Grænkeri sem bítur fast

Volvo í vetrarbúningi: C40 Recharge ber ættarsvipinn vel.
Volvo í vetrarbúningi: C40 Recharge ber ættarsvipinn vel. Arnþór Birkisson

Volvo C40 Recharge er nýr sjálfskiptur fjórhjóladrifinn 100% rafjepplingur frá Volvo. Blaðamaður fékk eintak til reynsluaksturs fyrr í mánuðinum og keyrði við íslenskar aðstæður.

Byrjum á að setjast upp í bílinn: Ekki þarf að ýta á neinn takka til að ræsa hann heldur dugir að stíga á bremsuna og setja í drive og aka af stað. Nú eða í bakkgír ef þannig háttar til. Lausn sem átti eftir að venjast afar fljótt og hlýtur að vera það sem koma skal víðar.

Vel fer um mann í sætinu en bæði framsætin eru rafstillanleg á alla vegu og með góðum stuðningi við mjóbakið. Stýrikerfið er nokkuð auðskiljanlegt og ég hef líklega ekki kynnst snurðulausari samskiptum bíls og síma yfir blátannartenginguna, sem þó má finna í öllum nýjum bílum.

Hljóðkerfið frá harman/kardon olli engum vonbrigðum og fór vel með alla tóna sem ég kaus að láta það spila. Skjárinn í miðjunni er af góðri stærð, hvorki of lítill né of stór, en aðrir framleiðendur hafa vissulega sýnt að hvort tveggja er hægt.

Skjárinn í mælaborði er snyrtilega mínimalískur en nær á sama tíma að sýna allar upplýsingar sem ég taldi mig þurfa. Framsetningin á leiðsögukerfinu og kortinu fannst mér afar vel heppnuð, bæði í mælaborði og á miðjuskjánum, en á fyrrnefnda skjánum dofnar kortið á jöðrunum og sú nálgun gladdi augað á einhvern hátt.

Upplifun ökumanns er ósvikin og ánægjuleg.
Upplifun ökumanns er ósvikin og ánægjuleg. Arnþór Birkisson

Dýrin fagna

Í hönnun bílsins virðist hafa mikið verið litið til umhverfisáhrifa. Innréttingar eru að mestu úr endurunnum efnum og hermt er að engar dýraafurðir séu nýttar í framleiðslu hans. Grænkerabifreið ef svo má segja. Á þeim fáu dögum sem bíllinn var reyndur var ekki að finna að innréttingin væri neitt síðri en þær sem ekki hafa verið endurunnar.

Hluti innréttinganna lýsist einnig skemmtilega upp í myrkri og kemur það vel út án þess að vera of áberandi. Panorama-glerþakið ljær bílnum líka góða „premium“-tilfinningu, rétt eins og hljóðkerfið.

Farangursrýmið er afar þægilegt og afturhlerinn opnast sjálfkrafa, meðal annars með því að hreyfa fótinn undir afturendanum. Og ekkert óþarfa píphljóð, eins og sumum framleiðendum hættir til að vilja bæta við ýmsa virkni bíla.

Handhægar festingar fyrir innkaupapoka eru í skottinu sem ég sé fyrir mér að myndu gagnast mörgum. Aukageymslupláss er einnig að finna undir botni farangursrýmisins og svo má sömuleiðis finna litla 31 lítra geymslu undir vélarhlífinni, sem í þessu tilfelli hlífir engri vél.

Sú leið virðist hafa verið farin að hafa ekki margar útfærslur af bílnum heldur hlaða hann staðalbúnaði og bjóða svo aðeins upp á nokkra aukahluti fyrir þá sem það vilja. Sérstaklega heppilegt fyrir valkvíðna menn sem þurfa bara að segja: „Einn Volvo C40 Recharge P8 takk.“ Ekki svo lengi að ryðja því út úr sér.

Hér á landi fylgir bílnum sérstakur búnaður fyrir kalt veðurfar á norðurhveli jarðar. Í honum felst upphitanlegt stýri og framsæti, varmadæla og svo það sem gleður eflaust marga: forhitari sem fjarstýrt er með appi eða á skjá. Loks er Volvo-merkið í grillinu upphitanlegt. Varmadælan fer létt með að hita bílinn og sömuleiðis rafhlöðuna upp áður en haldið er út í dimman janúardag.

Snarpur Svíi

Nú, svo er tekið af stað. Og bíllinn er öflugur. Fjórhjóladrifinn 408 hestafla rafbíll og hröðunin eftir því. 4,7 sekúndur í hundraðið og maður þreytist seint á að taka duglega af stað á ljósum. Það er hreint út sagt hrikalega skemmtilegt að keyra þennan bíl. Ágætlega mjúk fjöðrun og liggur vel á veginum. Veghljóð nokkuð lítið og veghæðin í fínu lagi, rétt rúmir 17 sentimetrar. Fjórhjóladrifið sá líka vel um að halda góðu gripi í hálkunni.

Tveir 150 kW rafmótorar knýja bílinn áfram og er einn á hvorri drifrás fyrir sig. Uppgefin drægni er allt að 444 km í blönduðum akstri, en þá er auðvitað miðað við bestu aðstæður samkvæmt WLTP-staðlinum. Reyndist hann drífa heldur skemmra í vetrarfærðinni í liðinni viku. En þá er jepplingurinn aðeins 40 mínútur að fara úr 0% upp í 80% hleðslu, ef hann er hlaðinn með 150 kW hraðhleðslu, og 120 mínútur að ná sömu hleðslu á 50 kW hraðhleðslustöð.

Samkvæmt tölum rafbílagagnagrunnsins EV-Database má gera ráð fyrir 290 km drægni í blönduðum akstri á bílnum þegar kalt er í veðri, sem rímar ágætlega við mína reynslu. Það er eins og gefur að skilja miklu meira en nóg fyrir hefðbundna notkun meðalmannsins á Íslandi, sem keyrir til og frá vinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Ef keyra þarf til Akureyrar, eins og margir vilja gjarnan taka sem dæmi, þá er kominn upp nokkur fjöldi hleðslustöðva, allt frá 50 til 150 kW, þar sem má staldra við á leiðinni, svo sem í Borgarnesi, við Baulu, í Staðarskála, á Blönduósi og í Varmahlíð.

Hljómflutningstækin ættu að höfða til þeirra kröfuhörðustu.
Hljómflutningstækin ættu að höfða til þeirra kröfuhörðustu. Arnþór Birkisson

Ljósin líta undan

Háu ljósin fela í sér afar hagnýtan hugbúnað, en þau má með einni snertingu stilla þannig að þau víki sjálfkrafa þegar bíll er fram undan á veginum, hvort sem hann er að mæta manni eða á leið í sömu átt.

Eins og í mörgum öðrum nýjum bílum skynjar bíllinn einnig umferðina í kringum sig. Því má stilla „cruise control“ á ákveðinn hraða og svo hægir bíllinn á sér og eykur hraðann á ný, eftir því hvort bíll sé á undan sem er undir því hraðaviðmiði.

Hann hjálpar manni líka að skynja sjálfur nærumhverfið. Tók ég eftir því þegar ég keyrði þröngar götur miðborgarinnar, með kyrrstæða bíla beggja vegna. Þá kom upp á miðjuskjánum sjónarhorn eins og horft væri ofan á bílinn, og þannig auðvelt að sjá hversu nálægt maður keyrði bílunum. Þessi skjámynd leystist svo upp um leið og komið var yfir 20 km hraða.

Í íslenska slabbinu var bakkmyndavélin því miður fljót að verða skítug og gaf þá afar takmarkaða sýn. Hugsa ég að ef ég ætti bílinn myndi ég temja mér að pússa snögglega myndavélina í hvert sinn sem ég settist upp í bílinn að vetri til. Enn verð ég að furða mig á því að hafa ekki rekist á þá lausn neins staðar annars staðar en hjá Mercedes-Benz að geyma myndavélina inni í skjóli afturendans og láta hana sjálfkrafa skjótast út þegar hennar er þörf, sem minnkar allverulega hættuna á að hún verði kámug.

Og þótt baksýnisspegillinn sé ágætlega stór þá er afturglugginn það ekki. Raunar þvert á móti. Þetta gæti því verið það eina sem ég finn að bílnum – það er útsýnið aftur fyrir hann. En í svona annars góðum bíl er maður kannski líklegastur til að horfa bara fram á veginn.

Volvo C40 Recharge

» Rafmótor

» Fjórhjóladrif

» 408 hö / 660 Nm

» 0-100 km/klst á 4,7 sek.

» Hámarkshraði 180 km/klst.

» CO2-losun: 0 g/km

» Áætluð drægni: 444 km

» Dráttargeta: 1.800 kg

» Eigin þyngd: 2.132 kg

» Umboð: Brimborg

» Verð frá: 8.411.920 kr.

» Verð eins og prófaður: 8.411.920 kr.

Rétt er að geta þess að Brimborg býður bifreiðina einnig til sölu með ábyrgð og tryggingum inniföldum, á kr. 8.890.000.

Í því felast þjónusta og viðhald í 36 mánuði, eða að keyrðum 100 þúsund kílómetrum, hvort sem kemur á undan, auk þriggja ára ábyrgðar-, kaskó-, og framrúðutryggingu frá Sjóvá, með tiltekinni sjálfsábyrgð ásamt drifhlöðutryggingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: