Amerískur draumur í dós

Jeep Compass Trailhawk er traustvekjandi lúxusjepplingur sem er auk þess …
Jeep Compass Trailhawk er traustvekjandi lúxusjepplingur sem er auk þess sparneytinn og umhverfisvænn. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Það er eitthvað traustvekjandi við ameríska bíla. Mögulega hefur uppeldi mitt í Ameríku eitthvað haft að segja. Þar ólst blaðamaður upp við stóra og kraftmikla kagga sem vekja góðar minningar. Þetta voru auðvitað mengunarspúandi bensínhákar þess tíma en fáir hugsuðu um slík mál á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Svo var auðvitað alvöru hljóð í vélum þessara bíla sem flokkast í dag undir hljóðmengun.

Krafa um umhverfisvæna bíla

Eftir að hafa átt nokkra bíla úr ýmsum áttum eignaðist ég nánast fyrir slysni Jeep Cherokee SRT, 420 hestöfl hvorki meira né minna. Hvorki fyrr né síðar hef ég keyrt annað eins tryllitæki. Bíllinn vakti mikla athygli alvöru bílaáhugamanna sem margir hverjir sneru sig úr hálsliðum þegar ég, miðaldra konan með hóflegan áhuga á bílum, ók framhjá. En ef einhvern tíma var gaman að kitla bensíngjöfina, þá var það í þessum bíl.

En allt tekur enda og bíllinn var seldur enda bensínkostnaður kominn upp úr öllu valdi og jeppinn alls ekki umhverfisvænn. Síðan eru liðin um sjö ár og mikið vatn runnið til sjávar hjá bílafyrirtækjum um allan heim. Í dag er hávær krafa um hljóðláta, sparneytna og umhverfisvæna bíla, sem er vel.

Mjúkur og hljóðlátur

Jeep svarar því kalli og býður upp á gömlu góðu bílana en í nýrri og breyttri mynd og sem uppfyllir kröfur almennings nefndar hér að ofan.

Undirrituð fékk að prufukeyra Jeep Compass Trailhawk tengiltvinn-jeppa og er hann draumur í dós. Í jákvæðri merkingu, því bíllinn er engin dós! Aftur fann ég fyrir þessari gömlu traustvekjandi tilfinningu úr amerísku barnæskunni þó þessi sé auðvitað hannaður fyrir fólk nútímans.

Bíllinn er afar hljóðlátur og mjúkur í akstri. Hann er ekkert tryllitæki á við minn gamla Jeep en hver þarf að komast í hundrað á 5,3 sekúndum? Afar fáir.

Jeep Compass Trailhawk er frábær jepplingur sem er ekki of stór í innanbæjarsnatt, ekki of lítill í utanbæjarakstur og þar sem hann er tengiltvinnbíll er hægt að halda bensínkostnaði niðri. Trailhawk er fjórhjóladrifinn og hægt að setja hann í lágt drif ef fara þarf yfir torfærur eða ár. Hægt er að stilla á snjó, mold, sand og sport og þegar sport-aksturshamur er valinn fær maður öll hestöflin með sér í lið. Bíllinn hleður sig einnig á keyrslu og þannig sparast rafmagnið svolítið, en hægt að komast yfir 600 kílómetra á fullum tanki og fullri hleðslu.

Rafknúinn afturhleri

Þessi jepplingur er sannkölluð lúxusbifreið sem virkar samt vel í torfærum. Það er hiti í sætum og stýri og afturhlerinn er rafknúinn, nokkuð sem húsmóðir með fullar hendur af Bónuspokum kann vel að meta. Einnig getur hann bakkað sjálfur inn í stæði fyrir þá sem eiga í vanda með slíkt.

Það er ljúft að keyra þennan bíl. Samviskan er líka í lagi því hann leggur sitt á vogarskálarnar með vistvænum akstri og ekki er verra að hafa aðeins meira á milli handanna með minni bensíneyðslu.

Jeep Compass Trailhawk tengiltvinn

» 1,3 l 4 strokka túrbó-bensínvél PHEV

» 240 hestöfl samtals (þar af 60 hö. frá rafmótor)

» 6 gíra sjálfskipting

» Eyðsla frá 2.0 l/100 km

» 0-100 km/klst. á 7,3 sek

» Hámarkshraði á rafmagni eingöngu 130 km/klst.

» Drægni yfir 600 km á bensíni og rafmagni

» Drif: 4x4

» Eigin þyngd: 1.770 kg

» Farangursrými: 420 lítrar

» Umboð: Ísband

» Verð: 6.499.000 kr eins og prófaður.

» Verð frá 5.999.000 kr. (Compass Limited)

Þessi jepplingur er smart og er þægilegur bæði í innanbæjar- …
Þessi jepplingur er smart og er þægilegur bæði í innanbæjar- og utanbæjarakstur. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Skottið er rúmgott og svo er afturhlerinn rafknúinn, sem er …
Skottið er rúmgott og svo er afturhlerinn rafknúinn, sem er algjör snilld. mbl.si/Ásdís Ásgeirsdóttir
Kíkt undir vélarhlífina.
Kíkt undir vélarhlífina. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Allar stillingar eru vel úthugsaðar og mjög þægilegar í notkun.
Allar stillingar eru vel úthugsaðar og mjög þægilegar í notkun. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Jeep Compass er fallegur að innan og er búinn þægilegum …
Jeep Compass er fallegur að innan og er búinn þægilegum rafknúnum sætum og hita í stýri. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Bíllinn hleður sig einnig á keyrslu og þannig sparast rafmagnið …
Bíllinn hleður sig einnig á keyrslu og þannig sparast rafmagnið í leiðinni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: