Ekki er ósennilegt að málvísindamennirnir á Árnastofnun frussi kaffinu yfir bílablaðið að þessu sinni. Þeir sáu það, nánast áður en þeir lásu fyrirsögnina, að blaðamaðurinn hefur engin tök á íslenskri tungu. Lýsingarorðið sem blaðamaður velur í fyrirsögn greinarinnar vísar til drenglyndis eða göfugs lundernis. Það hefur ekkert með vegakerfið að gera.
Og ég bið þá alla afsökunar, undanbragðalaust. Ekki vegna þess að ég taki aðfinnslurnar alvarlega, heldur vegna þess að ég hugsaði nákvæmlega það sama þegar þessu hugtaki laust niður í höfuðið á mér, þar sem ég ók á einum af nýju rafbílum frá Mercedes-Benz eftir Reykjanesbrautinni.
Það er nefnilega hollt fyrir þá sem rita greinar um bíla fyrir almenning, málvísindamenn sem aðra, að velta vöngum yfir því meðan á prufuakstri stendur, hvaða orð gætu best lýst því sem hríslast um kroppinn meðan græjan er tekin til kostanna. Þar getur stundum orðið djúpt á hlutunum, ekki síst fyrir þá staðreynd að verkfræðingum Tesla, Porsche, Toyota, Benz, BMW og fleiri stórfyrirtækja á sviði bílsmíði hefur tekist svo ótrúlega upp í því að færa okkur inn í raföldina, að stundum þykir manni útkoman stappa nær töfrabrögðum en bílaverkfræði og -hönnun.
En þar sem ég ók á EQB velti ég einmitt vöngum yfir því hvort nú væri sú stund komin að Benz hefði mistekist. Tilfinningin sem greip mig var ekki tengd undrun eða óskiptri aðdáun. Þar hafa betur snilldartæki á borð við EQS og Porsche Taycan Turbo S.
En það er samt eitthvað sem ég fann að ég væri með í höndunum. Eitthvað sem ég þyrfti að grafa betur eftir hvað væri. Og þá kom það: Mercedes-Benz hefur, á þeirri öld sem fyrirtækið hefur starfað, sent frá sér stórkostleg tryllitæki og viðhafnarmiklar limúsínur. Þessi tæki hafa vakið mesta athygli, að sjálfsögðu. Í langri framleiðslulínunni sem þaðan hefur komið er þó ekki síst að finna tilgerðarlausa bíla, trausta og massíva, sem tryggja tilgerðarlausan lúxus. Þeir bílar, sem fylla þann flokkinn, minna helst á þýska iðnaðinn. Hann slær ekki feilnótu og skilar öllu því sem honum ber, og meira til. Þó hafa fáir fyrir því að klappa fyrir afrekunum, þótt sannarlega séu þau til staðar.
Þannig bíll er EQB. Þess vegna er hann líka vinsæll og verður þarfasti þjónninn á mörgum íslenskum heimilum á komandi árum.
Til þess að svara ofangreindri spurningu þarf að leita nokkuð aftur í sögu Mercedez-Benz. Raunar til ársins 2005, þegar fyrirtækið kynnti í fyrsta sinn til sögunnar B-Class. Sú lína byggðist á hinni vinsælu A-Class hönnun en þó stærri. Það er akkúrat það sem EQB er ætlað að gera gagnvart EQA sem kom fyrr á markað og er smærri í sniðum.
Þarna er um borgarjeppa að ræða sem er rúmgóður en þó afar meðfærilegur, vegna þess að hann er nettur í reynd. Hann fyllir í skarðið sem myndaðist, þegar rafbílar tóku að taka markaðinn yfir, þar sem bílaframleiðendur höfðu engin svör við því hvernig knýja mætti stærri bíla áfram á hinum nýja orkugjafa og tryggja nægilega drægni um leið. Rafhlöðurnar buðu einfaldlega ekki upp á það. En nú hefur það breyst.
Þá hafa bílsmiðirnir einnig kynnt til sögunnar hvern nýjan bílinn á fætur öðrum sem ekki byggist á eldri hönnun bensín- eða díselvélar. Þá opnast ný tækifæri hvað pláss og innri aðbúnað varðar. Í fyrstu týpunum (E-Golf var þar á meðal og B-Class rafbíllinn einnig) var sífellt verið að taka pláss úr millistokki í aftursætum og stóran hluta þeirrar dýptar sem hægt var að skapa í skottrými, undir rafhlöður. Nú hafa rafhlöðurnar þróast, og undirvagnarnir með. Nú er því t.d. hægt í EQB að kynna til sögunnar sjö manna bíl. Innanrýmið aftast í bílnum er það drjúgt að þar er vel hægt að koma fyrir niðurfellanlegri þriðju sætaröð, sem svo lítið fer fyrir, þegar hún er ekki í notkun, að farangursrýmið telur tæpa 500 lítra. Því fagna margir, ekki síst stórar fjölskyldur, eða þeir sem öðru hverju vilja geta farið með fleiri en vísitölufjölskylduna vinsælu í bíltúr (ég er einmitt í þeim hópi).
Það er þriðja sætaröðin sem gerir EQB mjög álitlegan kost fyrir marga. Enn sem komið er eru fáir rafbílar sem bjóða upp á þann möguleika þótt gera megi ráð fyrir því að það muni breytast hratt á næstu tveimur til þremur árum.
