Þægindi og verð sem kemur á óvart

„Það verður að segjast að verðið kemur nokkuð á óvart …
„Það verður að segjast að verðið kemur nokkuð á óvart miðað við það sem bíllinn hefur upp á að bjóða.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breski bílsmiðurinn MG frumsýndi seint á síðasta ári nýjan framhjóladrifinn jeppling með tengiltvinntækni, sem ber heitið EHS. Bíllinn kom á markaði í Evrópu í byrjun janúar og hér á landi fer BL með umboðssölu bílsins. Fyrr á síðasta ári var bróðir þessa kynntur til leiks, en sá er alfarið knúinn rafmagni.

MG-merkinu var fyrst komið á fót á þriðja áratug síðustu aldar í Bretlandi, og stóð fyrir Morris Garages. Miklar sviptingar og tíð eigendaskipti áttu eftir að fylgja á næstu áratugum, en árið 2006 var merkið keypt af kínverska ríkisbílaframleiðandanum Nanjing Automobile Group. Ári seinna rann framleiðandinn inn í risavaxna ríkisbáknið SAIC, sem á í dag meðal annars í framleiðslusamstarfi við Volkswagen og General Motors auk þess sem það framleiðir sjálft bíla undir merkjum MG, Maxus og Roewe.

Vaxandi áhugi Íslendinga

Baksvipurinn er voldugur og óhætt að segja að rauði liturinn …
Baksvipurinn er voldugur og óhætt að segja að rauði liturinn fari honum vel í íslenskri birtu. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Það var svo í fyrra sem merkið hóf formlega innreið sína á íslenska bílamarkaðinn. Forstjórinn Matt Lei sagðist við það tækifæri spenntur fyrir tækifærunum á Íslandi.

„Við höfum fylgst með sífellt vaxandi áhuga Íslendinga á raf- og tengiltvinnbílum, sem deildu með sér fjórðungi heildarmarkaðarins hér á landi 2019,“ sagði Lei þá og bætti við að reynsla ökumanna væri í fyrirrúmi hjá framleiðandanum.

Um þetta nýjasta útspil, þ.e. tengiltvinnjepplinginn, segir Lei: „MG hjálpar bíleigendum að skipta yfir í „hinn rafmagnaða heim“ með vel hannaðri og umhverfismeðvitaðri akstursupplifun sem er í senn hagnýt, örugg og hagkvæm.“

Jepplingurinn uppfylli í senn þarfir umhverfismeðvitaða ökumannsins og meðvitaða atvinnubílstjórans. „Í dag vilja ökumenn geta ekið á varanlegu rafmagni án þess að þurfa að hafa miklar áhyggjur af drægni bílsins. Þeim sem eru ekki enn tilbúnir fyrir 100% rafknúinn bíl bjóðum við tengiltvinnbílinn MG EHS sem viðbót við rafknúna sportjepplinginn MG ZS EV.“

Mikill metnaður

Það fer vel um ökumann og farþega og íburðurinn hæfilegur.
Það fer vel um ökumann og farþega og íburðurinn hæfilegur. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Og það má vel vera að margir setji það fyrir sig að fjárfesta í rafknúna jepplingnum, en sá er með uppgefna drægni upp á 263 kílómetra. Kæmist þannig ekki til Akureyrar á einni hleðslu, einmitt það sem margir virðast ósjálfrátt setja sem viðmið í rafbílakaupum, jafnvel þótt fleiri ár kunni að líða án þess að ekið sé norður í land.

En að bílnum sjálfum, MG EHS PHEV, sem tekinn var til reynsluaksturs í síðustu viku:

Um leið og maður sest í bílstjórasætið er ljóst að hér er metnaðurinn mikill við að hafa þægindi mikil og sömuleiðis skýr vilji til að nokkurs konar lúxus-tilfinning hellist yfir mann. Ljós lýsa upp innanverða bílhurðina þegar henni er lokið upp og í Luxury-útgáfunni sem ég reyndi var einnig að finna svokallaða stemningarlýsingu í innréttingunni. Ljósrendur umlykja þá farþegarýmið og breyta má lit ljóssins með einfaldri stillingu í skjánum hægra megin við stýrið.

Fullt hús öryggisstiga

Hugað hefur verið að ýmsum smáatriðum í akstursupplifuninni.
Hugað hefur verið að ýmsum smáatriðum í akstursupplifuninni.


Það fer vel um mann í sætunum, sem eru afar þægileg. Rafdrifið sæti ökumanns er staðalbúnaður og í Luxury-útgáfunni er sæti farþega líka rafdrifið. Bíllinn er einnig sérlega vel búinn þægindabúnaði á borð við myndarlegt og opnanlegt glerþak, bakkmyndavél, upphitað framsæti og regnskynjara.

Jepplingurinn hefur hlotið fullt hús öryggisstiga hjá Euro NCAP, ekki síst vegna mjög stífrar yfirbyggingar sem veitir góða vernd fyrir ökumann og farþega auk akstursaðstoðarkerfa á borð við sjálfvirkan hraðastilli, viðvörun fyrir blindsvæði, árekstrarviðvörun, sjálfvirka neyðarhemlun og akreinaskynjara.

