessir hnökrar hverfa þó skjótt þegar maður venst skiptingunni. það kom skemmtilega á óvart hversu sparneytinn Trax er. Í blönduðum akstri eyddi hann að meðaltali 5,8 lítrum á hverja 100 kílómetra og það er sannarlega til bóta fyrir hvert heimili og jörðina sjálfa að geta dregið aðeins úr eldsneytiseyðslu.
Það fer nokkuð vel um ökumann í Trax og eru sætin ljómandi fín með góðum stuðningi við mjóbak. Farþegi í framsæti getur þó fátt gert til að koma sér fyrir því einungis er hægt að hækka og lækka sætisbakið en ekki er hægt að stilla hæð sætisins né heldur að stjórna stuðningi fyrir mjóbak. Það er því ljóst að betur fer um ökumanninn frammi í þessum bíl. Raunar má segja að best fari um ökumanninn þegar allt er tekið til skoðunar því farþegar aftur í mega ekki vera mjög litlir því þá sjá þeir varla út. Gluggarnir liggja það hátt að börn upp að sjö ára aldri mega sitja sátt og horfa á sætisbakið fyrir framan í stað þess að horfa út og það er ekki gott.
Afturrúðan er agnarsmá og því eins gott að hliðarspeglarnir séu góðir. Það eru þeir svo sannarlega og bakkmyndavél auðveldar bílstjóranum að átta sig á svæðinu aftan bílsins. Ætli konur hugsi ekki meira um hvort snyrtispegill sé frammi í bílnum. Og þá sérstaklega hversu stór hann er og hvort ljós sé við hann. Þetta er að sjálfsögðu ekki bráðnauðsynlegur búnaður en sannarlega aukaatriði sem sumir kunna vel að meta, eins og mjóbaksstuðninginn í sæti ökumannsins.
Töluvert veghljóð er inni í bílnum og vindgnauð töluvert þrátt fyrir nokkuð góðan dag í veðurfræðilegu tilliti. Í slíkum tilvikum, á grófu malbiki í jaðri höfuðborgarsvæðisins, getur maður freistast til að hækka hressilega í hljómflutningstækjum bílsins. Það er ráð sem óþolinmóðir grípa oft til þegar eitthvað amar að en sjaldnast felur það í sér lausn, t.d. ef hjólalega er að gefa sig. Í þessu tilviki náði tónlistin varla að yfirgnæfa gnauðið því hljómflutningstækin eru ekki sérlega góð. Auðvitað er fólk sjaldnast að kaupa ökutæki út af hljómflutningstækjunum sem því fylgja en það er iðulega ánægjuleg viðbót ef hljómurinn er góður. Tækin uppfylla helstu kröfur tæknivædds fólks því þar er blátannartenging fyrir farsíma, iPod-tengi auk tengis fyrir mp3 spilara þannig að ekki er yfir því að kvarta og auðvelt að tengja á allan hátt.
Dálítið króm og silfurlitað plast í innréttingunni gleður augað og er ekki annað hægt en segja að sjálf innréttingin sé stílhrein. Að utan er bíllinn dálítið kassalaga en þó rennilegur. Hann fæst því miður ekki með samlitum stuðurum sem myndu gera töluvert fyrir heildarútlitið. Bíllinn er á tiltölulega hagstæðu verði í samanburði við keppinautana. Verðið á beinskipta bílnum er 4.890.000 sem verður að teljast gott fyrir bíl í flokki jepplinga. Trax er ríkulega búinn og ekki boðið upp á aukahluti eins og sóllúgu eða leðuráklæði. Hann er bara nákvæmlega eins og hann er. Bakkmyndavélin er staðalbúnaður og sömuleiðis þjófavörnin, aksturstölvan og loftkælingin. Því er óhætt að segja að fólk fái nokkuð margt fyrir þann aur sem varið er í bílinn og því fýsilegur kostur fyrir þá sem láta veghljóðið ekki fara í sínar fínustu og gera ekki of miklar kröfur um hljómgæði.
malin@mbl.is