„Gerðu það sem þú ætlar þér að gera“

Eftir mikla leit var varla hægt að finna annan veikleika …
Eftir mikla leit var varla hægt að finna annan veikleika á nýja Renault Captur en þann að lykillinn mætti vera ögn þyngri í hendi. mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Ótrúlegustu hlutir geta fengið mann til að kolfalla fyrir bíl. Það er auðvelt að láta hrífast af háværri og kröftugri vél, eða framúrstefnulegu útliti, og stundum er það tæknin og íburðurinn sem heillar.

Í tilviki nýja Renault Captur var það agnarlítill ferhyrndur vasi á milli framsætanna. Hvað er svona merkilegt við þennan ferhyrnda vasa? Jú, hann er af hárréttri stærð fyrir ferhyrndan lykilinn.

Þegar bílahönnuðir muna eftir svona smáatriðum þá boðar það gott fyrir restina.

Leiðin lá til Aþenu fyrr í vetur að kynnast glænýjum Captur; bíl sem þegar hann kom fyrst á markað deildi stærðarflokki með aðeins einum bíl; Nissan Juke. Síðan þá hafa aðrir bílaframleiðendur hrúgast inn í þennan stærðarflokk sem kalla mætti smájepplinga-flokkinn og hafa kaupendur um u.þ.b. 20 ólíkar bíltegundir að velja ef þeir vilja bíl sem er þægilega smár fyrir þrengslin í borgum, en á sama tíma hæfilega rúmgóður til að mæta öllum þörfum vísitölufjölskyldunnar, með það mikla veghæð að ekkert mál er að ráðast til atlögu við holótta malarvegi. Ekki skrítið að Captur skuli hafa hæft marga Íslendinga í hjartastað, því þegar kemur að íslenskum aðstæðum hakar hann í öll boxin og er nokkuð huggulegur í ofanálag.

Mikill íburður miðað við verðflokkinn

Heilt á litið er ekki annað að sjá en að hönnun annarar kynslóðar Captur hafi heppnast afskaplega vel. Eins og vill yfirleitt gerast með hverri nýrri kynslóð er búið að lengja og víkka Capturinn lítillega svo hann virkar stæðilegri og vígalegri á veginum; línurnar orðnar ögn sportlegri og eins og bíllinn hnykli vöðvana á alveg hárréttum stöðum. Er erfitt að finna nokkurn veikan flöt á útlitinu að utan, og sömu sögu að segja um farþegarýmið. Gaman er að sjá hvernig Renault ákvað að gera umhverfi ökumanns og farþega íburðarmeira, án þess samt að hafa það alveg yfirdrifið. Þannig eru allir yfirborðsfletir í mælaborði og hurðum mjúkir viðkomu, eins og í lúxusbílum – ekkert hart og kalt plast hér. Sætin eru lágstemmd en tignarleg og allt snyrtilegt að sjá: hvorki of mikið né of lítið af tökkum og upplýsingaskjárinn í miðjunni stór en samt ekki fyrir neinum.

Og alls staðar má finna úthugsaða hönnun, eins og t.d. í skjánum sem hefur verið stillt upp á hæðina frekar en breiddina. Af hverju gera ekki fleiri framleiðendur þetta? Þegar maður pælir í því þá batnar jú upplýsingagjöf leiðsögukerfisins þegar kortið af veginum framundan birtist á hæðina. Alla jafna er ég hrifnari að því þegar upplýsingaskjáir eru felldir inn í mælaborðið, frekar en látnir líta út eins og þeir séu frístandandi (eins og hjá Mercedes-Benz og Aston Martin), en hjá Captur gengur hönnunin upp og skjárinn skapar góða þungamiðju í hönnuninni.

Svona má lengi telja og virðist t.d. hafa verið töluvert fyrir því haft að koma bassahátalara hljóðkerfisins þannig fyrir í afturhluta bílsins að hann saxaði ekki mikið á farangursrýmið. Í skottinu er pláss fyrir 536 lítra af farangurstöskum, innkaupapokum eða heimilishundum – mesta rýmið í stærðarflokknum, segir Renault. Þarf að fá frið fyrir börnunum í aftursætinu? Auðvitað er Renault þá búið að hugsa fyrir því að þau geti stungið snjalltækjunum í hleðslu, með tvær USB-innstungur á áberandi og aðgengilegum stað.

Kaupandinn getur síðan lagað bílinn að eigin smekk; ellefu litir eru í boði auk fjögurra lita fyrir þakið svo að allt talið mætti útfæra litasamsetningarnar á 90 mismunandi vegu. Að innan eru samtals 18 samsetningar í boði og ef það er ekki nóg má fá stemnings-lýsingu með 8 litum. Þeir sem panta sér Captur þurfa því ekki að hafa miklar áhyggjur af því að fara bílavillt á planinu við Smáralind.

Captur þarf ekki að skammast sín fyrir nokkurn hlut

Ég verð að játa að ég hef gert allt of lítið af því að aka bílum í sama flokki og Captur og var árið 2019 ár kappakstursbíla, stórra þýskra dreka og lúxusbifreiða á efstastigi. Á undan Captur kom Rolls-Royce Cullinan, þá BMW M850i blæjubíll, Porsche Taycan rafmagns-sportbíll, Rolls-Royce Phantom og kappakstursbrautarleikfangið Radical. Í vélinni á leiðinni til Aþenu hugsaði ég með mér að það hlyti að vera hálfósanngjarnt fyrir fjöldaframleiddan franskan alþýðubíl að fylgja í kjölfarið á annarri eins halarófu af bílum, því það gæti ekki annað verið en að haf og himinn væri á milli 100 milljóna króna lúxuskerru og fransks smájepplings sem byrjar í tæpum 3,4 milljónum.

En viti menn: Capturinn þarf ekki að skammast sín fyrir nokkurn hlut. Viðbragðið er prýðilegt, akstursupplifunin hreint ágæt, og í alla staði fjarskagóður bíll fyrir bæði ökumann og farþega. Fantafínn franskur ferðafélagi.

Það segir heilmikið um hvað Captur hefur fram að færa að ég átti í mesta vanda með að finna eitthvað í fari hans til að láta fara í taugarnar á mér. Eftir mikla leit, bæði að innan sem utan, var það eina sem ég gat kvartað yfir að lykillinn mætti vera þyngri. „C'est rien!“ eins og Frakkarnir myndu orða það.

Ef það versta sem hægt er að segja um bíl er að lykillinn er laufléttur, þá ættu hönnuðir Renault að vera nokkuð öruggir með það að halda starfi.

Heilræði véfréttarinnar

Á spani um gríska sveitavegi, innan um musteri og minjar, leitaði hugurinn til sagnfræðitímanna í menntaskóla, og grísku heimspekinganna sem reikuðu um þessar sömu sveitir fyrir um 2.500 árum. Ég minntist vísdómsorðanna sem rituð voru á veggi musteris véfréttarinnar í Delfí, og áttu að vera góðu fólki leiðarvísir fyrir lífið. Nýlega hringdi ég til gamans ég í fornmáladeild Háskóla Íslands til að athuga hvort vísdómsorðin hefðu ekki örugglega verið þýdd á íslensku – eitthvað sem Bjarni Thorarensen hefði rúllað upp á einni kvöldstund. Viti menn að vísdómsorðin virðast ekki hafa verið þýdd og gæti það útskýrt ýmislegt í fari Íslendinga.

Flestir hafa heyrt, einhvern tímann á lífsleiðinni, um mikilvægi þess að þekkja sjálfan sig, en færri kannast við að hafa verið minntir á hve brýnt það er að heiðra heimilið, vera vinum sínum hjálpsamur, lofa það sem gott er, vera réttlátur í athöfnum sínum, og virða góða menn. Ef fornleifafræðingar myndu grafa sig niður á grískt musteri inni í miðri Öskjuhlið þá myndu þeir í besta falli finna þar eftirfarandi áletranir: Þetta reddast og Liffa og njóta.

Alltént, þá virðast hönnuðir Renault Captur hafa tileinkað sér heilræði véfréttarinnar: Notaðu það sem þú hefur, nýttu hæfileika þína, virtu sjálfan þig, hlýddu á það sem allir hafa að segja, gerðu það sem þú ætlar þér að gera.

Útkoman er þessi afskaplega vel heppnaði bíll. Hann er meira að segja væntanlegur í tengiltvinn-útgáfu.

Hæðin, stærðin og verðið fellur vel að íslenskum aðstæðum. Fjölmargar …
Hæðin, stærðin og verðið fellur vel að íslenskum aðstæðum. Fjölmargar spennandi litasamsetningar eru í boði.
Baksvipurinn er sterkur en samt ekki farið út í neinar …
Baksvipurinn er sterkur en samt ekki farið út í neinar öfgar.
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl.
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl.
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl.
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl.
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl.
Ótal vel heppnuð smáatriði gera Renault Captur að huggulegum hversdagsbíl.
Stór skjárinn snýr lóðrétt en ekki lárétt, sem bætir upplýsingagjöf.
Stór skjárinn snýr lóðrétt en ekki lárétt, sem bætir upplýsingagjöf.
Skottið er nógu rúmgott og risastórt ef sætin eru felld …
Skottið er nógu rúmgott og risastórt ef sætin eru felld niður.
Umhverfi ökumanns er snyrtilegt og hæfilegt magn af tökkum. Lykilinn …
Umhverfi ökumanns er snyrtilegt og hæfilegt magn af tökkum. Lykilinn má geyma í litlu hólfi á milli framsætanna, þar sem hann smellpassar.
Umhverfi ökumanns er snyrtilegt og hæfilegt magn af tökkum. Lykilinn …
Umhverfi ökumanns er snyrtilegt og hæfilegt magn af tökkum. Lykilinn má geyma í litlu hólfi á milli framsætanna, þar sem hann smellpassar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: