Engar málamiðlanir

Viðbrögðin létu ekki á sér standa þegar ég stalst til að setja mynd af Bufori Geneva á Facebook-síðuna mína í síðustu viku. Sumum þótti bíllinn ferlega ljótur, en öðrum fannst hann hrikalega flottur.

Er þetta Bentley? Er þetta Rolls-Royce? Tilheyrir bíllinn kannski mafíósa í teiknimyndasögu? „Hvað í andskotanum er þetta?“ spurði einn reyndasti bílablaðamaður Íslands.

Fyrir mánuði hafði ég reyndar ekki heldur hugmynd um að í Malasíu væri starfandi fyrirtæki sem handsmíðar rándýrar drossíur sem líta út eins og þær hafi verið hannaðar á 4. áratugnum. Tilviljun réði því að ég átti erindi til Kuala Lumpur og í aðdraganda ferðarinnar afréð ég að grennslast fyrir um hvort þar væru framleiddir spennandi bílar sem ég gæti fengið að prufukeyra. Ég rambaði niður á heimasíðu Bufori og vissi ekki hvað ég átti að halda, enda bílarnir engu öðru líkir. Bufori-menn voru þó meira en tilbúnir að taka vel á móti mér, sýna mér verksmiðjuna og skjótast í stuttan bíltúr á glæsikerru sem væri á leið til kaupanda í Mið-Austurlöndum.

Húsnæði Bufori lætur ekki mikið yfir sér, í iðnaðarhverfi í útjaðri Kuala Lumpur og aðkoman aldeilis ekki eins og hjá Rolls-Royce í Goodwood eða Lamborghini í Sant'Agata Bolognese. Sýningarsalurinn er svo smár að hann rétt rúmar einn bíl, og verksmiðjugólfið er ekki jafnhreint og glansandi og skurðstofa líkt og hjá þýsku verksmiðjunum. En í þessu fábrotna húsi verða til eðalvagnar sem standa hnarreistir á verksmiðjugólfinu, mislangt komnir í smíðum. Bufori framleiðir innan við 30 bíla á ári, og eftirspurnin svo mikil að stofnandi fyrirtækisins og forstjóri hefur ekki enn getað látið það eftir sér að halda einum af nýjustu bílunum fyrir sjálfan sig.

Stórhuga trésmiður

En sagan hefst í Ástralíu um miðjan 9. áratuginn þegar Gerry Khouri, fékk þá flugu í höfðuðið að smíða bíl frá grunni. Í spjalli sem við áttum yfir hádegismat á kínverskum veitingastað sagði hann hugmyndina hafa kviknað upp úr rifrildi um hvort það væri enn hægt að smíða bíla eins og þeir voru gerðir á millistríðsárunum. Á endanum hafði Gerry, sem er trésmiður að mennt, smíðað þrjá tveggja sæta blæjubíla fyrir sig og bræður sína tvo. Þessir fyrstu Bufori-bílar, sem fengu nafnið Madison, vöktu mikla athygli og tóku bræðurnir upp á því að leigja þá út. Fólkið sem leigði bílana var svo hrifið að það bað Gerry og bræður hans að smíða fleiri, og þannig fór bílaframleiðslan vaxandi jafnt og þétt.

Fyrirtækið flutti til Malasíu snemma á 10. áratugnum. Bar það þannig til að þáverandi forsætisráðherra landsins hafði séð Bufori á bílasýningu, vildi ólmur fá framleiðsluna til sín og lofaði fyrirtækinu ýmsum fríðindum. Á þessum tíma lét Malasía mjög að sér kveða í bílaheiminum og var t.d. Lamborghini í eigu malasískra og indónesískra aðila. Eftir flutninginn frá Ástralíu reyndust fríðindin ekki alveg eins og lofað hafði verið, en Gerry kveðst samt ánægður með að vera með reksturinn í Malasíu og vill hvergi annars staðar vera.

Vindlabox, vatnskælir, teketill

Starfsmennirnir lýsa Gerry sem manni með fullkomnunaráráttu, og sést það í bílunum sem hann hannar. Nostrað er við hvert smáatriði og hvergi gefinn afsláttur af gæðum eða frágangi. Fimir handverksmenn sjóða saman grindina og steypa ytra byrðið úr rándýrri blöndu af kevlar og koltrefjum. Að innan eru bílarnir klæddir leðri hátt og lágt, og hlaðnir öllum þeim tæknibúnaði sem þarf til að vera þægilegri í akstri. Fullkomnunaráráttan sést m.a. í verkfæraboxunum sem fylgja hverjum bíl, en þar er búið að skera út pláss fyrir hverja töng og skiptilykil og vo að verkfærasafnið lítur óaðfinnanlega út.

Allt má laga að óskum kaupandans, og hreykir Bufori sér m.a. af því að geta komið fyrir alls konar aukabúnaði í farþegarýminu. Þannig má t.d. fá vatnskæli á milli farþegasætanna í Geneva, vindlabox eða leynihólf fyrir hluti sem eigandinn vill ekki að allir sjái. Einn kaupandinn, vellauðugur áhugamaður um te, fékk sér bíl með innbyggðum tekatli.

Bufori smíðar tvær gerðir af bílum í dag: Geneva er fjögurra sæta eðalvagn sem hefur verið framleiddur frá 2010 og La Joya er tveggja sæta GT-bíll sem hefur verið í boði frá 2004. Bráðum renna síðustu La Joya-bílarnir af framleiðslulínunni og þá hefst smíði á nýjum sportbíl, Bufori CS, sem hefur verið í þróun frá 2009. Ólíkt Geneva og La Joya mun CS hafa nútímalegt útlit og byggist hann á Bufori BMS R1 sportbílnum sem tók þátt í Macau Grand Prix kappakstrinum árið 2009. Í verksmiðjunni mátti líta tvö hugmyndaeintök af CS og stefnir í að bíllinn verði bæði fallegur og kröftugur. CS ætti að vera tilbúinn í endanlegri mynd um mitt næsta ár og hefði útsendari Morgunblaðsins gaman af að gera sér aðra ferð til Kuala Lumpur til að prófa.

Blómi í eggi

Hvernig er svo að upplifa Bufori Geneva í eigin persónu? Reynsluaksturinn byrjaði í aftursætinu sem minnir einna helst á aftursætið í Bentley Mulsanne EWB sem reynsluekið var fyrr á árinu. Gamaldags útlit Geneva þýðir að farþegarýmið er þrengra en breidd bílsins gefur til kynna, en það er samt afskaplega notalegt að sitja í aftursætunum og yfir litlu að kvarta. Stöku smáatriði stinga í stúf, eins og plasttakkar sem stýra halla sætanna. Vitaskuld er kælir á milli sætanna og skúffa fyrir vínglös, og merkilegt nokk, sérstakt hólf á besta stað fyrir pappírsþurrkur. Geneva fær prik í kladdann fyrir alvöru rafmagnsinnstungu fyrir bæði aftursætin, svo að hlaða má fartölvuna á ferðinni.

Þegar sest er undir stýri er ekkert sem truflar. Þó að Geneva sé mjög langur bíll þá virkar hann ósköp viðráðanlegur. Stýrið hefur þægilegan stífleika, og mjög fallegt hljóð berst úr vélinni þegar bensíngjöfinni er ýtt alla leið ofan í kafloðið gólfteppið. Annars er farþegarýmið hljóðlátt og hljóðkerfið prýðilegt þó að það virðist hafa verið stillt meira með eyru farþega en ökumanns í huga.

Er óhætt að segja að Geneva hafi komið skemmtilega á óvart. Bíllinn er fallegri í eigin persónu en á myndum, og hefur þennan „gegnheila“ eiginleika sem glæsibifreiðar eiga að búa yfir.

Fyrir þá sem eiga þegar nokkra eðalvagna

Þegar hér er komið sögu eru lesendur kannski farnir að halda að hægt sé að gera kostakaup í Geneva, enda getur varla verið svo dýrt að handsmíða bíl í láglaunalandinu Malasíu – eða hvað? Raunin er að þegar um er að ræða jafn sérhæfða framleiðslu og smíði lúxusbíla þá verður vinnuaflið dýrt, og gæðin kosta sitt. Grunnverð Geneva er því 365.000 dalir, sem er meira en grunnverðið á nýja Bentley Mulsanne og ekki mikið ódýrara en nýi Rolls-Royce Phantom. Gaman er að nefna að bílar Bufori halda verði sínu vel og virðast hækka í verði með aldrinum. Sömu sögu er ekki hægt að segja um bresku eðalvagnana.

Þrátt fyrir allan þann sjarma sem Geneva býr yfir myndi ég samt liklega fyrr fá mér Mulsanne eða Phantom. En það er einmitt þar sem kemur í ljós hver kaupendahópurinn er: fólk sem þegar á ágætis flota af eðalvögnum og langar í eitthvað alveg sérstakt í bílskúrinn. Bufori selst t.d. vel í Mið-Austurlöndum, þar sem Bentley Continental er jafn algengur á götunum og Toyota Corolla er í Reykjavík. Því hvað gerirðu til að skera þig úr hópnum þegar nágrannarnir aka um á ítölskum ofursportbílum og konunglegum breskum glæsikerrum? – Jú, þú færð þér Bufori og ekur glottandi af stað á meðan fólkið í götunni klórar sér í höfðinu og segir: „Hvað í andskotanum er þetta?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka