Sannkallað tækniundur frá Tesla

Tesla X virkar minni en hann í raun er en …
Tesla X virkar minni en hann í raun er en því ræður hversu straumlínulagaður hann er. Enginn jeppi hefur fyrr né síðar haft minni loftmótstöðu, eða 0,24. mbl.is/Golli

Því hefur verið haldið fram að erfitt sé að kalla fram hrifningu meðal fólks í dag, ekki síst þegar kemur að tækniframförum, enda séu þær orðnar svo margar og stórfenglegar að fólki finnist stórstígar framfarir orðnar hversdagslegar.

Endrum og eins tekst þó að hreyfa við fólki og það verður að viðurkennast að fáir eru jafn slyngir þegar kemur að því og Elon Musk og lærisveinar hans. Á það jafnt við um brjálæðislegar tilraunir með lendingarbúnað á geimflaugum og framleiðslu rafbíla sem fáir ef nokkrir standast snúning.

Og það kemst enginn hjá því að viðurkenna að það er mikil upplifun að setjast í fyrsta sinn undir stýri á jeppanum sem Musk og félagar hafa smíðað, Tesla X sem kom fyrst á göturnar í undir árslok 2015. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið betrumbætt bílinn og jafnt og þétt aukið drægni hans og kraft.

Hér á landi eru bílarnir orðnir sex, en það er fyrirtækið Úranus Ísland (rafbilainnflutningur.is) sem flytur þá inn frá Bandaríkjunum. Emil Kári Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að viðtökurnar hafi verið góðar.

„Flestir sem prófa þennan bíl kaupa hann. Margir eru vissulega búnir að kynna sér hann vel áður en þeir prufukeyra hann fyrst en upplifunin af því að setjast inn í hann og kynnast eiginleikum hans hefur mikil áhrif á fólk,“ segir hann.

Og það er í raun og veru allt gert til þess að koma ökumanni á óvart. Þannig hefst sýningin þegar gengið er í átt að bílnum, en skynjari sem tengir lykil bílsins og hurð ökumannsins saman tryggir að hurðin opnast upp á gátt í þann mund sem komið er að bílnum.

Það sem strax vekur eftirtekt þegar sest er inn í bílinn er hinn risastóri tölvuskjár fyrir miðju mælaborðsins, en þá hönnun þekkja þeir sem setið hafa um borð í fyrsta bílnum úr smiðju Musk, Tesla S. Virkar skjárinn sem stjórntæki að mestu af tæknibúnaði bílsins en þar er einnig hægt að vafra um netið eða fylgjast með stöðu og ferðalagi bílsins á korti í góðri upplausn.

Vængir fálkans

En þó að hin sjálfvirka hurð að bílstjórasætinu veki verðskuldaða eftirtekt eru það fyrst og fremst hurðirnar að aftursætum bílsins sem hreyfa við ímyndunarafli fólks. Þar er um að ræða hina svokölluðu fálkavængi, en hvor hurð er byggð upp á tveimur hjörum sem opnast nær beint upp í loftið og líkist bíllinn helst farartæki sem er við það að taka á loft, þegar hurðirnar eru opnar í fulla gátt. Hönnunin er hins vegar ekki aðeins brella til að fanga athygli fólks heldur tryggja þær einnig mikið pláss til að koma sér upp í bílinn, hvort sem stefnan er sett á fremri eða aftari sætaröðina. Það er nefnilega mögulegt að fá bílinn í fimm, sex eða sjö sæta útfærslu og var bíllinn sem blaðamaður prófaði einmitt búinn stærstu útfærslunni. Ekki verður sagt að plássið fyrir þá farþega sem kjósa öftustu röðina sé mikið en það má alltaf raða farþegum í bíla eftir stærð og sjaldnast eru þeir allir af sömu stærð og lögun. Meira en nægt pláss er fyrir þann sem ekur bílnum, farþega í framsæti og á fremri bekknum aftur í.