Þó verður að viðurkennast að það voru mjög bjartsýnir verkfræðingar sem ákváðu að búa bílinn þessum sjö sætum. Hann er tæpir 4,7 metrar á lengd og rúmir 1,8 metrar á breidd. Miðjusætaröðin er hin þokkalegasta og sætin vönduð og þétt, eins og alltaf gildir í framleiðslu Mercedez-Benz, en fótaplássið er ekki of mikið. Þegar aftasta sætaröðin er dregin upp til notkunar, þá er nauðsynlegt að nýta sleðatæknina á miðjusætaröðina og færa hana ögn framar. Minnkar þá fótaplássið enn frekar. Þrátt fyrir það er plássið í þriðju og öftustu röðinni með því móti að það getur varla talist brúklegt fyrir fullvaxta karlmenn.
Því er það niðurstaða mín að útbúnaður EQB hvað sætafjöldann varðar sé ágætur til síns brúks en fólk sem er vant því að geta komið sjö manns í Discovery, LandCruiser eða GLS frá Benz, mun ekki líta á EQB sem fullburða sjö manna bíl. Helst mun útbúnaðurinn nýtast vel þegar fólk er með börn á ferð, sem geta nýtt öftustu röðina og látið fara vel um sig. Þá er helst um börn að tefla sem ekki þurfa bílstól, heldur í besta falli sessu.
Ég verð að viðurkenna að þegar ég sá fyrst myndir af EQB, löngu áður en hann kom til landsins, var ég ekki alveg viss um það hvað mér ætti að finnast. Var hann jafnvel dálítið búttaður? Var tilfinningin kannski sú að þetta væri bíll fyrir gamla karla með kaskeiti? En það er eins með EQB og reyndin var með afturhlerann á Discovery III. Maður þurfti daginn til að melta þetta og að því loknu var maður mjög sáttur. Það varð svo endanlega niðurstaðan eftir að ég fékk bílinn í hendur og náði að skoða hann frá fleiri sjónarhornum. Hann er sannarlega „þéttvaxinn“ og skortir hina sportlegu fágun sem finna má í línum EQC, svo ekki sé talað um í EQE og EQS (síðastnefndi bíllinn er ekki af þessum heimi og vísa ég þar í bíladóm minn frá 28. janúar síðastliðnum: „Drossía úr draumaheimi“). En hann er heldur ekki sportbíll og þykist ekki vera það. Sést það m.a. á þeirri staðreynd að hröðunin á vinsælustu útfærslunni, 300 4MATIC, er 8 sekúndur í hundraðið (hægt er að ná því niður í 6,2 sekúndur í 350 útfærslunni). Ytra byrði bílsins segir sögu styrkleika og þæginda og rúðurnar í bílnum eru stórar og tryggja gott útsýni. Annar kostur við bílinn er að inn- og útstig er mjög þægilegt, ekki aðeins vegna hæðar bílsins, heldur einnig vegna þess að hurðirnar eru stórar og boginn frá húddi og upp á þak bílsins er ekki sportlega sveigður eins og á fyrrnefndum EQC heldur er fremur í líkingu við GLE. Þetta er kostur í huga margra, ekki síst eldri aðdáenda Mercedes-Benz. Af þeim sökum er bíllinn þrátt fyrir allt líklegur til þess að verða mjög vinsæll meðal eldri karla, og sumir þeirra eru án efa með kaskeiti.
En það er hægt að gera bílinn sportlegri en ytra yfirbragð hans gefur tilefni til. Það er m.a. hægt með því að skella undir hann 19 tommu AMG álfelgum sem eru mjög vígalegar og fylgja í POWER-útfærslu bílsins. Einnig skiptir litavalið máli. Grár og svartur tryggja fágað yfirbragð en aðrir litatónar gætu virkað enn betur. Sér maður þar fyrir sér Patagonia-rauðan svo dæmi sé tekið. Þá hlakka ég til að sjá fyrsta rósagyllta bílinn á götunum. Held að sú útfærsla muni koma á óvart.
Niðurstaða mín er sú að Mercedez-Benz hefur tekist vel upp með þróun og smíði EQB. Þetta er mikilvægur hlekkur í nýju EQ-fjölskyldunni. Honum er ætlað að brúa bil milli tveggja heima, hinna nettu og aðgengilegu EQA og EQC yfir til stærri bíla sem enn eiga eftir að líta dagsins ljós. Hann mun koma í mjög góðar þarfir hjá hópi sem er vanur B-class en einnig mun hann nýtast mjög vel hjá fólki sem er að trappa sig niður úr stærri bílum á borð við GLE.
» Rafdrifinn
» Fjórhjóladrif
» 228 hö / 390 Nm
» 0-100 km/klst. á 8,0 sek.
» Hámarkshraði: 160 km/klst.
» Stærð rafhlöðu: 66,5 kWst
» Drægni (WLTP): 423 km.
» Eyðsla í blönduðum akstri (WLTP): 18,1 kWh/100 km.
» Sjö manna
» Eigin þyngd: 2.175 kg.
» Farangursrými: 495 lítrar
» Umboð: Askja
» Grunnverð EQB: 7.590.000 kr.
» Verð á bíl í prufuakstri: 8.590.000
Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 19. júlí.