Það sem fyrst vakti ánægju við aksturinn er að þegar skipt var um akrein án þess að gefa stefnuljós, eins og ökumaður á gjarnan til þegar umferð er lítil, mátti ekki heyra eitt einasta píp frá bílnum. Sú ákvörðun hefur greinilega verið tekin að láta stýrið titra frekar, til marks um að maður sé mögulega að fara óafvitandi út af sinni akrein. Er það öðrum framleiðendum til eftirbreytni.

Gott var að keyra jepplinginn, sem er nokkuð lipur auk þess sem stýrið er létt. Glerþakið gefur góða birtu inn í bílinn, þó einnig megi loka fyrir það, og útsýni í baksýnisspegli er gott.

Í Luxury-útgáfunni má finna svokallaða 360 gráðu myndavél, sem tekur myndstreymi úr nokkrum myndavélum á hliðum bílsins og skeytir þau saman í eina yfirsýn eins og horft sé ofan á bílinn. Þessu til viðbótar má á skjánum velja á milli að minnsta kosti átta sjónarhorna í svokölluðu þrívíddarkerfi. Þannig er hægt að velja að sjá bílinn og umhverfi hans eins og maður standi sjálfur fyrir framan hann, eða þá t.d. á ská fyrir aftan. Þetta er skemmtilegur valmöguleiki en ég veit ekki hversu mikil not eru fyrir hann.

Kerfið líður fyrir sama ljóð og er á bakkmyndavélinni, það er að hún verður í rigningu og ryki fljótt skítug og erfitt að greina nákvæmlega hvað hún sýnir. En þetta á auðvitað við flestalla bíla. Fer það að verða lítt skiljanlegt af hverju fleiri framleiðendur fylgja ekki Mercedes-Benz í þessum efnum, með því að beina linsunni aðeins út þegar hennar er þörf.

6,9 sekúndur í hundraðið

Stíf yfirbyggingin á þátt í hárri einkunn í árekstrarprófum.
Stíf yfirbyggingin á þátt í hárri einkunn í árekstrarprófum.


Jepplingurinn byggir á nýrri driftækni sem byggist á þaulprófaðri 119 kW/162 hestafla 1,5 lítra bensínvél með forþjöppu sem skilar 250 Nm togi, og öflugum 90 kW/122 hestafla rafmótor sem vinna saman snurðulaust að því að veita allt að 258 sameiginleg hestöfl og 370 Nm hámarkstog.

Hröðun MG EHS úr kyrrstöðu í 100 km/klst. er einungis 6,9 sekúndur auk þess sem rafrænt XDS-mismunardrifið tryggir hámarksgrip. Hröðunin reyndist þó tilfinnanlega minni þegar rafmagninu sleppti. Vissulega er þá bót í máli að jepplingurinn hleður inn á sig eins og hann getur þegar farið er niður í móti og/eða hemlum beitt. Þannig sá maður rafhleðsluna færast upp og uppgefin rafdrægni jókst aftur eftir að hafa náð núllinu.

Rafmótorinn fær afl sitt frá 16,6 kWh Li-ion-rafhlöðu og er unnt að aka bílnum allt að 52 kílómetra á rafmagninu eingöngu, samkvæmt WLTP-staðli. Ekki gafst ástæða til að rengja það mat. Í bílnum er innbyggt 3,7 kW hleðslutæki sem gerir kleift að fullhlaða rafhlöðuna á 4,5 klukkustundum á næstu hleðslustöð.

Gírkassi jepplingsins beinir afli bensínvélarinnar og rafmótorsins til framhjólanna og flyst tog bensínvélarinnar með sex þrepa sjálfskiptingu á meðan afl rafmótorsins fer um fjögurra gíra rafdrifseiningu.

Besta úr báðum heimum?

Farangursrýmið er nokkuð rúmgott, ætti að mæta þörfum fólks á …
Farangursrýmið er nokkuð rúmgott, ætti að mæta þörfum fólks á ferðinni og duga þeim sem eiga stóran hund. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Það verður að segjast að verðið kemur nokkuð á óvart miðað við það sem bíllinn hefur upp á að bjóða. Jepplingurinn fæst í tveimur útgáfum, Comfort fyrir kr. 5.190.000 og Luxury fyrir kr. 5.490.000. Rafknúni bróðirinn ZS EV fæst fyrir töluvert minna, eða kr. 4.090.000. Þannig má segja að fyrir þessa rúmu milljón króna sé maður að kaupa burt áhyggjur af lítilli drægni og hleðslumöguleikum, og um leið ef til vill sameina það besta úr báðum heimum.

MG EHS

» 1,5 lítra dísilvél með forþjöppu og 90 kW rafmótor

» Sex þrepa sjálfskipting og fjögurra gíra rafdrifseining

»258 hestöfl/ 230 Nm

» 0-100 km/klst. á 6,9 sek.

» Hámarkshraði: 190 km/klst.

» Koltvísýringslosun: 43 g/km

» Eyðsla í bl. akstri: 1,8/100 km

» Eigin þyngd: 1.737 kg

» Farangursrými: 448 lítrar

»Umboð: BL

»Grunnverð: 5.190.000 kr.

»Verð eins og prófaður: 5.490.000 kr.

Gírkassinn er nokkuð flókinn.
Gírkassinn er nokkuð flókinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka