Blaðamanni Morgunblaðsins bauðst að reynsluaka öllum þremur útgáfum Kia Niro í miðri Evrópu-hitabylgju, í Frankfurt í Þýskalandi. Var megináherslan lögð á alrafmögnuðu útgáfuna af Niro.
Fyrst ber að nefna nýtt og stórbætt útlit bílsins. Bætingin frá fyrra módeli bílsins er að mínu mati með betri uppfærslum sem ég hef séð. Fyrri týpa bílsins þótti mér örlítið ömmu- og afaleg þrátt fyrir að vera hinn ágætasti fjölskyldubíll, vel seldur og hafði getið sér góðs orðs.
Nýja útlitið er sportlegra en samt jeppalegra. Hönnun rafmagnsbíla er nokkuð bundin af loftflæðishönnun þeirra og hafa margir hverjir þótt of kjánalegir í útliti. Af því þarf ekki ða hafa neinar áhyggjur með nýjan Kia Niro. Miklar rannsóknir liggja að baki bættu útliti og nýjum eiginleikum bílsins og er niðurstaðan flottari, stærri, notendavænni og tæknilegri Kia Niro.
Nýja útlitið fellur vel að nýrri hönnunarstefnu Kia sem endurbætt hefur útlit allra bíla í sölu og kristallast í nýju merki fyrirtækisins.
Nýr Kia Niro hefur útlit íburðarmikils bíls þrátt fyrir að vera nokkuð léttur, bæði bókstaflega og léttur í akstri. Bíllinn fæst í níu litum en aftan á honum, frá afturdekki og að hurð skottsins, er v-laga rönd sem hægt er að fá í sex litum. Þannig er hægt að leika sér með hinar ýmsu litaútfærslur á bílnum, eða hafa röndina í sama lit og skrokkur bílsins.
Þó er ekki hægt að hafa röndina hvíta, svo að ef hvítur bíll yrði fyrir valinu, verður röndin alltaf í öðrum lit. Hvítur bíll með grárri rönd væri líkleg niðurstaða fyrir þá sem ekki leitast eftir mikilli litagleði.
Niro býr yfir ýmsum gagnlegum og notendavænum eiginleikum.
Líkt og áður segir var hann prufukeyrður í miklum hita og glampandi sól á meginlandi Evrópu og því var loftkælingin það fyrsta sem athuga þurfti. Hún olli ekki vonbrigðum, öflug og fljót að stillast af. Enn betra var svo að álíka öflug kæling er í framsætum bílsins; ekki bara sætishiti sem öllu líklegri er til að nýtast á Íslandi, heldur sætiskæling. Þá er sætishiti einnig í aftursætum bílsins og hægt er að stilla hitann í stýri bílsins.
Áklæði sætanna er ljósgrátt og úr trefjum sem eru 56 prósent endurunnar. Sætin fást einnig í gervileðri úr plöntum, sem er enn mýkra en venjulegt leður. Trefjaáklæðið er þægilegt viðkomu og áferðarfallegt en hagsýn húsmóðir gæti haft áhyggjur af því að það kunni að vera skítsælt. Á móti kemur að þrif á trefjaáklæðinu eru auðveld og þægileg.
Á milli framsætanna er einnig rúmgóður glasahaldari. Hægt er að taka upp skilrúmið á milli og snúa og færa til. Einfaldur en samt svo sniðugur eiginleiki.
Innrétting bílsins er glæsileg og skjár og takkaborð auðskiljanleg og meðfærileg. Tveir skjáir eru í bílnum: annar fyrir hraðamælingu og aðrar mælingar og merkingar en hinn fyrir leiðakerfi og stillingar – hvor um sig 10,25 tommur og sá síðarnefndi að sjálfsögðu snertiskjár. Þá er einnig rúðuskjár sem varpar hraðamælingu og öðrum mikilvægum upplýsingum í akstri á framrúðuna svo að hvergi þurfi að taka augun af veginum.
Stýrisborðið er í ósamhverfum boga með hæsta punkt yfir stýrinu. Ljósrönd er á stýrisborðinu sem nær yfir á gíraborðið. Ljósröndin er bæði stillanleg eftir smekk og hægt að stilla inn á prógrömm sem breyta lit eftir akstri, 64 litir eru í boði. Stórskemmtilegur eiginleiki sem eykur við framtíðarlega akstursupplifun.
Einstaklega þægilegur eiginleiki sem nýtast ætti flestum er að fremst á milli framsætanna er þráðlaus hleðsla fyrir snjallsíma. Þá eru háhraða USB-tengingar fyrir neðan skjáinn sem og í hliðum beggja framsætanna sem nýtast fyrir bæði fram- og aftursætin.
Rafhlaða bílsins, sem er 64,8 kílówattsstundir, er alfarið undir honum svo að jafnvægispunktur er neðarlega og þyngd rafhlöðunnar, alls 457 kíló, er dreift jafn yfir skrokk bílsins.
Það skapar pláss fyrir gott geymslurými aftan í bílnum og þá er einnig ágætis geymsluhólf undir vélarhlíf bílsins og fótapláss bæði í fram- og aftursætum gott. Farangursrými aftur í er 475 lítrar og aukarýmið að framan rúmir 20 l.
Bæði framsæti eru stillanleg með rafmagni og hægt er að vista ökumannsstillingu í minni bílsins.
Rafbíllinn er á sautján tommu Michelin-dekkjum með á álfelgum.
Bíllinn kemst hæst upp í 167 kílómetra á klukkustund sem vissulega – viðurkenni ég – var prófað á þýsku hraðbrautinni.
Það var varla að finna fyrir hraðanum, en hámarkshraða-aðvörunarkerfið lét mig reglulega vita af honum.
Önnur snjallkerfi í bílnum eru akreinavari sem greinir merkingar á vegum, bíla fyrir framan sig og aðstoðar bílstjóra við að halda sig innan akreina. Snjallkerfi fyrir þjóðvegi sem virkjast þegar kveikt er á akgreinakerfinu og hraðastillikerfi – það greinir aðra bíla í umferðinni, akreinar fram undan og fjarlægðir að þeim. Þá er hraðastillikerfi sem tekur mið af leiðsagnarkerfinu og hægir á í beygjum og eftir hámarkshraða.
Skynjarar sem greina aðra bíla eru mjög næmir og ef bíll er nálægt titrar stýrið einnig.
Skynjarar eru framan á og aftan á bílnum sem tryggja að öruggt sé að bakka í og úr stæði, mæta bílum og koma í veg fyrir blinda bletti. Þá er að sjálfsögðu bakkmyndavél.
Hægt er að stilla á fjórar akstursstillingar í bílnum; vistvæna (e. eco) sem hámarkar nýtingu rafmagns, venjulega (e. normal) þar sem ekki er gripið inn í akstur, sport sem tryggja á þéttan akstur og snjó sem tryggja á öruggan akstur í vetrarfærð.
Í reynsluakstrinum voru aðeins sú venjulega og vistvæna prófaðar. Sú síðarnefnda greip inn í mikla hraðaaukningu og er ekki fyrir þá sem vilja hafa algjöra stjórn á eigin akstri.
Á akstri í úthverfum og hraðbrautum í Frankfurt þarf sérstakar aðstæður til að prófa upptak bílsins, það er helst fremsti bíll við umferðarljós. Aðeins einu sinni gafst tækifæri til að prófa upptakið en þá var það reynt á tengiltvinnbílnum. Skemmst er frá því að segja að bíllinn er engin geimflaug en kom sér þokkalega hratt af stað. Uppgefinn tími frá 0 og upp í 100 kílómetra á klukkustund eru 7,8 sekúndur á rafmagnsbílnum en 9,8 sekúndur á tengiltvinnbílnum
Drægni rafbílsins er allt að 460 kílómetrar í blönduðum akstri sem hægt er að ná í allt að 600 kílómetra þegar keyrt er við bestu aðstæður.
Í harðnandi samkeppni í sölu rafbíla er leitun að eiginleikum sem gera hvern bíl einstakan og, í mínum huga, að bílum sem henta betur íslenskum aðstæðum en aðrir.
Það sem gerir nýjan Kia Niro að góðum kosti er tvímælalaust góðar og notendavænar tæknilausnir, pláss og léttleiki.
Að nokkru leyti eru vonbrigði að hann sé ekki fjórhjóladrifinn, sem myndi gera hann að augljósum kosti fyrir íslenskar aðstæður en í öllu falli ætti hann að henta vel fjölskyldum og þeim sem ferðast við góðar aðstæður.
» Rafdrifinn
» Framhjóladrifinn
» 255 hestöfl
» 0-100 km/klst. á 7,8 sek.
» Stærð á rafhlöðu 64,8 kWst
» Drægni 460 km í blönduðum akstri
» Hámarksdrægni 604 km
» Fimm manna
» Eigin þyngd 2.230 kíló
» Farangursrými 475 + 20 lítrar
» Umboð Askja
» Grunnverð 6.290.777 kr
» Style útgáfa 6.690.777 kr
Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 19. júlí.