Ekki skemmir innanstokkurinn fyrir. Auk stóra skjásins sem áður var minnst á er í mælaborðinu framan við bílstjórann stór tölvuskjár sem upplýsir ökumann um helstu atriði varðandi hleðslustöðu rafhlöðunnar, orkunýtingu og hámarkshraða. Að öðru leyti er hönnun bílsins að innan fremur einföld og fáguð en LED-lýsing í hurðum og reyklituð viðarinnréttingin í bland við rúskinnsklæðningu í mælaborði undirstrikar þó lúxusinn sem bíllinn á að tryggja.

Sjálfstýring á fullri ferð

Þá er ekki komist hjá því að nefna rosalegan framglugga bílsins, sem nær vel upp á topp hans og aftur fyrir höfuð ökumanns. Tryggir hinn gríðarstóri gluggi gott útsýni fyrir farþega í framsætum og gerir þeim jafnvel kleift að fylgjast með norðurljósunum þegar þau dansa um himininn. Þá kann einhver að fjargviðrast yfir þeirri fullyrðingu blaðamannsins en staðreyndin er sú að bílstjóri Tesla X getur í mörgum tilvikum einbeitt sér að því sem ber fyrir augun ofan við bílinn, fremur en framan við hann. Því ræður sjálfstýring sem fyrirtækið hefur kynnt til sögunnar. Tækninýjung sem nokkrir bílaframleiðendur hafa kynnt til sögunnar en Tesla leggur höfuðáherslu á að betrumbæta og festa í sessi.

Í hugum margra eru sjálfakandi bílar fjarlægur veruleiki en það er hið minnsta hægt að fullyrða að einn slíkur renndi eftir stofnbrautum Reykjavíkur á þriðjudaginn síðasta. Í öllum Teslabílum sem framleiddir hafa verið frá því í október síðastliðnum er að finna sjálfstýringu. Gefi bíllinn til kynna við ökumann að hann treysti sér til að taka við stjórninni er hægt að draga eina stýrisstöngina tvisvar snögglega að sér og þá hefjast töfrabrögðin. Bíllinn skynjar veglínur, bíla í grennd, hraðahindranir og annað sem torveldað gæti för hans.

Ók sjálfur í gegnum Reykjavík

Þannig prófaði blaðamaður að láta bílinn um stjórnina frá því að komið er inn á Vesturlandsveg þar sem hann skerst við Suðurlandsveg og allt niður á Hringbraut. Fumlaust hafði ökutækið stjórnina, nema í þeim tilvikum þar sem stoppa þurfti á rauðu ljósi og enginn bíll var fyrir framan. Mun Tesla vera að vinna í þessu atriði og innan skamms er ætlunin að bíllinn ráði sjálfur við það verkefni eins og flest önnur. Slík er þróunin í þessari tækni að Tesla hefur lýst því yfir að bifreið frá fyrirtækinu muni keyra þvert yfir Bandaríkin, án aðkomu ökumanns, ekki fyrir lok áratugarins, heldur fyrir árslok 2017!

Enn í dag eru ökumenn stranglega hvattir til að fylgjast náið með hegðun bílsins og taka yfir stjórnina ef þurfa þykir. Hins vegar sýna tölur frá Tesla að 40% minni líkur eru á því að lenda í slysi ef bíllinn er látinn um aksturinn. Sjálfstýringin hentar best á stofnbrautum og þar sem vegmerkingar eru í góðu horfi. Ljóst er að þeir sem bera ábyrgð á viðhaldi og uppbyggingu vegakerfisins hér á landi þurfa hins vegar að spýta í lófana ef þessi tækni á að ryðja sér fullkomlega til rúms hér á landi.

Eins og í flugtaki

Bíllinn er knúinn áfram af tveimur rafmótorum sem leiða kraftinn út í fram- og afturdekk hans. Í þeirri útfærslu sem prófuð var, 90D, skila mótorarnir 532 hestöflum og þar sem engir gírar eru í bílnum skilar torkið sér beint út í hjólbúnaðinn án nokkurrar seinkunar eða hökts. Það er því engu líkara en verið sé að taka á loft á þotu þegar stigið er á „rafgjöfina“. 90D-bíllinn er enda aðeins 5 sekúndur í hundraðið. Telji maður það ekki nóg, sem verður að teljast hrein og klár heimtufrekja, er hægt að fá hina kynngimögnuðu P100D-útgáfu sem er aðeins 3,1 sekúndu upp í hundraðið.

Má kosta skildinginn

Teslurnar sem hingað til hafa verið framleiddar hafa ekki fengist frítt og langt frá því. Fyrirtækið er hins vegar að koma á markað með Tesla 3 sem verður á viðráðanlegu verði fyrir flesta. X-bíllinn er nokkrum flokkum fyrir ofan þau mörk. Þannig kostar bíllinn í grunnútgáfu 14,4 milljónir króna og er þá í svokallaðri 75D-útgáfu. Er hann nokkuð aflminni en bíllinn sem var prófaður og er 6,2 sekúndur í hundraðið. Bíllinn sem var prófaður kostar um það bil 18,9 milljónir og er þá afar vel búinn en séu dýrari týpurnar, P90D eða P100D teknar með öllum búnaði má hæglega strauja kortið fyrir 22 til 27 milljónir króna.

Bíllinn er því ekki gefins en verðið er á pari við ýmsar útgáfur af Range Rover, Toyota Land Cruiser 200 og G-línuna frá Mercedes Benz. Allir hafa þessir bílar eitthvað einstakt fram að færa en það er að minnsta kosti hægt að fullyrða að það er einstök upplifun að ferðast um á rafmagni sem hlaðið hefur verið á tankana á Tesla X.

Svartar og stórar felgurnar gefa bílnum sportlegt yfirbragð. Vindskeiðin aftan …
Svartar og stórar felgurnar gefa bílnum sportlegt yfirbragð. Vindskeiðin aftan á bílnum er ekki aðeins til að gefa honum hraustlegt yfirbragð heldur dregur hún úr vindmótstöðu og eykur um leið drægni bílsins sem er í raun um 400 km. mbl.is/Golli
Þótt einhverjum kunni þykja það draga úr spennunni við bílinn …
Þótt einhverjum kunni þykja það draga úr spennunni við bílinn er engin vél undir húddi hans sem minnir á Porsche 911. Munurinn er hins vegar sá að engin er hún heldur í skottinu. mbl.is/Golli
Fálkavængirnir vekja óskipta athygli hvar sem afturhurðum bílsins er lyft, …
Fálkavængirnir vekja óskipta athygli hvar sem afturhurðum bílsins er lyft, en hægt er að opna þær þar sem þröngt er um bílinn. Þurfa þær aðeins um 30 sentímetra út frá bílnum til að geta lyftst. mbl.is/Golli
Risastór LCD-skjárinn mitt á milli framsætanna verður í framtíðinni mikilvægasta …
Risastór LCD-skjárinn mitt á milli framsætanna verður í framtíðinni mikilvægasta stjórntæki bílstjórans en þangað er einnig hægt að sækja upplýsingar um nær allt sem viðkemur stjórn- og tæknibúnaði bílsins og ferðum hans. mbl.is/Golli
Betra er að vera nokkuð nettur ef maður ætlar að …
Betra er að vera nokkuð nettur ef maður ætlar að sitja í öftustu sætisröðinni en þar eru snotrir glasahaldarar milli sætanna sem ættu að gera vistina þægilegri. mbl.is/Golli
Vel fer um þá sem í framsætum Tesla S sitja.
Vel fer um þá sem í framsætum Tesla S sitja. mbl.is/Golli
Vængjahurðirnar tryggja gott aðgengi að aftursætum. Fremri sætin eru rafstýrð …
Vængjahurðirnar tryggja gott aðgengi að aftursætum. Fremri sætin eru rafstýrð og sé þeim ýtt fram á við myndast pláss til að stíga í öftustu tveggja sæta röðina. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: