Löngu tímabærir endurfundir

Porsche Taycan 4S er stórkostlegur sportbíll jafnvel þótt hann sé …
Porsche Taycan 4S er stórkostlegur sportbíll jafnvel þótt hann sé 326 hestöflum aflminni en TaycanTurbo S. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástarjátningar eru ekki algengar í skrifum um bíla. En hér er ein þeirra. Ég elska Taycan – fyrsta hreina rafbílinn frá Porsche. Og það var ást við fyrstu sín. Við hittumst fyrst í Týrol, nánar tiltekið í skíðabænum Telfs. Það var 30. september 2019 og haust í lofti.

Morgunkul sem lá yfir bænum en spenna í loftinu sem ýtti því snarlega úr huga manns. Neðan við hótelið sem ég dvaldi á stóð hann steingrár og stærri en ég hafði ímyndað mér. Sór sig í Porsche-ættina en sannarlega afar rennilegur, frambrettin mjög í ætt við Cayman og afturendinn náskyldur 911 og 21" felgurnar undirstrikuðu svo ekki mátti villast um, að það var eitthvað tryllingslegt í kortunum.

268 kílómetra tryllingur

Þeir gerast hreinlega ekki lögulegri sportbílarnir enTaycan. Hann daðrar við …
Þeir gerast hreinlega ekki lögulegri sportbílarnir enTaycan. Hann daðrar við fullkomnun á allar hliðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Síðan liðu tveir dagar hjá á mörkum Austurríkis og Þýskalands. Og þeir liðu hraðar hjá en flestir, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Með Finn Thorlacius undir stýri slógum við Turbo S-útgáfuna í 268 km á einni hraðbrautinni. Okkur fannst hann eiga mikið inni en þá var svínað fyrir okkur – smábíll á 180. Ræddum við einn af verkfræðingunum að baki hönnun bílsins og ræddum um atvikið. Það kom honum spánskt fyrir sjónir enda bíllinn stilltur þannig að hann eigi ekki að komast hraðar en 260. Sennilega vorum við dálítið niður í móti á þessum kafla. Hestöflin 761 hefðu auðveldlega getað neglt bílinn í 300 km. Það segir sína sögu að hann er ekki nema 6,3 sekúndur í 160 – aflið er eins og í herþotu. Það voru þung skref þegar við kvöddum Taycan eftir þeysireið eftir hraðbrautum og sveitastígum þar sem einn af viðkomustöðunum var hið merka kaffihús í Salzburg þar sem Mozart-kúlurnar unaðslegu urðu fyrst til. En líkt og áður sagði hefur ekki sú vika liðið frá ferðinni góðu sem mér hefur ekki orðið hugsað til Taycan og þeirra ótrúlegu eiginleika sem bíllinn býr yfir.

Ég var því glaður þegar kom að endurfundum okkar tveggja í liðinni viku en þá fékk ég til prufukeyrslu 4S-bílinn sem er 435 hestöfl og þá rafhlöðuútfærslu sem er 79 kWh en Turbo- og Turbo S-bílarnir eru hins vegar búnir 93 kWh rafhlöðu. Auðvitað var ég hræddur um að hann yrði nokkuð slappari en en tryllitækin sem ég kynntist úti á sínum tíma. Þær áhyggjur hurfu þó eins og dögg fyrir sólu. Hvar ættu enda þær aðstæður að vera á Íslandi þar sem hestöflin 761 gætu notið sín til fulls og þá helst þar sem maður beitir fyrir sig launch-control kerfinu í einhvers konar spyrnuæfingum?

Upplifunin er alla vega sú að 4S þurfi ekki að skammast sín þótt Turbo sé auðvitað í raun ekkert annað en verkfræðilegt afrek. Og það má reyndar segja um alla Taycan-línuna, m.a. vegna þess að vélrás bílsins er keyrð á 800-voltum meðan flestir rafbílar til dagsins í dag byggja á 400 volta kerfi. Hin hækkaða spenna eykur til muna viðbragðsflýti en gerir notendum einnig kleift að hlaða bílinn á skemmri tíma en annars væri.

Truflað verð fyrir enn truflaðri bíl

Porsche Taycan 4S.
Porsche Taycan 4S. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Það var vitað að Turbo-bílarnir yrðu ekki á færi allra þegar verðmiðinn væri annars vegar. Alla vega norðan megin við 30 milljónirnar. Svo kom 4S sem er á mun hagstæðara verði en Benni og félagar hafa hins vegar stigið frábært skref með sölu á bíl sem ber hið einfalda og góða heiti Taycan hvorki meira né minna. Sá bíll er 400 hestöfl og með uppgefna drægni upp á allt 450 km og hann nær 100 km á klukkustund á 5,4 sekúndum. Þetta tryllitæki er nú í boði á 12 milljónir króna og það opnar markaðinn í raun upp á gátt.

Þetta verð og þessi bíll valda því að það er rétt að gefa út viðvörun. Helst ekki prófa nema þú sért tilbúinn að kaupa. Fyrirbærið er einfaldlega of freistandi!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: